Rss Feed
  1. Humarpasta

    Monday, December 10, 2012

    Helgin kom og fór á ótrúlegum hraða að vanda. Það var víst annar í aðventu í gær og jólaundirbúningurinn smá mjakast hjá mér. Ég er samt alltaf miklu duglegri að hugsa um hvað það væri skemmtilegt að framkvæma hitt og þetta í aðventunni en að bretta upp ermar og axjúallí gera hlutina. Það eru þó allavega komnar seríur í alla glugga og ég bakaði eina sort í gær, auk þess sem ég eyddi mestum hluta laugardags í Smáralind. Keypti reyndar bara pakka handa sjálfri mér, en það er þá allavega frá!
    En ég er barasta frekar ánægð með hvað ég gerði margt í eldhúsinu um helgina, ég bjó til ljúffengt humarpasta á laugardagskvöld, æðislegar bananavöfflur í árbít á sunnudag og bakaði smákökur a la mamma. Svo gerði ég nokkrar prufur að jólapakkadótaríi sem ég get ekki sagt frá strax. Hæ fjölskylda!

    Mér fannst svo ofboðslega kósý hjá okkur Sibbmündi á deitkvöldinu í seinustu viku þegar við borðuðum hreindýr að ég ákvað að hafa aftur svona kósý laugardag. Við eigum alls kyns góðgæti í frysti, humar og nautasteik og fleira, sem við erum ekki nógu dugleg að elda úr, ég er alltaf að bíða eftir einhverju spes tækifæri. En það er argasti kjánaskapur, auðvitað á maður bara að halda upp á hversdaginn líka, carpe diem og allt það. Ég skoðaði einhverjar uppskriftir á netinu að humarpasta, en þar var laukur, sellerí og fleira grænmeti sem mér finnst alls ekki passa með humri, svo ég ákvað bara að láta tilfinninguna ráða hendi. Útkoman var rosalega gott, rich humarpasta með hvítlauks-rjómasósu. Namm. Þetta er það sem ég gerði:

    Humarpasta fyrir tvo
    9 vænir humarhalar (magn eftir stærð og matarlyst)
    2-3 hvítlauksrif
    smjör
    sítrónusafi
    sítrónubörkur
    steinselja
    hvítvín
    rjómi (ég notaði venjulegan, en myndi mæla með matreiðslurjóma)
    salt og pipar
    140 g Tagliatelle pasta
    Ég sauð pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Humarinn var í skelinni svo ég skelfletti og hreinsaði hann. Svo setti ég smjör á pönnu ásamt rifnum hvítlauk og þegar það var orðið heitt skellti ég humrinum út í og bætti svo safa úr hálfri sítrónu út í. Þegar humarinn var rétt svo eldaður í gegn tók ég hann upp úr og lagði til hliðar og hellti u.þ.b. 1/2-1 dl af hvítvíni út í og lét vínið aðeins sjóða úr, ásamt rifnum berki af eins og fjórðungi af sítrónu. Svo bætti ég rjómaskvettu út í og hitaði vel. Ég saxaði steinselju og bætti út í sósuna og tók smá af pastavatninu og bætti saman út, svo sósan myndi loða vel við pastað. Svo fór pastað sjálft og humarinn ofan í og ég hrærði þetta vel saman.

    Ég bar þetta fram með steinbökuðu baguette brauði sem ég fann í Bónus, og það var mjög gott. Ég ætlaði að láta sósuna vera nægilega mikla til að geta dýft brauðinu ofan í, en hún var það þykk að það gekk eiginlega ekki upp. Ég setti því ögn af smjöri og sítrónusafa í pott með hvítlauksrifi og bræddi saman til að geta dýft brauðinu í. Himneskt. Eina krítíkin sem ég hef á réttinn eins og ég gerði hann var að ég var aðeins of rausnarleg á rjómaskvettuna, næst myndi ég passa betur upp á skvettumagnið (nýtt orð) og helst nota matreiðslurjóma. En mikið var þetta gott. Í eftirrétt/kvöldsnarl voru svo jólamandarínur, enda hefur maður enga lyst á einhverju öðru gúmmelaði á eftir þessu.

    Ég held ég láti svo sunnudagsbaksturinn í annað blogg. 

    Þangað til næst,
    Ragnhildur




  2. kósý kvöld með stæl

    Monday, December 3, 2012

     Við fengum óvænt gefins hreindýrasteik á föstudaginn og ákváðum að gera okkur glaðan dag á laugardagskvöld með steik og fíneríi. Það veitti ekki af því við erum bæði búin að vera á fullu í alls kyns verkefnum og vinnu og höfum undanfarið lifað á tilbúnum eða súper fljótlegum og einhæfum mat. Við reyndum þó að gera máltíðina frekar einfalda (lesist, sem minnst uppvask) en þetta endaði samt í mjög góðri og sparilegri máltíð. Ég vildi að við værum miklu duglegri að taka okkur til og hafa fínt fyrir okkur tvö, það er svo skemmtilegt.

    Steikin var frosin á föstudag og ég lét hana standa í skál í ísskáp yfir nótt og lét hana svo standa á borðinu í góðan tíma á laugardaginn með smá ólívuolíu, salti og pipar. Svo tók ég saman alls kyns grænmeti; kartöflur, sæta kartöflu, rófu, gulrætur og grasker (butternut squash) sem ég skar niður í teninga og setti í fat með smá vatni, olíu, salti, pipar og þurrkuðu timjani og inn í 200°C heitan ofn.

    Næst hitaði ég smjör á pönnu og steikti kjötið á báðum hliðum til að loka því og fá fallegan steikingarlit á það, setti það svo í ofnskúffu og inn í ofninn. Ég lét kjötið vera í 25 mínútur, þetta voru 700-800 grömm, og svo hvíldi ég það á borði í 10 mínútur áður en ég skar það. Grænmetið var áfram inni þar til það var búið með um 50-60 mínútur. Þegar kjötið var komið úr ofninum gerði ég sósuna.

    Ég tók sömu pönnu og ég steikti kjötið í, hellti smjör/vökvanum af steikinni ofan í hana og bætti við 2 dl vatni og hrærði svo venjulega pakkapiparsósu út í. Ég sauð hana samkvæmt fyrirmælum á pakkningu og bætti svo 1/2 dl af rjóma út í.

    Þetta var allt og sumt. Svo lögðum við á borð og kveiktum á kertum og nutum matarins. Það eina sem ég hefði viljað bæta var að mig vantaði eitthvað grænt á diskinn. Það hefði getað verið soðið brokkolí eða ferskt salat eða eitthvað svoleiðis, en að öðru leyti heppnaðist máltíðin mjög vel.

    Þar til næst,
    Ragnhildur

  3. Kjúklingabaunir í hádegismat

    Thursday, November 29, 2012

    Kjúklingabaunasalat
    Það getur verið afskaplega þreytandi að finna hádegismat á hverjum degi í vinnunni. Það þarf helst að vera eitthvað hollt, saðsamt, ódýrt og fljótlegt. Ég er líka mjög gjörn á að festast í því sama dag eftir dag, brauð og meira brauð.
    Ég er mjög hrifin af kjúklingabaunum og fór að spá hvort það væri ekki hægt að gera einhvern góðan hádegismat úr þeim, annan en hummus borðaðan með brauði.
    Eftir smá grams á internetinu og í skápum og skúffum endaði ég á þessu salati sem ég var mjög ánægð með. Kjúklingabaunirnar ristaði ég á pönnu með kryddi og það var alveg ótrúlegt hvað þær urðu góðar. Ég borðaði alveg aðeins of margar beint af pönnunni, en ein dós ætti að duga í tvö salöt, ef helmingurinn fer ekki beint upp í munn.

    Kjúklingabaunasalat
    1 dós kjúklingabaunir
    ólívuolía
    salt og pipar
    malað cummin
    paprikuduft
    chilliduft eða cayenne pipar ef vill
    Ég hitaði olíu á pönnu og skellti baununum út í. Svo kryddaði ég baunirnar og smakkaði til, þar til þær voru orðnar mjög heitar og komið gott kryddbragð af þeim. Ég kældi þær svo niður til að kálið myndi ekki visna undan þeim.

    Salatið var einfalt, kál, paprika, gúrka, þurrkuð trönuber og fræblanda og svo kjúklingabaunirnar út á. Ég bætti svo fetaosti við í vinnunni og notaði ögn af fetaolíunni sem dressingu.

    Mjög einfalt og fljótlegt að gera, afskaplega handhægt fyrir nesti og hitinn af kryddinu gerir salatið svolítið vetrarlegt.

    Þar til næst,
    Ragnhildur

  4. Heitt heitt heitt súkkulaði

    Sunday, November 25, 2012

    Nú er akkúrat sá tími árs þar sem heitt súkkulaði er alveg nauðsynlegt til að kæta mann og hlýja. Það er svo dásamlegt að kúra sig niður í sófann að kvöldi til í kósýfötum með bolla af heitu súkkulaði og spjalla eða horfa á sjónvarpið og sömuleiðis að dreypa á heitu súkkulaði með ristabrauðinu á sunnudagsmorgni og lesa blöðin. Það er svosem alveg nóg að kaupa gott instant kakó og blanda í heitt vatn, ég keypti t.d. Galaxy kakómix í Iceland um daginn sem er mjög gott. En það jafnast auðvitað ekkert á við alvöru heitt súkkulaði, með góðu súkkulaði bræddu út í mjólk. 
    Ég er mjög hrifin af því að nota bragðbætt súkkulaði til að gera súkkulaðið svolítið svona extra jömmí. Ég geri gjarnan súkkulaði úr dökku piparmyntusúkkulaði eða dökku appelsínusúkkulaði. Stundum blanda ég saman bragðbættu súkkulaði við hreint suðusúkkulaði, það fer svolítið eftir hvort mig langi í mikið bragð eða bara smá vott. Svo má auðvitað nota smá kanil eða chilli fyrir súkkulaði með extra kicki, eða dropa af koníaki fyrir fullorðinskakó. Namm. Það samt kannski á síður við á morgnana.
    Svo hef ég fryst afgangs þeyttan rjóma í klakaformum og silíkonmótum. Þá á maður tilbúinn rjóma til að skella út í einn-tvo bolla af súkkulaði án fyrirvara. Alveg dásamlega handhægt, og svo skemmir heldur ekki fyrir að hafa fljótandi hjörtu í bollanum. 

    Þar til næst,
    Ragnhildur




  5. Ó-ráð

    Wednesday, November 21, 2012

    Hér er eitt gott ráð handa ykkur lesendur kærir. Ekki raspa niður súkkulaði í smáar flögur við hliðina á tölvunni eða öðrum verðmætum eins og ég gerði í kvöld. Um leið og ég lyfti brettinu upp af borðinu fauk súkkulaðið af brettinu og yfir tölvuna, sem var í gangi og orðin vel heit! Sem betur fer urðu engar stórskemmdir, h og v takkarnir hættu að virka í smá stund en til allrar lukku hefur súkkulaðið undir þeim bara bráðnað ofan í tölvuna núna.

    Alltaf lærir maður eitthvað nýtt,
    R

  6. Súkkulaðiást

    Tuesday, November 20, 2012

    Getur einhver giskað hvaða vöru ég nota í næsta Gestgjafaverkefni? Ég var að fá sendinguna til að nota í kynninguna á föstudaginn, takið eftir að það er strax búið að opna einn pakkann hihi....

    Ég var að fá nýju myndavélina mína í hendurnar, ég þarf að kynna mér stillingarnar á henni og læra að taka almennilegar matarmyndir og þá vonandi verður bloggið mitt ofurfagurt og myndskreytt!

    Ég geri allavega myndaprufur þegar ég fer að vinna með G&B súkkulaðið.

    Súkkulaðikveðja úr eldhúsinu
    R

  7. Bergsson og Borgarleikhúsið

    Saturday, November 17, 2012

    Ég átti svo yndislegt föstudagskvöld í gær með Unu systur og Ástríði vinkonu hennar. Við áttum miða á Gullregn í Borgarleikhúsinu en náðum okkur fyrst í mat á Bergsson Mathúsi og borðuðum heima. Við fengum okkur spínatlasanja staðarins og það var himeskt, það var svo gott. Bergsson er að verða einn af mínum allra uppáhaldsstöðum til að borða, maturinn er svo góður og hollur. Súrdeigsbrauðið þeirra líka, það er algjörlega to die for. Að sjálfsögðu hugsaði ég ekki út í að taka mynd af matnum fyrr en ég var búin með hann og búin að sleikja diskinn, svona nánast.

    Eftir matinn drifum við okkur svo í leikhúsið á Gullregn. Þessi sýning er svo frábær, ég mæli hiklaust með henni. Þetta verk er svona, samfélagsádeila í nútímanum og kemst alveg óþægilega nærri sannleikanum, en samt getur maður ekki annað en hlegið, nákvæmlega af sömu ástæðu. Halldóra Geirharðs leikkona leikur svo brálæðislega fyndinn karakter, ég hélt á stundum að ég myndi hreinlega pissa á mig úr hlátri. Svo er öll umgjörðin líka alveg upp á tíu. Leikmyndin er frábær, alveg niður í minnstu smáatriði og skiptingarnar á milli atriða er mjög flottar, en óvenjulegar fyrir leikhúsið.

    Þannig að ef ykkur langar í góða kvöldstund þá mæli ég með mat frá Bergsson og Gullregnssýningunni.

    Þangað til næst,
    R

  8. Vetur konungur og myrkrið er allsráðandi

    Thursday, November 15, 2012

    Chicken soup for the body and soul
    Stundum koma svona dagar eða vikur þar sem orkan hjá mér er gjörsamlega í núlli og þá hrúgast verkefnin auðvitað inn á sama tíma. Ég er búin að vera á þönum alla vikuna og hef ekki náð að elda neitt af viti, en samt langað svo mikið í heitan og góðan mat sem yljar kropp og sál og ekki síst vegna vetrarveðursins úti. Ég varð því brálæðislega æst af gleði á leiðinni heim í dag þegar ég mundi að ég átti einn skammt af kjúklingasúpu í frysti frá því um daginn.
    Ég eldaði hana í hádegismat á laugardegi fyrir nokkrum vikum þegar litli frændi minn var í heimsókn og veðrið var einmitt að gera okkur lífið leitt. Þá tók ég til í ísskápnum og setti slatta af þessu og dass af hinu en hún kom ljómandi vel út. Ég man í grófum dráttum hvaða hráefni ég notaði en svona súpur eru svo æðislegar því þær koma alltaf vel út. Þá bar ég hana fram með sýrðum rjóma, osti og nachos en í kvöld grillaði ég hálfa samloku með osti fyrir mig, en með osti, salsa og skinku fyrir betri helminginn. Svo átti ég rosalega gott jalapeno sour cream nachos sem ég keypti í Nóatúni, sem ég get mælt með, hvort sem er með súpu eða eintómt.

    nomnomnom
    Kjúklingasúpa í grófum dráttum
    olía
    1 laukur
    1 hvítlauksrif
    1 rautt chilli ef vill
    1 paprika
    3-4 gulrætur
    2 dósir tómatar (má nota passata eða tómatsafa með)
    væn skvetta chilli tómatsósa
    1-2 dósir vatn, eða eftir smekk
    1-2 teningar kjúklingakraftur
    salt og pipar
    cayenne pipar ef vill
    1 dós nýrnabaunir
    eldaður kjúklingur, ca 2 bringur eða 1/2 kjúklingur

    Skerið grænmetið í litla bita og steikið í olíu á miðlungshita í stórum potti í góða stund. Bætið tómötunum, tómatsósu, vatni og krafti út í og látið malla í að lágmarki 30 mínútur, en helst í að minnsta kosti 60 mínútur, eða þar til grænmetið er alveg eldað í gegn. Magnið af vökvanum fer svolítið eftir því hvað þið viljið sjálf hafa súpuna þykka og mikla. Þið getið byrjað á einni dós af tómötum og bætt hinni við seinna ef ykkur finnst þurfa. Takið af hitanum og maukið með töfrasprota eða blandara ef vill. Setjið aftur á hita, kryddið með salti og pipar. Skerið kjúklinginn niður og bætið út í ásamt nýrnabaununum og hitið í gegn.
    Svo mæli ég með því að frysta afganginn í litlum boxum fyrir langa daga eins og í dag. Það getur alveg bjargað manni.

    Það eina við að vera lítið heimili með stóran súpupott er að mann langar kannski ekki í sömu súpuna fjórum sinnum í matinn, þótt ég eigi reyndar yfirleitt auðvelt með það. En ég var að spá hvort maður gæti ekki komið á fót einhvers konar súpu-skiptimarkaði í fjölskyldu- og vinahópnum? Eldað stóran skammt af súpu og sett í lítersbox og skipt á súpum við aðra! Þá ætti maður kjötsúpu, mexíkóska súpu, þykka grænmetissúpu, thaílenska súpu og gulrótarsúpu eða eitthvað álíka til í frystinum. Kannski er ég bara þreytt, en mér finnst þetta bráðskemmtileg hugmynd. Got soup?

    Þar til næst,
    Ragnhildur

  9. Full helgi matar

    Tuesday, November 13, 2012

    Ég er enn að jafna mig á öllum frábæra matnum sem ég borðaði um helgina. Ég fór á þrjá veitingastaði og í tvær veislur og það er því ekki skrýtið! En helgin var æðisleg í alla staði enda var var ég í góðum félagsskap. Þessi ofur-matarhelgi byrjaði eiginlega á fimmtudaginn með matarboðinu. Á föstudaginn fór ég svo á Bergsson Mathús í hádegismat, fékk dásemdar Thai súpu og súrdeigsbrauð að sjálfsögðu. Ég mæli svo sannarlega með Bergsson, maturinn þar er svo hollur og góður.
    Um kvöldið fór ég svo með vinnunni á Austur-Indía fjelagið og pöntuðum við öll Hátíð Ljóssins matseðilinn. Maturinn var himneskur, fimm réttir sem voru hver öðrum betri, og lambið með myntusósunni. Namm. Ekki skemmdi rauðvínið fyrir matnum heldur.
    Á laugardaginn var svo mjög fjörugt og skemmtilegt tvöfalt barnaafmæli í hádeginu með yndislegum veitingum, súpu, brauði, kökum og öllu tilheyrandi og matarboð um kvöldið með geðveikt góðri vetrarsúpu og alls kyns meðlæti.
    Sunnudagsmorguninn hófst svo á brunch á Nítjándu! Ég var ekkert að grínast, þessi helgi var löðrandi í mat. Enda lá ég afvelta í sófanum restina af sunnudeginum á meltunni og þegar það var kominn tími á kvöldmat... þá var ekki séns að slaka eitthvað á í kröfunum, brauð með bökuðum baunum og osti! ha ha.

    En þessi helgi varð líka til þess að ég náði ekkert að elda eða baka sjálf. En ég hlýt nú að bæta úr því innan bráðar. Ég ætla líka að fara og kaupa mér myndavél enda löngu kominn tími til, það er svo ótrúlega leiðinlegt að setja inn ljótar myndir á matarblogg.
    Þar til næst,
    R

  10. Ítölsk hrefna og dásamlegt salat

    Thursday, November 8, 2012

    Ég ligg upp í sófa með fartölvuna í fanginu, gjörsamlega uppgefin eftir að hafa eldað og vaskað upp fyrir þriggja rétta, sex manna matarboð í kvöld. En það var vel þess virði fyrir ljúfa kvöldstund og góðan mat. Ég keypti hrefnuhakk í Iceland í einhverju gríni í haust og henti í frystinn en vissi ekkert hvað ég ætti að elda úr því. En ég ákvað loks að prófa það í rétt og gera ítalskar kjötbollur. En þar sem ég var í þessari tilraunastarfsemi þorði ég ekki annað en að hafa forrétt líka, svona svo að ef bollurnar væru lýsislegnar og óætar, að fólk hefði eitthvað ofan í sig.
    Forrétturinn var salat með ofnbökuðum rauðrófum, geitaosti og pekanhnetum, ég fann uppskrift sem ég hafði til hliðsjónar á Skinnytaste, sem er ein af mínum uppáhalds matarbloggum. Salatið heppnaðist svo vel, ég hefði getað borðað mér til óbóta af því.
    Hrefnuhakkbollurnar voru svo í aðalrétt, ásamt tagliatelle og einfaldri tómata-sósu, smá útúrsnúningur frá kjötbollum frá Nönnu, og í eftirrétt var ostakaka sem ég átti í frysti frá því ég var að baka fyrir Gestgjafann seinast, Twix og m&m ostakaka og ég sá einmitt í Hagkaup áðan að blaðið er komið í verslanir. Þetta hljómar kannski krakkalega, en ég er mjög ánægð með hvernig ostakakan kom út og auðvitað má sleppa m&minu og þá er hún meira elegant. Ég set kannski uppskriftina af henni inn seinna, en hún er í Kökublaði Gestgjafans fyrir þá sem vilja kíkja. 

    Salat með rauðrófum, geitaosti og pekan
    1/2 rauðrófa
    Gott blandað salat, helst íslenskt, eitt búnt/poki/kassi
    75 g pekan hnetur
    100 g geitaostur
    2 msk ólívuolía
    2 msk balsam edik
    1 msk hunang
    auka olía, salt og pipar

    Hitið ofn í 200°C. Takið hálfa rauðrófu, afhýðið hana og skerið í teninga. Setjið rauðrófuna í eldfast mót, dreypið olíu yfir og saltið og piprið. Bakið í ofni í 50-60 mínútur. Kælið í um hálftíma. Ristið hneturnar á pönnu. Setjið olíu, balsam og hunang í litla krukku og hristið saman, hellið yfir salatblöðin og veltið vel saman með höndunum í skál. Skiptið salatinu á diska eða setjið á fallegt fat. Dreifið rauðrófunum yfir ásamt pekanhnetunum og klípið geitaostinn í litla bita yfir. Saltið ögn og piprið. 

    Ítölsk hrefna
    (er hvalur ekki daglegt brauð á Ítalíu?)
    1/2 laukur
    1 hvítlauksrif
    2-3 ristaðar brauðsneiðar
    1 egg
    salt
    pipar
    börkur af 1/2-1 sítrónu
    2-3 msk rautt pestó
    600 g hrefnuhakk

    Skellið lauk, hvítlauk og brauði í matvinnsluvél og saxið. Bætið eggi, salti, pipar, sítrónuberki og pestó út í og blandið vel saman. Hrærið út í hrefnuhakkið í skál og blandið vel saman. Gerið kjötbollur úr deiginu, það er fínt að nota mæli-matskeið til að fá þær jafnar og passlega stórar. Setjið í eldfast mót og bakið í 18-20 mínútur. Gerið sósuna á meðan. 

    Sósa
    1 krukka tómat Passata
    1 tsk ítölsk kryddblanda
    1 tsk óreganó
    2 msk rautt pestó
    salt og pipar
    Setjið öll hráefnin í stóra pönnu og hitið rólega á lágum hita. Smakkið til. Bætið kjötbollunum svo út í sósuna og berið þannig fram. 

    Berið fram með 350 g af tagliatelle sem er soðið skv. leiðbeiningum á pakka. 

    Bon Appetit. 


  11. Morgunverður fyrir B-manneskjuna

    Sunday, November 4, 2012

    Ég tilheyri hinum alræmda hópi B-manneskja. Ég fer seint á fætur, þýt um íbúðina í leit að því sem ég þarf að taka með mér og hleyp út 10 mínútum of seint og alltaf án þess að fá mér morgunverð. Svo var það í haust að ég rakst á uppskrift að hafragraut sem er búinn til kvöldið áður og bíður tilbúinn í ísskápnum um morguninn. Síðan þá hefur þetta verið morgunmaturinn okkar beggja á heimilinu. Þessi hafragrautur er súper-einfaldur og fljótlegur, það þarf ekki að elda neitt og hann er svo bragðgóður að það er hálfótrúlegt að öll hráefnin séu svona holl fyrir mann.

    Einn af fyrstu grautunum sem ég gerði, með AB mjólk, höfrum, chia, banönum og jarðarberjum

    Næturhafrar:
    1/4 bolli grófir hafrar (30 grömm)
    1 tsk Chia fræ
    1/4 bolli létt AB mjólk
    1/4 bolli léttmjólk
    1/4 bolli bananar, skornir í bita
    u.þ.b. 7 frosin hindber
    vanilla og/eða kanill
    hunang ef vill

    Hráefnin fara öll í krukku, loki smellt á og allt hrist vel saman (ég set vanillu í minn skammt og Sigurgeir fær hunang og kanil). Skellið svo krukkunni inn í ísskáp yfir nótt. Takið hana út um morguninn aðeins áður en það á að borða grautinn, til að ná mesta kulinu af. Ég tek minn alltaf með mér og borða í vinnunni. Mér finnst líka bráðfyndið að labba um með hafragraut í veskinu.
    Mér finnst svo krúttulegt að setja grautinn í glerkrukku, en auðvitað dugar hvaða ílát sem er, svo lengi sem það er lok á því. Samanhristur grauturinn er svo sem ekki mikið fyrir augað, en bragðgóður er hann!

    Ég hef prófað að hafa bara AB mjólk og bara venjulega mjólk, en mér finnst grauturinn verða mátulega þykkur þegar ég blanda saman til helminga. Svo er líka mjög gott að hafa fersk jarðarber í stað hindberja.  Ég hef líka prófað frosin bláber og brómber, en er hrifnari af rauðu berjunum.

  12. We're cooking up a rainbow today

    Wednesday, October 31, 2012

    Þessi auglýsing var sýnd reglulega seinasta vetur þegar ég bjó í Manchester og var í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún minnir mann á hvað það er hægt að elda margt skemmtilegt úr grænmeti og litirnir í henni eru æðislegir. Samt er hún pínulítið "violent" og  hún minnir mig á nokkurskonar skrýtið-en-skemmtilegt sambland af Dexter og Tom Waits.

    Ég held ég eldi grænmeti í kvöld.

  13. Frónið og fjárhirðabaka

    Sunday, April 15, 2012

    Þá er maður farinn að huga að heimkomu til Frónsins fríða. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, mér finnst ég enn vera að læra inn á Manchester og að koma mér fyrir, og þá er kominn tími til að pakka og kveðja. Það er líka svo margt sem ég hef ekki gert sem ég ætlaði mér. Ég sá fyrir mér að ég myndi ferðast meira um Bretland, en það gekk ekki alveg upp samhliða því að lifa sparsamlega sem og að Sigurgeir vinnur/lærir allar helgar. Við ætlum þó allavega að kíkja til London um næstu helgi. Ég veit ekki hvað mig langar að gera þar annað en að hitta skemmtilegt fólk, ég nenni ekki á söfn og ætla ekki að versla (kannski kíkja í eina búð) en allar hugmyndir að "what to do in London" eru vel þegnar.

    Ég á líka eftir að fara á svo marga veitingastaði sem mig langar á hérna, og elda úr hráefnum sem eru ekki til heima. Ég er til dæmis enn ekki búin að prófa að nota ansjósur í mat eins og Jamie og Nigella nota svo oft, ekki búin að nýta mér nægilega mikið úrvalið af kalkúna- og kjúklingahakki og öðru þvíumlíku, ekki búin að borða jafn mikið úrval af baunum og öðru grænmeti og ég hélt o.s.frv. Vetrartíminn er svosem kannski ekki tíminn til að ætla sér að borða rosa ferskt og nýtt grænmeti. En ég prófaði þó allavega að elda andaleggi um páskana sem heppnuðust mjög vel.
    Andaleggir eru ótrúlega ódýr og bragðgóður matur. Einn leggur (með læri) á mann er alveg passlegt magn, og 2 leggir kostuðu £2.50, eða um 500 kall. Ég eldaði þá eftir Nigellu uppskrift, í ofni með salti, pipar og timian, ekkert mál. Ég ætla að prófa mig eitthvað áfram með andaleggi áður en ég kem heim og mun að sjálfsögðu blogga um hvernig það fer.

    Ég eldaði Shepard's Pie í gær eftir þessari uppskrift, nema að lambahakkið var uppselt svo ég notaði nautahakk, og bætti við sveppum og setti meiri Worchestershire sósu og bætti við tómatsósu og salti og pipar. En hún heppnaðist vel og Sibbmundur var mjög ánægður með matinn og heimtaði svona aftur fljótt.

    Núna er ég að horfa á brúnu ofþroskuðu bananana í eldhúsinu og hugsa um hvað mig langi í úr þeim...


  14. Fljótlegt pasta

    Monday, April 2, 2012

    Mér finnst ég alltaf verða betri og betri að finna hluti í ísskápnum og elda án þess að fylgja uppskrift eða réttum sem ég hef borðað áður. Ég verð að segja að mér finnst það svolítið skemmtilegt þegar eitthvað samansull bragðast svona vel. Þessi pastaréttur er rosalega einfaldur og fljótlegur og ég var nú ekkert að finna upp hjólið en mér fannst hann mjög góður á bragðið.




    Penne pasta fyrir tvo (170-200 gr)
    150 gr strengjabaunir (um það bil)
    1 lítið hvítlauksrif, rifið/saxað
    1 stk lítill grænn chili pipar, ég notaði thin chili-veit ekki hvort það sé eitthvað öðruvísi.
    4 sólþurrkaðir tómatar
    olía, smjör
    salt og pipar

    Ég hitaði vatn í potti að suðu, saltaði og hellti pastanu út í. Ég skar strengjabaunirnar í tvennt, en þær mega auðvitað vera heilar, og setti þær út í pastapottinn þegar fjórar mínútur voru eftir af suðutímanum á pastanu. Á lítilli pönnu hitaði ég oliu og smá smjörklípu og steikti hvítlaukinn, chiliið og tómatana. Ég hellti svolítlu af olíunni af tómötunum út á pönnuna svo ég væri örugglega með nóg til að þekja allt pastað. Ég saltaði vel og setti smá pipar. Ég hellti pastanu og baununum í sigti og setti svo aftur í tóman pottinn og hellti tómatolíusósunni út í og hrærði saman. Þetta var rosalega fljótlegur og einfaldur réttur og mikið agalega fannst mér hann góður á bragðið. Ég ætla að gera þennan rétt aftur, það er nokkuð víst. Sósan er eiginlega bara eins og salatdressing á pastað og baunirnar, og chiliið og saltið gáfu gott kick.


  15. Það er búið að vera svo gestkvæmt undanfarið að ég hef ekki gefið mér neinn tíma í bloggið. Mamma og Arndís Þóra komu í heimsókn um daginn í alveg frábæra ferð. Við eyddum dágóðum tíma í Primark, HM og M&S, svona eins og sönnum Íslendingum sæmir en gengum líka um borgina, fórum í dagsferð til Liverpool og út að borða góðan mat, á Jamie's Italian þar sem ég borðaði heimsins bestu ólívur og á pítsustað þar sem ég fékk mér marokkóska pítsu með lambi, mangó, myndu og jógúrt sem var delish.
    Svo var Óskar vinur okkar að fara héðan í morgun eftir mjög skemmtilega helgi með súkkulaðifestivali og helling af bjór, svona meðal annars. 

    Ramsbottom
    Súkkulaðifestivalið var haldið í bænum Ramsbottom sem tilheyrir Stór-Manchester svæðinu. Það tók okkur strætóferð, tramferð og aðra strætóferð til að komast þangað og á leiðinni sá ég hesta, kindur og hænur, sveitabæi og tún. Það var mjög skemmtilegt að fara aðeins út fyrir borgina, þar sem við erum nánast alltaf í miðbænum. Bærinn er yndislega fallegur og súkkulaðifestivalið var frábært. Þar voru sölubásar með alls kyns góðgæti, matartjöld og bjórtjald með súkkulaðibjór. Súkkulaðibjórinn var mun betri en ég bjóst við, dökkur með smá súkkulaðitónum. Ég hefði nú samt ekki viljað kaupa mér kippu af súkkulaðibjór til að sötra á í partýi, ekki frekar en annan dökkan bjór.Við röltum um, fengum að smakka svolítið á súkkulaði og líka á súkkulaðivíni, drukkum bjór og fengum okkur í gogginn. Mér finnst svona markaðir svo skemmtilegir, það er svo mikið líf og fjör í kringum þá. 

    Innihaldið í ísskápnum er eitthvað fátæklegt eftir helgina, enda var plássið nýtt undir bjór, maður verður að forgangsraða þegar maður er bara með sýnishorn af ísskáp. En ég ætla að elda pasta með baunum (green beans) í kvöld þar sem ég á mest lítið annað og vona að það verði í lagi. Ég læt vita hvernig það fer, svo á ég líka eftir að blogga um kjúklingabaunarétt sem ég henti saman í seinustu viku.


  16. Allt sem er grænt grænt

    Wednesday, March 14, 2012

    Það er komið alvöru vor í Manchester og páskaliljurnar komnar upp um allan bæ. Ég er því minna í skapi fyrir súpur og kássur og meira í skapi fyrir salöt og þess háttar. Ég fann að lokum fljótlegan og þægilegan hollan kvöldverð til að gera eftir vinnu í gær á Skinnytaste, salat með kjúklingabaunum.
    Ég fylgdi uppskriftinni nánast alveg, mældi hráefnin kannski ekki nákvæmlega og notaði spínat í stað ruccola. Salatið var mjög gott á bragðið og alveg rosalega einfalt og fljótgert. Þetta var samt alveg rosalega léttur kvöldverður og ég myndi næst annaðhvort gera salatið í nesti eða hádegismat, eða bera það fram með einhverju fleiru í kvöldmat. Ég held einnig að það væri enn betra með ruccola eins og í uppskriftinni, ég þurfti bara að kaupa spínat því ég ákvað loksins að prófa líka að búa til grænt skrímsli í morgunmat.
    Mér finnst einhvernveginn grænir hristingar vera í umræðunni út um allt á matarbloggum og á fésinu svo ég gat ekki annað en prófað. 
    Græna skrímslið kom bara ljómandi vel út, þótt ég sé nú kannski ekki tilbúin að drekka svona á hverjum morgni. En það er ótrúlega fyndið hvernig hann bragðast bara eins og banani og hnetusmjör, ekkert spínatbragð. Svo er líka svo skemmtilegt að borða skrímsli í morgunmat og ég trúi því vel að þetta sé góð leið til að koma spínati ofan í litla krakka, ég kunni allavega að meta skemmtanagildið í grænum morgunmat.

    Í mitt skrímsli fór:
    1 lítill frosinn banani
    væn lúka af spínati
    1/2 bolli low fat vanillu jógúrt
    ca 3/4 bolli léttmjólk
    1 kúfuð teskeið hnetusmjör
    Henti þessu öllu í KitchenAid blandarann og þeytti vel, ég vildi sjá til þess að það væru engin hálfsöxuð spínatblöð fljótandi í drykknum. Ég gerði einn fyrir mig og einn hnetusmjörslausan fyrir Sibbmund og við skemmtum okkur stórvel yfir morgunmatnum. Ég vildi bara óska að ég hefði skyr til að setja í svona skrímsli, svo sé ég líka fyrir mér að skeið af Nutella eða einhverju svipuðu væri sjúklega góð í skrímslið líka, en ég er ekki viss um að það sé jafn hollt.







  17. Sól Sól skín á mig

    Tuesday, March 13, 2012

    Mér finnst svolítið fyndið hvernig lystin hjá mér breytist eftir veðri. Ég sat á bekk úti á torgi í hádeginu og sleikti sólina (þótt hitinn hafi bara verið 10 gráður) og er núna að reyna að fá hugmyndir að kvöldmat.
    Ég sé í hyllingum létt salöt og frískandi, litríkan mat fullan af grænmeti og ávöxtum. En mér er samt ekki búið að detta í hug eitthvað ákveðið eitt sem mér lýst vel á í kvöldmatinn. Því þótt í augnablikinu gæti ég dundað mér við að elda lengi verð ég í vinnunni til 5 og þarf þá að fara í búðina með fartölvuna á bakinu og versla í matinn og koma mér heim með strætó eða gangandi. Á þeim tíma er ég yfirleitt orðin þreytt, svöng og úrill svo það yrði helst að vera matur sem er fljótlegt að laga. Svo þarf maturinn einnig helst að vera úr frekar ódýru hráefni. Úff þetta er erfitt. Einhverjar uppástungur að ódýrum, hollum og fljótlegum kvöldmat? Er ég nokkuð að biðja um of mikið? Ég enda kannski bara á að kaupa hummus og gulrótastangir...


  18. Ó Jósep Jósep

    Saturday, March 10, 2012

    Mikið endalaust gerir breska Joseph Joseph kompaníið skemmtilegar eldhúsvörur. Ég var að sjá nýja matreiðslubókastandinn þeirra og hann er hreint út sagt brill. Hann leggst saman og lítur út eins og bók þegar hann er ekki í notkun, svo það er hægt að geyma hann upp í bókahillu! Hann er líka hannaður með venjulegar bækur sem og spjaldtölvur í huga. Ég fíla þennan græna lit reyndar ekki svo vel, myndi allavega kjósa þennan hvíta framyfir græna standinn, en ef það væri til bleikur eða gulur eða eitthvað svoleiðis...

    En ég var semsagt að splæsa í smá nýtt eldhúsdót, eina bleika Joseph Joseph sleikju, sem ég er búin að mæna á á amazon í tvö ár ábyggilega og svo í litla ískúluskeið, sem er í góðri stærð fyrir smákökur, kjötbollur og þess háttar. Með öðrum orðum, góð fyrir allt annað en ískúlur.

    Ég varð því að baka eitthvað, bara til að athuga hvort nýju græjurnar virkuðu ekki almennilega og henti í súkkulaðibitasmákökuuppskrift (gott orð í hangman!) úr Nigella Kitchen. Ég gerði hálfa uppskrift en kökurnar urðu eitthvað pínulítið skrýtnar hjá mér, gæti verið afþví að í venjulegri uppskrift er eitt egg og ein rauða og ég setti eitt egg í hálft deig, en þessi póstur er hvort sem er bara um græjurnar, ekki kökurnar.

    Joseph Joseph sleikjan er rosalega góð, svona við fyrstu kynni allavega. Þessar sleikjur eru til í þrem stærðum og litum og mín er minnsta týpan, og já ég valdi stærðina út frá litnum og skammast mín ekkert fyrir það. Það besta við sleikjuna er samt er hvað hún er tæknileg, það er járn inni í skaftinu til að þyngja það og svo er svona lítill fótur þannig að maður getur lagt hana niður án þess að sleikjuhausinn klínist í borðið. Ótrúlega sniðugt!

    Litla skeiðin virkaði líka mjög vel, hún er 39mm og kökurnar komu í passlegri smákökustærð fyrir minn smekk. Ég fékk 21 köku úr hálfri uppskrift en skv. Nigellu eiga að koma 14 kökur úr heilli uppskrift! Sigurgeir kom í eldhúsið til að prófa græjurnar líka og fannst þær virka mjög vel, svo vel að ég varð nánast að slást til að fá kúluskeiðina aftur í hendurnar.

    sko, ekkert subb á borðinu

    skrýtnu smákökurnar

  19. sunnudagsmaturinn

    Sunday, March 4, 2012

    Það versta við átak í matarblogginu er hvað maður verður að elda og borða mikið! Þetta er dörtý djobb en einhver verður að sjá um það.
    Ég ætlaði að hafa kjúklingasalat í kvöldmatinn og borða voða léttan og góðan kvöldverð en ég gleymdi að kaupa kál í búðinni, eitt leiddi af öðru og maturinn breyttist úr léttu salati í tveggja rétta sunnudagskvöldverð. Úbbs. 

    Kjúklingamarineringin kemur frá Barefoot Contessa via Guðrúnu systur. Í upprunalegu uppskriftinni eru þetta kjúklingalundir grillaðar á spjóti og bornar fram með satay sósu sem er algjörlega til að deyja fyrir, en marineringin er líka svo einföld og góð að ég geri hana reglulega, hvort sem er fyrir grillaðan kjúkling, bakaðan eða steiktan. Ég hef líka marinerað bringur og grillað og tekið með í útilegu, þá er nóg að henda þeim á grillið til að hita þær. Sjúklega góður og fljótlegur útilegumatur.

    Kjúklingur í sítrónulegi
    3/4 bolli ferskur sítrónusafi, ca 2 sítrónur
    3/4 bolli ólífuolía
    2 tsk salt
    1 tsk pipar
    1 msk ferskt timian eða 1 tsk þurrkað
    900 gr kjúklingabringur eða lundir

    Mér finnst best að henda þessu öllu saman í poka og láta marinerast en auðvitað má líka nota skál. Í grunnuppskriftinni er sagt að marinera kjötið í ísskáp í sex tíma en mér finnst alveg nóg að hafa það í tvo klukkutíma, jafnvel bara einn ef maður hefur ekki meiri tíma en hafa kjötið þá uppi á borði. En það fer líka eftir því hvort maður vilji virkilega sítrónuleginn kjúkling eða bara sítrónubragð. Í kvöld steikti ég bringurnar á pönnu, en ef þær eru mjög stórar og þykkar þá er betra að setja þær í ofninn, eða þá allavega skera þær niður áður en þær fara á pönnu. Best er auðvitað að grilla þennan kjúkling en ég bý á 7. hæð í blokk án svala og án grills og eftir því sem ég best veit er líka snjór á Íslandinu og ekkert veður til að grilla. 
    Við vorum sem áður bara tvö í mat svo ég gerði hálfa marineringu og var með tvær bringur. Ég sé eftir því núna, ég hefði átt að marinera fjórar bringur og eiga afgang fyrir nesti. 

    Svo skar ég væna sæta kartöflu í 8 bita og sauð í potti. Afhýddi svo og stappaði niður með smá mjólk, smjörklípu, salti og pipar. Svo var salatið bara paprika, gúrka og fetaostur með smá olíu og balsam. Alveg hreint hin fínasta sunnudagsmáltíð. En ég var komin í ham svo það varð að vera eftirréttur líka.

    Pönnukökur með banana og súkkulaði
    Ég held það sé nú algjör óþarfi að setja pönnuköku uppskrift á netið, það eiga allir uppskrift frá mömmu sinni eða frá botninum á pönnunum sem eru seldar heima. Ég gerði bara hálfa uppskrift af deigi og steikti pönnsur. Ég er soddan hippi að ég á ekki einu sinni pönnukökupönnu, nota bara einhverja þunnbotna, ójafna, hræðilega pönnu sem fylgdi með íbúðinni en pönnsurnar verða fínar samt sem áður. 
    Svo tók ég hálfa plötu af suðusúkkulaði og bræddi í smá rjómaskvettu og smurði á pönnsuna og setti bananasneiðar inn í. Toppurinn hefði svo verið ef ég hefði átt nægan rjóma til að þeyta líka en svo var ekki raunin. Þetta var samt alveg sjúklega gott og Sibbmundur varð þvílíkt glaður og hissa, en þetta er eitt það besta sem hann veit. Núna eru fjórar pönnsur eftir sem mig grunar að verði horfnar í fyrramálið.

    Svo verð ég að fara að fjárfesta í myndavél, ég tek allar matarmyndirnar á iphone-inn minn, sem er ekki næstum því nýjasta týpan, og þess vegna eru þær allar svona ómerkilegar. 

    Happy cooking! X



  20. kósýkjúklingur

    Saturday, March 3, 2012

    Ég ákvað að nefna þennan rétt kósýkjúkling því mér datt ekkert betra orð í hug yfir eitthvað sem væri eins og comfort food. Þessi kjúklingur er fullkominn þegar mann langar í djúsí og djúpsteiktan óhollustukjúkling, en vill ekki alveg detta í sukkið. Þetta er ekta helgarmatur, og mjög auðveldur í framkvæmd. Ég eldaði hann á föstudaginn og við vorum svo gráðug í matinn að við borðuðum hann áður en ég mundi eftir að taka mynd.  Ég var með 5-6 kjúklingalundir fyrir okkur tvö og gerði hálfa uppskrift af mylsnunni en ég set hér uppskriftina heila, sem passar þá fyrir fjóra.

    Kjúklingur
    900 gr kjúklingalundir, eða bringur skornar langsum
    1/3 bolli hveiti
    1/3 bolli brauðraspur
    1/3 bolli mulið kornflex
    2 eggjahvítur, léttþeyttar
    1-2 tsk salt (má vera hvítlaukssalt eða eitthvað svoleiðis ef til)
    1 tsk sítrónupipar

    Ég ristaði brauðenda og reif niður í blandaranum mínum til að búa til brauðrasp en það er auðvitað hægt að kaupa tilbúinn rasp, ef þið notið tilbúinn athugið þá hvort það sé salt í honum og minnkið þá saltmagnið.
    Hveitið er sett á einn disk, eggjahvítan á annan, eða í skál og brauðraspinum, kornflexinu, saltinu og piparnum blandað saman á þriðja disknum.
    Kjúklingum er þá velt upp úr hveiti, þá eggjahvítu og loks kornflexblöndunni. Raðað á bökunarplötu eða í form, leyft að standa í 15 mínútur og svo bakað í heitum ofni í ca 15 mínútur eða þar til gegnsteikt. Ég setti smá olíu á botninn á mótið en það þarf ekkert endilega, sérstaklega ekki ef maður notar bökunarpappír undir.

    Meðlætið var svo kartöflumús og kúrbítur, bitaður niður og steiktur upp úr smjöri á pönnu með smá hvítlauk. Annars væri þessi kjúklingur líka mjög góður með frönskum, maís og hrásalati.



  21. Banananananamúffur

    Friday, March 2, 2012

    Ég fékk minimúffuform í konudagsgjöf. Ég neyddist (eða þannig) þessvegna til að baka múffur og þá kom auðvitað ekkert annað til greina en bananamúffur. Ég skil það svo innilega ekki afhverju bananamúffur eru ekki oftar til sölu á kaffihúsum og í bakaríum því þær eru svo góðar. En kannski er skemmtilegra að baka múffur heima sem eru ekki til á hverju götuhorni.

    Eftir að hafa bakað þessar múffur komst ég að því að mínímúffur eru stórhættulegar. Helmingurinn af þeim hvarf á augabragði. Þær voru æði, en ég fann það strax daginn eftir að þær voru ekki lengur ferskar, þær eru svo nettar að þær eru greinilega fljótar að þorna. Mínímúffur eru því eitthvað sem maður á að baka og neyta samdægurs, en kannski ekki einsamall. Reyndar gæti það líka haft áhrif að ég var ekki með þær í pappírformum, þau hjálpa örugglega líka við að halda þeim ferskum. Ég gerði hálfa venjulega múffuuppskrift og hún passaði í eitt 24 stykkja mínímúffin form. Þessi uppskrift er frá Nigellu og inniheldur banana og súkkulaði, en ég á líka eigin múffuuppskrift með banönum og höfrum en ég átti ekki hráefnin í hana.


    Míní-bananamúffur 24 stk
    1-1 1/2 gamall banani, stappaður
    1 egg
    1/2 dl olía
    50 gr sykur
    125 gr hveiti
    1/2 tsk lyftiduft
    1/4 tsk matarsódi
    50 gr súkkulaði
    Þeyta egg og sykur saman og bæta olíunni út í og síðan banananum. Hræra því svo út í hráefnin og blanda súkkulaðinu út í. Setja í formin og baka í 10-12 mínútur við 200°C. Svo er absólútlí nauðsynlegt að passa sig á að reka hendina ekki upp í ofninn þegar maður setur formið inn í ofninn. Formið mitt er mjúkt og úr silíkoni þannig að næst mun ég passa mig á að setja formið á grind og setja grindina svo í ofninn. Þrem dögum eftir baksturinn og ég er enn með brunaför á hendinni.

  22. Hummus er alveg eitt það besta sem ég veit um. Hann er hollur og bragðgóður og svo er bæði ódýrt og létt að búa hann til. Ég hef oft hent kjúklingabaunum í matvinnsluvél eða blandara og sett út í hitt og þetta til að prófa bragðefni.
    Í venjulegum hummus er sett tahini eða sesamsmjör, en ég nota það ekki í neitt annað þannig að ég hef ekki tímt og nennt að kaupa það, fyrir einhverja 1 teskeið í hummus. Ég hef vanalega bara sleppt því og punktur. En ég var farin að spá hvort það væri hægt að nota hnetusmjör þegar ég rakst á uppskrift í Nigella Kitchen að hnetusmjörshummus og ég hef notað það í staðinn fyrir tahini undanfarið. Hnetusmjörshummus er pínu öðruvísi á bragðið en venjulegur hummus en samt mjög góður. Ég nota minna hnetusmjör en Nigella, enda er hennar uppskrift meira hugsuð á borð með snakki og bjór eða einhverju svoleiðis, en ég nota hummusinn sem kvöldmat og nesti.
    Þessi uppskrift er mjög fljótleg, ef einhver boðar sig óvænt í mat, þá er nokkurnveginn hægt að  "elda" þetta á 10 mínútum.

    Hnetusmjörshummus fyrir 2-3
    1 dós kjúklingabaunir, hella vökvanum af og skola í köldu vatni
    2-3 msk ólífuolía
    1-2 msk hnetusmjör (byrja á einni og smakka til)
    1-2 msk sítrónusafi
    1 tsk maldon salt
    1 tsk mulið cummin (ekki kúmen)
    2-3 msk grísk jógúrt (eða sýrður rjómi eða ab mjólk eða hrein jógúrt)
    smá pipar ef vill
    Það má setja hálft hvítlauksrif en mér finnst það óþarfi.
    Henda öllu í matvinnsluvél eða blandara og hræra saman, það er allt í lagi þótt sumar kjúklingabaunirnar séu hálfsaxaðar, það kemur skemmtileg áferð ef hummusinn er grófur. Svo er bara að smakka hann til og bæta við jógúrt og olíu ef hann er of þykkur. Á Íslandi myndi ég kaupa létt-sósu með graslauk og bera fram með ásamt salati, papriku, gúrku og pítubrauði eða tortillapönnsum. Oft hita ég hummusinn á pönnu áður en ég set hann í brauðið, það kemur mjög vel út, svona þegar mann vantar að fá heitan kvöldmat. Hann þarf bara augnablik á pönnu til að hitna í gegn og það þarf að passa sig að hræra í honum svo hann brenni ekki í botninn. En ég myndi ekki gera það ef ég væri að undirbúa nesti.

    Ég gerði einu sinni líka svakalega góðan hummus með limesafa og limeberki rifnum út í, hann varð svo frískur og bragðgóður, en fólk verður auðvitað að fíla lime fyrir það. Sá hummus hentaði ekki sem máltíð, en passaði rosalega vel með tortillaflögum. Þetta minnti mig á uppáhalds Doritosið mitt sem er ekki lengur til, LimeDoritos.




  23. Bananasmákökur

    Tuesday, February 14, 2012

     Ég bakaði smákökur í gær til að eiga í sólarkaffi, það skiptir ekki öllu að ég hafi bara maulað þær með instant kaffi á skrifstofunni við tölvuna. Ég þori ekki alveg að fullyrða um að vorið sé komið hér í Manchester, þótt Valentínusardagurinn sé kominn (og næstum farinn) en það var allavega nógu hlýtt til að borða hádegismatinn á bekk úti, ég var að kafna á heimleiðinni í lopapeysu undir jakkanum og hitastigið á að vera um 10°C á daginn í vikunni.

     Ég bakaði hafra-banana-súkkulaðismákökur, uppskrift sem ég hef gert áður og finnst góð. Uppskriftina fékk ég á Skinnytaste, ég hef prófað einhverjar 2-3 uppskriftir á þessari síðu og fílað þær allar. Þær eru í hollari kantinum án þess að það sé búið að skipta út öllu fyrir rándýr heilsubúðarhráefni. Mér finnst líka svo fínt að það er búið að reikna út kaloríur og punkta og allt það á síðunni, og maður fær skammtastærð. Hvort maður hlýði því er svo annað mál. Ég þurfti aðeins að breyta uppskriftinni, ég átti ekki púðursykur, átti ekki alveg nógu mikið af höfrum og mig langaði að hafa súkkulaði en ekki hnetur og svo framvegis, svo hér er uppskriftin eins og hún endaði hjá mér:

    1 bolli hveiti
    1 tsk lyftiduft
    1/2 tsk matarsódi
    1/2 tsk salt
    1/2 tsk kanill
    2 msk smjör, við stofuhita
    3/4 bolli sykur
    1 egg
    1/4 bolli stappaður banani
    1/2 tsk vanilla
    1 1/2 bolli hafrar
    1/2 bolli suðusúkkulaðidropar

    Ég setti hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kanil saman í skál og þeytti í blandaranum mínum sykur og smjör, og bætti svo við eggi og vanillu. Ég blandaði svo blautu blöndunni út í þurrefnin og  hrærði loks hafrana og súkkulaðið út í. Ég setti frekar kúfaðar teskeiðar af deigi á tvær bökunarplötur og fékk 31 stykki úr uppskriftinni. Þetta var bakað á 175°C hita við blástur í um 11 mínútur. Ofninn hérna úti er ekkert sérlega góður, því þótt ég væri með blásturinn á voru sumar kökurnar orðnar alveg gullnar á meðan aðrar voru varla búnar að taka lit. Mér finnst þær sem eru mest bakaðar bestar, en sumir fíla kannski betur þær sem eru mýkri.

    Við vorum svo alveg brjálæðislega grand á því í kvöldmatnum og elduðum plokkfisk! Mikið var það gott, þótt að því miður sé ekki til rúgbrauð hérna (og lífrænt ræktað sólkjarnabrauð er ekki alveg það sama) en það slapp fyrir horn. Ég var líka ótrúlega flippuð og bresk á því og setti Worchestershire sósu í plokkfiskinn og það var bara fínt. Ég held það gefi alveg smá svona extra úmpfh, og svo auðvitað pipar. Pipar pipar pipar.








  24. Sætukartöflusúpa

    Thursday, February 9, 2012

    Ég elska góðar og þykkar grænmetissúpur, sérstaklega á köldum kvöldum eins og þeim sem hafa verið hérna í Manchester undanfarið. Það er svo auðvelt að elda súpu, og hagkvæmt líka. Ég eldaði sætukartöflusúpu um daginn, frysti afganginn og hitaði hann upp í kvöld þegar ég kom heim, þreytt, köld og blaut úr vetrarrigningunni.

    Þessa uppskrift fékk ég hjá hollenskri vinkonu minni fyrir nokkrum árum síðan. Í henni er:
    1 sæt kartafla, í stærra lagi
    1 kúrbítur
    1 laukur
    1 hvítlauksrif
    1 tsk-1msk karrý, fer eftir styrk og smekk
    1 líter grænmetis- eða kjúklingasoð
    rjómaskvetta

    Það þarf að saxa laukinn og hvítlaukinn og einnig flysja og bita niður kartöfluna og kúrbítinn. Laukur og hvítlaukur steiktir í nógu stórum potti í smá olíu, bæta svo kartöflu og kúrbít við og steikja í nokkrar mínútur. Bæta við soðinu, og ef það er notaður kraftkubbur og vatn, þá myndi ég mæla með því að setja ekki allt vatnið strax, það fer svolítið eftir hversu stórt grænmetið er hvort það sé þörf á því öllu. Þetta mallar svo þar til grænmetið er orðið mjúkt og þá þarf að þeyta súpuna með töfrasprota eða í blandara. Karrýinu er svo bætt út í, síðast rjómanum og súpan hituð aftur að suðu. Svo er bara að smakka þetta ögn til.
    Ég var með grillaða samloku með skinku og osti með súpunni í kvöld, en við erum ekki með samlokugrill hérna úti. Ég gat bara ekki hugsað mér að fá örbylgjuhitaða samloku, svo ég smurði smá smjöri utan á sneiðarnar, setti ost og skinku inn í og lét á heita pönnu. Ég setti pott ofan á samlokuna til að ýta á hana, hafði séð það gert i einhverjum þætti, og snéri svo samlokunni við þegar botninn var orðinn gullinn. Hún heppnaðist mjög vel og gott að vita að maður getur fengið sér grillaða samloku þótt maður sé ekki með Daisy grillið með sér. Ég hrærði svo saman ögn af majonesi og ensku sinnepi og dýfði samlokunni i, enska sinnepið sem ég á er svo svakalega sterkt að það er varla hægt að borða það nema þynna það út með einhverju.

  25. Blogger app

    Wednesday, February 8, 2012

    Ég var að rekast á Blogger síma app og varð að prófa. En skemmtilegt, nú get ég bloggað út um allan bæ og í strætó ef mér sýnist svo. Ætli ég bloggi þá oftar? Vonum það.
    Hvert er aftur íslenska orðið yfir app?

  26. Vor Valentínusardagur

    Tuesday, February 7, 2012


    Ég er almennt ekki hrifin af Valentínusardegi. Ég þoli ekki bleiku amerísku sykurvæmnina sem fylgir deginum. Ég hélt einusinni að það væri vegna þess að ég átti ekki kærasta en mér finnst þessi dagur alveg jafn mikil vemmidrulla þótt ég sé í sambandi. Ég fíla bóndadaginn og konudaginn, en túlípanar og pönnsur, og kannski smá kaka eða súkkulaði, er alveg feikinóg á þeim dögum, ekki rósablöð, kampavín og rándýr stefnumót. Ég fékk alveg grænar þegar ég fór að sjá Valentínusarauglýsingar út um allt hérna í Manchester, en svo datt í að lesa mér til um hvort það væru einhverjar sérstakar hefðir í Bretlandi á þessum degi. Þegar ég las að Valentínusardagurinn merkti upphaf vors þá varð ég glöð, allsvakalega glöð. Ég bíð óþreyjufull eftir vorinu, betri tíð og blóm í haga og öllu því. Þess vegna ætla ég að halda upp á Valentínusardaginn í ár, ekki með hjartalaga korti og súkkulaði... grín, auðvitað með súkkulaði... en meira bara með pönnsum eða skúffuköku, svona í sólarkaffistíl. Þótt ég sé hæfilega bjartsýn á að vorið hefjist í alvöru 14. febrúar þá má allavega reyna að lokka það fram með með smá bakkelsi.

  27. Handboltapóstur, aftur

    Sunday, February 5, 2012


    Ég póstaði þessu um daginn og tók svo út og er að setja aftur inn núna. Ég skrifaði þetta fyrir vinnuna því ritstjórinn ætlaði að birta póst á íslensku um handbolta í gríni, en bað mig svo að laga hann eitthvað til. En þarsem hann hefur enn ekki birst og EM löngu búið ákvað ég bara að setja þetta aftur hérna inn, svo kemur í ljós hvort hann birtist einhverntímann á síðunni þeirra.

    Með EM í handbolta í fullum gangi er skrýtið að vera í landi þar sem öllum er nákvæmlega sama, fyrir utan hvað það vita fáir af mótinu. Það að Ísland hafi endað með jafntefli gegn Frakklandi, liðinu sem þeir töpuðu gullinu fyrir á Ólympíuleikunum 2008 eða að þessi tvö lið séu bæði úr leik þykir ekki fréttnæmt hér í Bretlandi. Að mestu leyti þykir tal um Evrópumót í handbolta hlægilegt, enda er handbolti ekki fótbolti. Á sama tíma þykist ég vita að á vinnustöðum á Íslandi snúist kaffipásuspjallið að mestu leyti um síðustu leiki, hverjir séu sigurstranglegir og hver á skrifstofunni vinni nú EM vínflöskupottinn. Einhverjir fá líka að horfa á leikina í fundarherbergjum og eldhúskrókum.
    Að sjálfsögðu er þetta skiljanlegt, Bretland er ekki að keppa og Íslendingar væru ekki svona æstir yfir mótinu væri liðið okkar ekki að keppa. En ég sakna samt sem áður samstöðunnar og þjóðarstoltsins sem maður finnur fyrir heima, ásamt því að hlusta á vinnufélagana röfla um dómara og markmenn, að öskra á sjónvarpið og að storma út þegar leikirnir verða of spennandi. Einstaka fésbókarathugasemd að heiman dugar bara ekki til þegar maður er hluti af þessari litlu þjóð sem tekur öllum keppnum milli landa of alvarlega. Þess í stað held ég áfram að vera, að mestu viljandi, aðhlátursefni á skrifstofunni með því að tala um handboltann. En megi guð líka hjálpa skrifstofunni minni þegar Evróvisjón tímabilið hefst. 

  28. Hversdagsfiskur

    Wednesday, January 25, 2012

    Loksins þegar ég hætti að vera lasin þá dettur Sigurgeir í kvefpest. Dagarnir hérna eru því alveg sérlega viðburðarlausir og rólegir og ég hef ekkert að skrifa um nema kannski mat, og það þá bara rétt svo.
    Þetta er mín soðna ýsa, sá fiskréttur sem ég geri alltaf þegar það er hversdagsfiskur í matinn.

    2-3 þorskbitar
    salt og sítrónupipar
    brokkolí
    sveppir
    paprika
    tómatar
    mjólk/rjómi/sýrður rjómi/rjómaostur
    rifinn ostur

    Soðin hrísgrjón

    Ég set fiskbitana í ofnfast mót og krydda með salti og vel af sítrónupipar. Sker sveppi, brokkolí og papriku niður, set ofan á fiskinn ef ég er með lítið fat en við hliðina á ef ég er með stórt fat. Sker tómat í sneiðar og set ofan á og strái svolitlum meiri sítrónupipar yfir. Ég nota svo bara það sem er til í ísskápnum í smá sósu, hvort sem það er mjólk, rjómi, sýrður rjómi eða rjómaostur, í kvöld tók ég smá rjómaost og þynnti út með mjólk og hellti yfir. Það þarf ekki mikið, bara svo það sé eitthvað pínu blautt í fatinu til að setja á hrísgrjónin. Svo fer rifinn ostur yfir allt saman og fatinu stungið í ofn í 20 mínútur, og hrísgrjón soðin á meðan.
    Svo set ég hrísgrjón í skál, fisk og grænmeti yfir og eys smá af vökvanum yfir það. Ég er svo mikill skálaperri, ef það er mögulega hægt að borða matinn upp úr skál, þá geri ég það.

    Auðvitað notar maður bara það grænmeti sem maður á og fílar, ég var ekki vön að setja tómata en er farin að gera það alltaf núna og auðvitað gæti ég ekki eldað þetta nema með brokkolíi, en það er bara ég. Við vorum tvö og ég notaði minnir mig 6 sveppi, 1/3 af stórri papriku, 1/4 af brokkolíhaus og 2 tómata. Ég enda síðan alltaf á að bítta hluta af fiskinum mínum út fyrir smá af grænmetinu hans Sigurgeirs :)

  29. Núðlur í kókoskarrý

    Monday, January 23, 2012

    Þar sem ég er búin að vera lasin og slöpp undanfarna daga hef ég ekkert nennt í búðina. Maturinn í kvöld var þess vegna það-sem-er-til-í-skápunum-á-pönnu. Fyrst ég átti opna kókoksmjólk í ísskápnum vissi ég að ég yrði að finna eitthvað í asískum stíl og eftir smá grams í eldhúsinu og hugmyndaleit á netinu varð þetta útkoman:

    100 gr kjúklingabitar í skál með smá skvettu af soya, fiskisósu, olíu (myndi nota sesam ef ég ætti hana til), sykri og örfáum dropum af tabasco (mætti sleppa því). Ég var reyndar með platkjúkling fyrir grænmetisætur, keypti hann um daginn til að prófa og hann var alls ekki slæmur. Meat free chicken style pieces.

    Núðlur soðnar skv. pakka, ég var með medium egg noodles.

    Svo saxaði ég niður; engiferbút, hálft rautt chili, 3 vorlauka, 1/2 lítinn kúrbít og gulrótarbita. Þessu henti ég á wok pönnu og steikti upp úr smá olíu, bætti kjúklingabitunum út í og steikti áfram. Hellti hálfri dós af kókosmjólk út á pönnuna ásamt rauðu karrýi og sauð niður. Ég smakkaði þetta til og hellti sósusullinu af kjúklingnum út á pönnuna og bætti við góðri teskeið af hnetusmjöri. Núðlurnar fóru út í seinast og ég skipti þessu svo í tvær skálar.

    Sigurgeir sagði að rétturinn fengi 8 í einkunn miðað við núðlurétti og 9 í einkunn miðað við grænmetisrétti. Hann bað mig líka að skrifa uppskriftina niður og gera þetta fljótlega aftur svo ég held þessi máltíð hafi heppnast vel.