Rss Feed
 1. Morgunverður fyrir B-manneskjuna

  Sunday, November 4, 2012

  Ég tilheyri hinum alræmda hópi B-manneskja. Ég fer seint á fætur, þýt um íbúðina í leit að því sem ég þarf að taka með mér og hleyp út 10 mínútum of seint og alltaf án þess að fá mér morgunverð. Svo var það í haust að ég rakst á uppskrift að hafragraut sem er búinn til kvöldið áður og bíður tilbúinn í ísskápnum um morguninn. Síðan þá hefur þetta verið morgunmaturinn okkar beggja á heimilinu. Þessi hafragrautur er súper-einfaldur og fljótlegur, það þarf ekki að elda neitt og hann er svo bragðgóður að það er hálfótrúlegt að öll hráefnin séu svona holl fyrir mann.

  Einn af fyrstu grautunum sem ég gerði, með AB mjólk, höfrum, chia, banönum og jarðarberjum

  Næturhafrar:
  1/4 bolli grófir hafrar (30 grömm)
  1 tsk Chia fræ
  1/4 bolli létt AB mjólk
  1/4 bolli léttmjólk
  1/4 bolli bananar, skornir í bita
  u.þ.b. 7 frosin hindber
  vanilla og/eða kanill
  hunang ef vill

  Hráefnin fara öll í krukku, loki smellt á og allt hrist vel saman (ég set vanillu í minn skammt og Sigurgeir fær hunang og kanil). Skellið svo krukkunni inn í ísskáp yfir nótt. Takið hana út um morguninn aðeins áður en það á að borða grautinn, til að ná mesta kulinu af. Ég tek minn alltaf með mér og borða í vinnunni. Mér finnst líka bráðfyndið að labba um með hafragraut í veskinu.
  Mér finnst svo krúttulegt að setja grautinn í glerkrukku, en auðvitað dugar hvaða ílát sem er, svo lengi sem það er lok á því. Samanhristur grauturinn er svo sem ekki mikið fyrir augað, en bragðgóður er hann!

  Ég hef prófað að hafa bara AB mjólk og bara venjulega mjólk, en mér finnst grauturinn verða mátulega þykkur þegar ég blanda saman til helminga. Svo er líka mjög gott að hafa fersk jarðarber í stað hindberja.  Ég hef líka prófað frosin bláber og brómber, en er hrifnari af rauðu berjunum.

 2. 0 comments:

  Post a Comment