Rss Feed
 1. Barnalegur þorskur

  Tuesday, November 18, 2014

  Áfram held ég að aðlaga heimilismatinn að litla krúttmolanum okkar. Eftir tvo daga af hamborgarhryggsáti (vegna frystitiltektar) sem nota bene Hugi fékk ekki að smakka, var alveg nauðsynlegt að fá fisk. Ég sendi því strákana mína út í fiskbúð. Við erum voða glöð að vera í göngufæri við fiskbúð, það er eitthvað svo næs að geta rölt með barnavagninn eftir fiski í soðið.  Þorskur með kryddsmjörsþekju
  500 gr þorskur
  smjör
  kryddblanda
  sætar kartöflur
  butternut squash
  salt og pipar
  Spergilkál

  Ég fékk þykkt og gott þorskstykki sem ég skar í 4 steikur og lagði í ofnfast mót. Svo hrærði ég saman smjör og frosna kryddjurtablöndu sem ég á, í henni er basil, óreganó og eitthvað fleira, en hvaða mildu kryddjurtir sem er ganga. Þessu var smurt á einn bitann en á hina bætti ég sítrónuberki og chili út í smjörið. Svo saltaði ég og pipraði fiskstykkin okkar foreldranna. Þetta var bakað í 10-15 mín á 200 °C. Svo bitaði ég 1 netta sæta kartöflu niður og um 1/3 squash og sauð. Ég bætti spergilkálsbitunum út í pottinn seinustu mínúturnar til að sjóða það líka. Svo veiddi ég kálið aftur upp úr og lagði til hliðar en maukaði saman sætu kartöfluna og squashið með vænni smjörklípu. Þannig var svo kvöldmaturinn hans Huga, en ég bætti cummin út í kartöflumúsina fyrir okkur. Þetta át hann með bestu lyst.

  Hann er orðinn svo ákveðinn með það að vilja bara mat, það þýðir ekkert að bjóða honum upp á eitthvað mauk og borða svo eitthvað annað fyrir framan hann, svo ég passa að hann fái mat sem er eins eða svipaður okkar.

  Þetta er mjög þægileg leið til að elda fisk, skella flaki í form og útbúa kryddsmjör með. Um daginn gerðum við lax með smjöri og dilli sem hitti líka vel í mark. Meðlætið með honum var kartafla og ofnbökuð gulrót.

 2. Ég legg mikið upp úr því að Hugi minn borði hollan og góðan mat, hann fær mikið til lífrænan mat og ég sneiði hjá hveiti, geri og sykri og öllum aukaefnum eftir bestu getu. Það er auðvitað ekkert algilt, ekki síst eftir að hann fór að borða meira af matnum okkar.
  Hann er nú að detta í 11 mánuði, en í 10 mánaða skoðuninni vorum við hvött til að gefa honum heimilismat, en ekki alltaf vera með einhvern sér smábarnamat. En  ég er auðvitað alveg að deyja úr fyrsta-barns-syndróminu og það er mjög erfitt, en ég er samt svona smám saman að komast upp á lagið með þetta og í leiðinni ýtir það á okkur að hafa hollan og góðan mat fyrir okkur.
  Einn föstudaginn ákváðum við að búa okkur til pítsu og gefa honum líka. Þess vegna valdi ég að gera pítsubotninn hennar Sollu, pítsubotn úr grófu spelti. En ég var nú ekki alveg að fara að skella pepp, svepp og ananasi á pítsuna hans svo ég gerði sér álegg fyrir hann. Þetta endaði ábyggilega sem heimsins hollasta og leiðinlegasta pítsa, en ég sver það, hann hefur aldrei borðað jafn mikið á sinni stuttu ævi! Hann var með troðfullan munninn og hékk í erminni á mér til að flýta mötunina og át alla pítsuna upp til agna.
  Þar sem þessi pítsa hitti svona í mark eru pítsudagar orðnir að föstum lið.

  Litla matargatið
  Pítsan hans Huga

  Speltpítsudeig
  agnarögn af pítsusósu eða tómatmauki
  hakk
  gulrót
  sveppur
  spergilkál
  annað grænmeti eftir smekk
  ögn af osti

  Ég gerði pítsudeigið, tók svo smá bút af því og flatti út fyrir hann. Botninn bakaður í 5 mínútur í ofni. Á meðan steikti ég ögn af hakki og reif út í það 1 gulrót, 1 svepp og lítinn spergilkálsbút og kryddaði með oreganó. Þegar botninn var klár setti ég örfáa dropa af Hunts pítsusósu (enginn sykur í henni), setti hakkið yfir og loks örfáar ræmur af rifnum osti og bakaði í um 10 mínútur.
  Hann hefur núna fengið pítsu aftur og var hún jafn vinsæl. Það er tilvalið að nota afgangskjöt og grænmeti á pítsuna, næst ætla ég að prófa að gefa honum pítsu með kjúklingi. Svo er líka sniðugt að gera nokkra svona litla botna og baka, smella þeim svo í frysti og þá er hægt að grípa botn, setja á hann álegg og hita á nóinu.
  Ef það er afgangur af hakkinu þá er það alveg hinn fínasti hádegis- eða kvöldmatur daginn eftir, jafnvel með smá hýðishrísgrjónum eða speltpasta.
 3. Lambaskankar að hausti

  Thursday, October 16, 2014

  Það er nú meira hvað mér gengur hægt að blogga. Ég tek oft myndir af því sem ég er að bauka í eldhúsinu en svo verður mér ekkert úr því að koma því á netið. Þetta verður þá jafnvel bara haust-innleggið mitt á blogginu en það verður að hafa það, nógu bragðgóður var maturinn í það minnsta fyrir ársfjórðungsinnlegg.

  Lambaskankar eru í miklu uppáhaldi hjá mér, eldaðir þannig að kjötið fellur af beinunum, í djúsí sósu og með kartöflumús. Þessi uppskrift er samblanda af uppskrift sem ég fann á netinu, uppskrift frá mömmu og því sem var til í ísskápnum.

  Þetta er alveg frábær eldamennska því öllu er fleygt á pönnu, eða því sem næst, og látið malla, því lengur því betra. Vetrarfríið í skólanum hefst á morgun og því var þessi máltíð upphafið að langri helgi hjá okkur. Við ætlum ekki að fara neitt, en það er líka kósý að gera sér glaðan dag heima.

  Mér finnst svo fínt að eiga litlar vínflöskur í eldhúsinu til að nota í matreiðslu, við drekkum svo lítið að lítil flaska dugar í uppskriftir og svo hálft glas sem er yfirleitt meira en nóg fyrir okkur. Verandi með barn á brjósti þá er maður ekki beint að skvetta mikið í sig, en akkúrat núna er litli kútur sofnaður svo mamman fær að sötra rauðvínið sem er í glasinu á myndinni, tveimur klukkutímum eftir máltíðina.

  Ég eldaði bara tvo skanka, svo uppskriftin er samkvæmt því, en það er auðvitað tilvalið að gera 4-6 skanka fyrir stærri heimili eða fá fólk í mat. Þessi sósa ætti alveg auðveldlega að duga fyrir 3 skanka, en ég myndi tvöfalda hana fyrir 4-6 skanka. Sigurgeir torgaði heilum skanka en við Hugi deildum einum og eigum samt afgang í hádegismat á morgun. Ég skar kjötið innan út skankanum okkar fyrir hann, 9 mánaða guttar fá ekki mikið að smakka rauðvíns-tómatasósu. Hugi var líka mjög ánægður með matinn, hann borðaði allt sitt kjöt sem var sett út í gulróta-eplamauk og át svo vænan bita til viðbótar okkur til samlætis.

  Rauðvínssósaðir skankar með mús 
  fyrir 2-3

  2 lambaskankar
  ólívuolía
  1/2 laukur
  1 gulrót
  1 hvítlauksgeiri
  rósmarín
  1-2 tsk hveiti
  1/2 lítil rauðvínsflaska, kannski rúmlega, um 1 dl
  1 dós tómatar saxaðir
  1 dós vatn
  4 vænir sveppir
  1/2 paprika
  salt og pipar
  1/2 kubbur kjötkraftur ef vill
  tómatsósa

  Ég hitaði olíu í djúpu pönnunni minni og steikti skankana á hliðunum og botninum og saxaði á meðan lauk, hvítlauk og gulrót Tók þá upp úr, setti grænmetið á pönnuna og steikti. sáldraði hveiti yfir ásamt rósmarín og hellti svo rauðvíninu yfir og lét það sjóða. Bætti svo tómötum og vatni, kjötinu aftur út í, setti lokið á og lét krauma alveg vel og lengi, líklega í alveg 90 mínútur. Þá skar ég sveppina og paprikuna niður, bætti því út í og lét krauma án loks í 30 mínútur og kveikti undir kartöflum. Svo smakkaði ég sósuna til og bætti við meira rósmaríni, salti, pipar, tómatsósu og kjötkrafti.
  Útbjó kartöflumús með kartöflum, rjóma, mjólk, smjöri og salti og bar fram í stórum djúpum skálum.
  Þetta var virkilega góð máltíð, sem verður alveg ábyggilega elduð ansi oft á komandi haust- og vetrarkvöldum. 4. I'm back baby!

  Thursday, March 6, 2014

  Eftir árshlé er kominn tími til að dusta rykið af lyklaborðinu og blogga aftur. Líf mitt hefur breyst svo mikið á þessu ári að það er eiginlega alveg ótrúlegt að hugsa til þess. Stærsta og merkilegasta breytingin er sú að verða móðir. En ástæða þess að ég hætti að blogga í fyrra var sú að ég varð ólétt og missti gjörsamlega alla löngun til að elda eða spá í mat, nokkuð sem mig hefði aldrei grunað að kæmi fyrir mig. Ég bjóst við því að verða þessi brjálaða cravings ólétta kona en ég fékk svona and-craving, mig langaði aldrei í neitt. En nú er elsku ljósið mitt hann Hugi orðinn rúmlega tveggja mánaða og matarlystin mín er komin aftur!
  Ég er því núna heimavinnandi húsmóðir, í fæðingarorlofi með ungabarn á handleggnum og ég ætla að nota bloggið til að skrifa niður hugrenningar tengdar því og svo verður örugglega einhver matur á síðunum líka.

 5. Þegar það kyngir niður snjó eins og núna þá eru ákveðnir réttir einhvernveginn það eina sem hægt er að elda. Þykkar súpur, kássur og allt það sem yljar manni að innan. Eftir að hafa borðað blómkálssúpu og grænmetiskássu alla vikuna var kominn tími á eitthvað kjötmeti. Ég eldaði því fulla pönnu af rjúkandi chili, það er mjög þægilegur réttur því maður þarf nokkurn veginn bara að henda öllu í pönnuna, skella lokinu yfir að hálfu og leyfa þessu að malla á meðan maður dundar sér við eitthvað annað.


  Vetrarchili
  100 gr chorizo pylsa
  1 laukur
  2 rauðar paprikur
  1 pakki nautahakk, um 500 gr
  1 teningur nautakraftur
  1-2 tsk paprikuduft
  1/2-1 tsk kummin
  1 tsk oreganó
  ögn af chiliflögum og/eða cayenne pipar eftir smekk ef vill
  1/2 tsk hreint kakó
  1 tsk púðursykur
  1 lítil dós tómatpuré
  1 dós hakkaðir tómatar
  Skvetta af Worchestershiresósu ef vill
  200-400 ml vatn
  1 dós nýrnabaunir

  Chorizo pylsan er skorin smátt og steikt á heitri pönnu. Laukur og paprikur söxuð niður og bætt út í pönnuna og steikt. Hakkinu bætt út í. Þegar hakkið er eldað í gegn er kryddinu og tómatpúrrunni bætt út í pönnuna og velt vel saman áður en tómötunum og vatninu er bætt út í. Þegar suðan er komin upp má gjarnan smakka réttinn til og krydda. Síðan að leyfa honum að malla á lágum hita í 30-60 mínútur. Baununum er bætt út í á seinustu 5-10 mínútunum. Borið fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og jafnvel nachos flögum. Ég setti nachos flögurnar í fat, stráði osti yfir og hitaði í ofni þar til osturinn var bráðinn.

  Fyrir 4

 6. Baksturstilraunir

  Monday, March 4, 2013

  Það var frekar mikið að gera í seinustu viku og mataræðið mitt var ekki upp á það besta. Það var nú samt ekki pítsur og franskar, en við borðuðum svolítið mikið af take-away mat. Sem er auðvitað allt í fína af og til, en kannski ekki oftar en maður eldar sjálfur. Take-away réttir frá Bergsson og Saffran eru óóó só tasty.
  En ég prófaði smá paleo bakstur áðan, ég datt inn á síðu sem heitir Elana's Pantry og það virðist vera mekka paleo-baksturs. Ég bjó til morgunverðarbrauð og bananamúffur og heppnuðust báðar uppskriftirnar ágætlega, en mér fannst svolítið mikið matarsódabragð af þeim báðum. Ég held reyndar ég sé voðalega viðkvæm fyrir matarsódabragði, finn það ansi oft. Næst myndi ég prófa uppskriftirnar með vínsteinslyftidufti.

  Ég sleppti stevia úr morgunverðarbrauðinu og minnkaði hunangið. Áferðin og bragðið af brauðinu var gott (fyrir utan matarsódann). Ég væri til í að prófa það aftur og nota döðlur í stað hunangs.

  Ég prófaði líka bananabrauðið, en gerði aðeins 1/3 af uppskriftinni og hellti deiginu í 5 muffinform og bakaði í um 20-25 mínútur. Múffurnar voru mjög bragðgóðar, en svolítið blautar. Ég held maður þurfi að fara mjög varlega í að mæla möndlumjöl, það væri örugglega best að vigta það alltaf.

  Svo gat ég ekki ákveðið hvað ég ætti að borða í morgunmat í fyrramálið, múffu eða brauð svo niðurstaðan var að sjálfsögðu bæði. Ein múffa og 1/8 brauð pakkað í nesti og restin fór í frysti. 7. Konukaffi og með því

  Sunday, February 24, 2013

  Ég fékk alveg extra langan konudag, nánast alveg konuhelgi því Sibbmundur bauð mér út að borða og í keilu á laugardagskvöld. Svo, þar sem ömmur okkar beggja voru í bænum buðum við þeim í kaffi á konudaginn ásamt mömmum okkar og endaði þetta í hinu ánægjulegasta konukaffi.

  Á mánudag verð ég svo með vinkonuhitting og ég vildi því samnýta baksturinn sem best án þess að þurfa að bera fram hálfétnar kökur. Ég bakaði því hindberja mínímúffur og svo paleo-væna súkkulaðikökubita.
  Ásamt því var ég með smásmákökur sem ég bakaði í gamni mínu úr möndluhrati og hrærði hitt og þetta saman við (möndluhveiti, banana, döðlur...). Þær voru ekkert svo sérstakar á bragðið, bara ágætar, þannig að ég smurði dökku súkkulaði yfir, og tataaah þær urðu mjög fínar! Ótrúlegt hvað smá súkkulaði getur bjargað öllu í heiminum. Svo var ég með kex og ost, te og kaffi.
  Baksturinn var mjög auðveldur en mér tókst nú samt að klúðra smá, því ég gleymdi eins og einu eggi... en það kom held ég ekki að sök. Súkkulaðikökubitarnir eru uppskrift úr Gestgjafanum og inniheldur döðlur, epla- og bananamauk, kaffi, kakó, egg, kókoshveiti, kókosolíu, matarsóda og salt. Ég skar þær niður í litla bita og skreytti með grófum kókos.

  Mínímúffurnar voru svo með hvítu súkkulaði og hindberjum, ásamt hvítum sykri, hveiti, smjöri, mjólk og umþaðbil öllu sem Paleo bannar. Ég fann þessa uppskrift einu sinni, ég breyti henni bara í mínímúffur og set eitt ber ofan í hvert form. Það sem mér finnast mínímúffur mikil dásemd. Mér finnst þetta alveg fullkomin stærð, venjulegar múffur eru oft svo brjálaðar að  fólk leifir meirihlutanum og það fer illa í mitt matarhjarta. Míní er málið. Svo eru bara um 60 kaloríur í hverri mínímúffu og það er nú ekki svo slæmt.

  Hindberjamínímúffur
  100 gr smjör-brætt
  300 gr hveiti
  100 gr sykur
  2 tsk lyftiduft
  2 egg
  2 dl mjólk
  u.þ.b. 48 hindber, frosin
  100 gr hvítt súkkulaði

  Hveiti, sykur og lyftiduft hrært saman í skál. Egg og mjólk hrærð saman í annarri skál og smjöri bætt út í. Eggjablöndunni hrært út í þurrefnin. Hvíta súkkulaðið saxað og hrært saman við. 48 pappírsform sett í mínímuffinmót, deigi skammtað þar á milli og einu frosnu hindberi stungið ofan í hvert form. Bakað við 200°C í 10-15 mínútur eða þar til toppurinn verður gylltur.