Rss Feed
 1. Barnalegur þorskur

  Tuesday, November 18, 2014

  Áfram held ég að aðlaga heimilismatinn að litla krúttmolanum okkar. Eftir tvo daga af hamborgarhryggsáti (vegna frystitiltektar) sem nota bene Hugi fékk ekki að smakka, var alveg nauðsynlegt að fá fisk. Ég sendi því strákana mína út í fiskbúð. Við erum voða glöð að vera í göngufæri við fiskbúð, það er eitthvað svo næs að geta rölt með barnavagninn eftir fiski í soðið.  Þorskur með kryddsmjörsþekju
  500 gr þorskur
  smjör
  kryddblanda
  sætar kartöflur
  butternut squash
  salt og pipar
  Spergilkál

  Ég fékk þykkt og gott þorskstykki sem ég skar í 4 steikur og lagði í ofnfast mót. Svo hrærði ég saman smjör og frosna kryddjurtablöndu sem ég á, í henni er basil, óreganó og eitthvað fleira, en hvaða mildu kryddjurtir sem er ganga. Þessu var smurt á einn bitann en á hina bætti ég sítrónuberki og chili út í smjörið. Svo saltaði ég og pipraði fiskstykkin okkar foreldranna. Þetta var bakað í 10-15 mín á 200 °C. Svo bitaði ég 1 netta sæta kartöflu niður og um 1/3 squash og sauð. Ég bætti spergilkálsbitunum út í pottinn seinustu mínúturnar til að sjóða það líka. Svo veiddi ég kálið aftur upp úr og lagði til hliðar en maukaði saman sætu kartöfluna og squashið með vænni smjörklípu. Þannig var svo kvöldmaturinn hans Huga, en ég bætti cummin út í kartöflumúsina fyrir okkur. Þetta át hann með bestu lyst.

  Hann er orðinn svo ákveðinn með það að vilja bara mat, það þýðir ekkert að bjóða honum upp á eitthvað mauk og borða svo eitthvað annað fyrir framan hann, svo ég passa að hann fái mat sem er eins eða svipaður okkar.

  Þetta er mjög þægileg leið til að elda fisk, skella flaki í form og útbúa kryddsmjör með. Um daginn gerðum við lax með smjöri og dilli sem hitti líka vel í mark. Meðlætið með honum var kartafla og ofnbökuð gulrót.

 2. 0 comments:

  Post a Comment