Rss Feed
  1. Bananasmákökur

    Tuesday, February 14, 2012

     Ég bakaði smákökur í gær til að eiga í sólarkaffi, það skiptir ekki öllu að ég hafi bara maulað þær með instant kaffi á skrifstofunni við tölvuna. Ég þori ekki alveg að fullyrða um að vorið sé komið hér í Manchester, þótt Valentínusardagurinn sé kominn (og næstum farinn) en það var allavega nógu hlýtt til að borða hádegismatinn á bekk úti, ég var að kafna á heimleiðinni í lopapeysu undir jakkanum og hitastigið á að vera um 10°C á daginn í vikunni.

     Ég bakaði hafra-banana-súkkulaðismákökur, uppskrift sem ég hef gert áður og finnst góð. Uppskriftina fékk ég á Skinnytaste, ég hef prófað einhverjar 2-3 uppskriftir á þessari síðu og fílað þær allar. Þær eru í hollari kantinum án þess að það sé búið að skipta út öllu fyrir rándýr heilsubúðarhráefni. Mér finnst líka svo fínt að það er búið að reikna út kaloríur og punkta og allt það á síðunni, og maður fær skammtastærð. Hvort maður hlýði því er svo annað mál. Ég þurfti aðeins að breyta uppskriftinni, ég átti ekki púðursykur, átti ekki alveg nógu mikið af höfrum og mig langaði að hafa súkkulaði en ekki hnetur og svo framvegis, svo hér er uppskriftin eins og hún endaði hjá mér:

    1 bolli hveiti
    1 tsk lyftiduft
    1/2 tsk matarsódi
    1/2 tsk salt
    1/2 tsk kanill
    2 msk smjör, við stofuhita
    3/4 bolli sykur
    1 egg
    1/4 bolli stappaður banani
    1/2 tsk vanilla
    1 1/2 bolli hafrar
    1/2 bolli suðusúkkulaðidropar

    Ég setti hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kanil saman í skál og þeytti í blandaranum mínum sykur og smjör, og bætti svo við eggi og vanillu. Ég blandaði svo blautu blöndunni út í þurrefnin og  hrærði loks hafrana og súkkulaðið út í. Ég setti frekar kúfaðar teskeiðar af deigi á tvær bökunarplötur og fékk 31 stykki úr uppskriftinni. Þetta var bakað á 175°C hita við blástur í um 11 mínútur. Ofninn hérna úti er ekkert sérlega góður, því þótt ég væri með blásturinn á voru sumar kökurnar orðnar alveg gullnar á meðan aðrar voru varla búnar að taka lit. Mér finnst þær sem eru mest bakaðar bestar, en sumir fíla kannski betur þær sem eru mýkri.

    Við vorum svo alveg brjálæðislega grand á því í kvöldmatnum og elduðum plokkfisk! Mikið var það gott, þótt að því miður sé ekki til rúgbrauð hérna (og lífrænt ræktað sólkjarnabrauð er ekki alveg það sama) en það slapp fyrir horn. Ég var líka ótrúlega flippuð og bresk á því og setti Worchestershire sósu í plokkfiskinn og það var bara fínt. Ég held það gefi alveg smá svona extra úmpfh, og svo auðvitað pipar. Pipar pipar pipar.








  2. Sætukartöflusúpa

    Thursday, February 9, 2012

    Ég elska góðar og þykkar grænmetissúpur, sérstaklega á köldum kvöldum eins og þeim sem hafa verið hérna í Manchester undanfarið. Það er svo auðvelt að elda súpu, og hagkvæmt líka. Ég eldaði sætukartöflusúpu um daginn, frysti afganginn og hitaði hann upp í kvöld þegar ég kom heim, þreytt, köld og blaut úr vetrarrigningunni.

    Þessa uppskrift fékk ég hjá hollenskri vinkonu minni fyrir nokkrum árum síðan. Í henni er:
    1 sæt kartafla, í stærra lagi
    1 kúrbítur
    1 laukur
    1 hvítlauksrif
    1 tsk-1msk karrý, fer eftir styrk og smekk
    1 líter grænmetis- eða kjúklingasoð
    rjómaskvetta

    Það þarf að saxa laukinn og hvítlaukinn og einnig flysja og bita niður kartöfluna og kúrbítinn. Laukur og hvítlaukur steiktir í nógu stórum potti í smá olíu, bæta svo kartöflu og kúrbít við og steikja í nokkrar mínútur. Bæta við soðinu, og ef það er notaður kraftkubbur og vatn, þá myndi ég mæla með því að setja ekki allt vatnið strax, það fer svolítið eftir hversu stórt grænmetið er hvort það sé þörf á því öllu. Þetta mallar svo þar til grænmetið er orðið mjúkt og þá þarf að þeyta súpuna með töfrasprota eða í blandara. Karrýinu er svo bætt út í, síðast rjómanum og súpan hituð aftur að suðu. Svo er bara að smakka þetta ögn til.
    Ég var með grillaða samloku með skinku og osti með súpunni í kvöld, en við erum ekki með samlokugrill hérna úti. Ég gat bara ekki hugsað mér að fá örbylgjuhitaða samloku, svo ég smurði smá smjöri utan á sneiðarnar, setti ost og skinku inn í og lét á heita pönnu. Ég setti pott ofan á samlokuna til að ýta á hana, hafði séð það gert i einhverjum þætti, og snéri svo samlokunni við þegar botninn var orðinn gullinn. Hún heppnaðist mjög vel og gott að vita að maður getur fengið sér grillaða samloku þótt maður sé ekki með Daisy grillið með sér. Ég hrærði svo saman ögn af majonesi og ensku sinnepi og dýfði samlokunni i, enska sinnepið sem ég á er svo svakalega sterkt að það er varla hægt að borða það nema þynna það út með einhverju.

  3. Blogger app

    Wednesday, February 8, 2012

    Ég var að rekast á Blogger síma app og varð að prófa. En skemmtilegt, nú get ég bloggað út um allan bæ og í strætó ef mér sýnist svo. Ætli ég bloggi þá oftar? Vonum það.
    Hvert er aftur íslenska orðið yfir app?

  4. Vor Valentínusardagur

    Tuesday, February 7, 2012


    Ég er almennt ekki hrifin af Valentínusardegi. Ég þoli ekki bleiku amerísku sykurvæmnina sem fylgir deginum. Ég hélt einusinni að það væri vegna þess að ég átti ekki kærasta en mér finnst þessi dagur alveg jafn mikil vemmidrulla þótt ég sé í sambandi. Ég fíla bóndadaginn og konudaginn, en túlípanar og pönnsur, og kannski smá kaka eða súkkulaði, er alveg feikinóg á þeim dögum, ekki rósablöð, kampavín og rándýr stefnumót. Ég fékk alveg grænar þegar ég fór að sjá Valentínusarauglýsingar út um allt hérna í Manchester, en svo datt í að lesa mér til um hvort það væru einhverjar sérstakar hefðir í Bretlandi á þessum degi. Þegar ég las að Valentínusardagurinn merkti upphaf vors þá varð ég glöð, allsvakalega glöð. Ég bíð óþreyjufull eftir vorinu, betri tíð og blóm í haga og öllu því. Þess vegna ætla ég að halda upp á Valentínusardaginn í ár, ekki með hjartalaga korti og súkkulaði... grín, auðvitað með súkkulaði... en meira bara með pönnsum eða skúffuköku, svona í sólarkaffistíl. Þótt ég sé hæfilega bjartsýn á að vorið hefjist í alvöru 14. febrúar þá má allavega reyna að lokka það fram með með smá bakkelsi.

  5. Handboltapóstur, aftur

    Sunday, February 5, 2012


    Ég póstaði þessu um daginn og tók svo út og er að setja aftur inn núna. Ég skrifaði þetta fyrir vinnuna því ritstjórinn ætlaði að birta póst á íslensku um handbolta í gríni, en bað mig svo að laga hann eitthvað til. En þarsem hann hefur enn ekki birst og EM löngu búið ákvað ég bara að setja þetta aftur hérna inn, svo kemur í ljós hvort hann birtist einhverntímann á síðunni þeirra.

    Með EM í handbolta í fullum gangi er skrýtið að vera í landi þar sem öllum er nákvæmlega sama, fyrir utan hvað það vita fáir af mótinu. Það að Ísland hafi endað með jafntefli gegn Frakklandi, liðinu sem þeir töpuðu gullinu fyrir á Ólympíuleikunum 2008 eða að þessi tvö lið séu bæði úr leik þykir ekki fréttnæmt hér í Bretlandi. Að mestu leyti þykir tal um Evrópumót í handbolta hlægilegt, enda er handbolti ekki fótbolti. Á sama tíma þykist ég vita að á vinnustöðum á Íslandi snúist kaffipásuspjallið að mestu leyti um síðustu leiki, hverjir séu sigurstranglegir og hver á skrifstofunni vinni nú EM vínflöskupottinn. Einhverjir fá líka að horfa á leikina í fundarherbergjum og eldhúskrókum.
    Að sjálfsögðu er þetta skiljanlegt, Bretland er ekki að keppa og Íslendingar væru ekki svona æstir yfir mótinu væri liðið okkar ekki að keppa. En ég sakna samt sem áður samstöðunnar og þjóðarstoltsins sem maður finnur fyrir heima, ásamt því að hlusta á vinnufélagana röfla um dómara og markmenn, að öskra á sjónvarpið og að storma út þegar leikirnir verða of spennandi. Einstaka fésbókarathugasemd að heiman dugar bara ekki til þegar maður er hluti af þessari litlu þjóð sem tekur öllum keppnum milli landa of alvarlega. Þess í stað held ég áfram að vera, að mestu viljandi, aðhlátursefni á skrifstofunni með því að tala um handboltann. En megi guð líka hjálpa skrifstofunni minni þegar Evróvisjón tímabilið hefst.