Ég póstaði þessu um daginn og tók svo út og er að setja aftur inn núna. Ég skrifaði þetta fyrir vinnuna því ritstjórinn ætlaði að birta póst á íslensku um handbolta í gríni, en bað mig svo að laga hann eitthvað til. En þarsem hann hefur enn ekki birst og EM löngu búið ákvað ég bara að setja þetta aftur hérna inn, svo kemur í ljós hvort hann birtist einhverntímann á síðunni þeirra.
Með EM í handbolta í fullum gangi er skrýtið að vera í landi
þar sem öllum er nákvæmlega sama, fyrir utan hvað það vita fáir af mótinu. Það
að Ísland hafi endað með jafntefli gegn Frakklandi, liðinu sem þeir töpuðu
gullinu fyrir á Ólympíuleikunum 2008 eða að þessi tvö lið séu bæði úr leik
þykir ekki fréttnæmt hér í Bretlandi. Að mestu leyti þykir tal um Evrópumót í
handbolta hlægilegt, enda er handbolti ekki fótbolti. Á sama tíma þykist ég
vita að á vinnustöðum á Íslandi snúist kaffipásuspjallið að mestu leyti um
síðustu leiki, hverjir séu sigurstranglegir og hver á skrifstofunni vinni nú EM
vínflöskupottinn. Einhverjir fá líka að horfa á leikina í fundarherbergjum og
eldhúskrókum.
Að sjálfsögðu er þetta skiljanlegt, Bretland er ekki að
keppa og Íslendingar væru ekki svona æstir yfir mótinu væri liðið okkar ekki að
keppa. En ég sakna samt sem áður samstöðunnar og þjóðarstoltsins sem maður
finnur fyrir heima, ásamt því að hlusta á vinnufélagana röfla um dómara og
markmenn, að öskra á sjónvarpið og að storma út þegar leikirnir verða of
spennandi. Einstaka fésbókarathugasemd að heiman dugar bara ekki til þegar
maður er hluti af þessari litlu þjóð sem tekur öllum keppnum milli landa of
alvarlega. Þess í stað held ég áfram að vera, að mestu viljandi, aðhlátursefni
á skrifstofunni með því að tala um handboltann. En megi guð líka hjálpa
skrifstofunni minni þegar Evróvisjón tímabilið hefst.
iss, Englendingar eru laumu áhugamenn um Eurovision.. ;)
og vá hvað ég kannast við handboltaumræðuna.. fékk einu sinni: "handball.. don't you mean basketball?" eins og ég væri að rugla þessu saman hahahahah
kv
Lovísa
Já, ég fékk einmitt handball, do you mean netball? Ég hafði aldrei heyrt um netbolta áður, en það virðist vera vinsælla en handbolti hér.