Rss Feed
 1. I'm back baby!

  Thursday, March 6, 2014

  Eftir árshlé er kominn tími til að dusta rykið af lyklaborðinu og blogga aftur. Líf mitt hefur breyst svo mikið á þessu ári að það er eiginlega alveg ótrúlegt að hugsa til þess. Stærsta og merkilegasta breytingin er sú að verða móðir. En ástæða þess að ég hætti að blogga í fyrra var sú að ég varð ólétt og missti gjörsamlega alla löngun til að elda eða spá í mat, nokkuð sem mig hefði aldrei grunað að kæmi fyrir mig. Ég bjóst við því að verða þessi brjálaða cravings ólétta kona en ég fékk svona and-craving, mig langaði aldrei í neitt. En nú er elsku ljósið mitt hann Hugi orðinn rúmlega tveggja mánaða og matarlystin mín er komin aftur!
  Ég er því núna heimavinnandi húsmóðir, í fæðingarorlofi með ungabarn á handleggnum og ég ætla að nota bloggið til að skrifa niður hugrenningar tengdar því og svo verður örugglega einhver matur á síðunum líka.

 2. Þegar það kyngir niður snjó eins og núna þá eru ákveðnir réttir einhvernveginn það eina sem hægt er að elda. Þykkar súpur, kássur og allt það sem yljar manni að innan. Eftir að hafa borðað blómkálssúpu og grænmetiskássu alla vikuna var kominn tími á eitthvað kjötmeti. Ég eldaði því fulla pönnu af rjúkandi chili, það er mjög þægilegur réttur því maður þarf nokkurn veginn bara að henda öllu í pönnuna, skella lokinu yfir að hálfu og leyfa þessu að malla á meðan maður dundar sér við eitthvað annað.


  Vetrarchili
  100 gr chorizo pylsa
  1 laukur
  2 rauðar paprikur
  1 pakki nautahakk, um 500 gr
  1 teningur nautakraftur
  1-2 tsk paprikuduft
  1/2-1 tsk kummin
  1 tsk oreganó
  ögn af chiliflögum og/eða cayenne pipar eftir smekk ef vill
  1/2 tsk hreint kakó
  1 tsk púðursykur
  1 lítil dós tómatpuré
  1 dós hakkaðir tómatar
  Skvetta af Worchestershiresósu ef vill
  200-400 ml vatn
  1 dós nýrnabaunir

  Chorizo pylsan er skorin smátt og steikt á heitri pönnu. Laukur og paprikur söxuð niður og bætt út í pönnuna og steikt. Hakkinu bætt út í. Þegar hakkið er eldað í gegn er kryddinu og tómatpúrrunni bætt út í pönnuna og velt vel saman áður en tómötunum og vatninu er bætt út í. Þegar suðan er komin upp má gjarnan smakka réttinn til og krydda. Síðan að leyfa honum að malla á lágum hita í 30-60 mínútur. Baununum er bætt út í á seinustu 5-10 mínútunum. Borið fram með rifnum osti, sýrðum rjóma og jafnvel nachos flögum. Ég setti nachos flögurnar í fat, stráði osti yfir og hitaði í ofni þar til osturinn var bráðinn.

  Fyrir 4