Rss Feed
 1. Frónið og fjárhirðabaka

  Sunday, April 15, 2012

  Þá er maður farinn að huga að heimkomu til Frónsins fríða. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, mér finnst ég enn vera að læra inn á Manchester og að koma mér fyrir, og þá er kominn tími til að pakka og kveðja. Það er líka svo margt sem ég hef ekki gert sem ég ætlaði mér. Ég sá fyrir mér að ég myndi ferðast meira um Bretland, en það gekk ekki alveg upp samhliða því að lifa sparsamlega sem og að Sigurgeir vinnur/lærir allar helgar. Við ætlum þó allavega að kíkja til London um næstu helgi. Ég veit ekki hvað mig langar að gera þar annað en að hitta skemmtilegt fólk, ég nenni ekki á söfn og ætla ekki að versla (kannski kíkja í eina búð) en allar hugmyndir að "what to do in London" eru vel þegnar.

  Ég á líka eftir að fara á svo marga veitingastaði sem mig langar á hérna, og elda úr hráefnum sem eru ekki til heima. Ég er til dæmis enn ekki búin að prófa að nota ansjósur í mat eins og Jamie og Nigella nota svo oft, ekki búin að nýta mér nægilega mikið úrvalið af kalkúna- og kjúklingahakki og öðru þvíumlíku, ekki búin að borða jafn mikið úrval af baunum og öðru grænmeti og ég hélt o.s.frv. Vetrartíminn er svosem kannski ekki tíminn til að ætla sér að borða rosa ferskt og nýtt grænmeti. En ég prófaði þó allavega að elda andaleggi um páskana sem heppnuðust mjög vel.
  Andaleggir eru ótrúlega ódýr og bragðgóður matur. Einn leggur (með læri) á mann er alveg passlegt magn, og 2 leggir kostuðu £2.50, eða um 500 kall. Ég eldaði þá eftir Nigellu uppskrift, í ofni með salti, pipar og timian, ekkert mál. Ég ætla að prófa mig eitthvað áfram með andaleggi áður en ég kem heim og mun að sjálfsögðu blogga um hvernig það fer.

  Ég eldaði Shepard's Pie í gær eftir þessari uppskrift, nema að lambahakkið var uppselt svo ég notaði nautahakk, og bætti við sveppum og setti meiri Worchestershire sósu og bætti við tómatsósu og salti og pipar. En hún heppnaðist vel og Sibbmundur var mjög ánægður með matinn og heimtaði svona aftur fljótt.

  Núna er ég að horfa á brúnu ofþroskuðu bananana í eldhúsinu og hugsa um hvað mig langi í úr þeim...


 2. Fljótlegt pasta

  Monday, April 2, 2012

  Mér finnst ég alltaf verða betri og betri að finna hluti í ísskápnum og elda án þess að fylgja uppskrift eða réttum sem ég hef borðað áður. Ég verð að segja að mér finnst það svolítið skemmtilegt þegar eitthvað samansull bragðast svona vel. Þessi pastaréttur er rosalega einfaldur og fljótlegur og ég var nú ekkert að finna upp hjólið en mér fannst hann mjög góður á bragðið.
  Penne pasta fyrir tvo (170-200 gr)
  150 gr strengjabaunir (um það bil)
  1 lítið hvítlauksrif, rifið/saxað
  1 stk lítill grænn chili pipar, ég notaði thin chili-veit ekki hvort það sé eitthvað öðruvísi.
  4 sólþurrkaðir tómatar
  olía, smjör
  salt og pipar

  Ég hitaði vatn í potti að suðu, saltaði og hellti pastanu út í. Ég skar strengjabaunirnar í tvennt, en þær mega auðvitað vera heilar, og setti þær út í pastapottinn þegar fjórar mínútur voru eftir af suðutímanum á pastanu. Á lítilli pönnu hitaði ég oliu og smá smjörklípu og steikti hvítlaukinn, chiliið og tómatana. Ég hellti svolítlu af olíunni af tómötunum út á pönnuna svo ég væri örugglega með nóg til að þekja allt pastað. Ég saltaði vel og setti smá pipar. Ég hellti pastanu og baununum í sigti og setti svo aftur í tóman pottinn og hellti tómatolíusósunni út í og hrærði saman. Þetta var rosalega fljótlegur og einfaldur réttur og mikið agalega fannst mér hann góður á bragðið. Ég ætla að gera þennan rétt aftur, það er nokkuð víst. Sósan er eiginlega bara eins og salatdressing á pastað og baunirnar, og chiliið og saltið gáfu gott kick.


 3. Það er búið að vera svo gestkvæmt undanfarið að ég hef ekki gefið mér neinn tíma í bloggið. Mamma og Arndís Þóra komu í heimsókn um daginn í alveg frábæra ferð. Við eyddum dágóðum tíma í Primark, HM og M&S, svona eins og sönnum Íslendingum sæmir en gengum líka um borgina, fórum í dagsferð til Liverpool og út að borða góðan mat, á Jamie's Italian þar sem ég borðaði heimsins bestu ólívur og á pítsustað þar sem ég fékk mér marokkóska pítsu með lambi, mangó, myndu og jógúrt sem var delish.
  Svo var Óskar vinur okkar að fara héðan í morgun eftir mjög skemmtilega helgi með súkkulaðifestivali og helling af bjór, svona meðal annars. 

  Ramsbottom
  Súkkulaðifestivalið var haldið í bænum Ramsbottom sem tilheyrir Stór-Manchester svæðinu. Það tók okkur strætóferð, tramferð og aðra strætóferð til að komast þangað og á leiðinni sá ég hesta, kindur og hænur, sveitabæi og tún. Það var mjög skemmtilegt að fara aðeins út fyrir borgina, þar sem við erum nánast alltaf í miðbænum. Bærinn er yndislega fallegur og súkkulaðifestivalið var frábært. Þar voru sölubásar með alls kyns góðgæti, matartjöld og bjórtjald með súkkulaðibjór. Súkkulaðibjórinn var mun betri en ég bjóst við, dökkur með smá súkkulaðitónum. Ég hefði nú samt ekki viljað kaupa mér kippu af súkkulaðibjór til að sötra á í partýi, ekki frekar en annan dökkan bjór.Við röltum um, fengum að smakka svolítið á súkkulaði og líka á súkkulaðivíni, drukkum bjór og fengum okkur í gogginn. Mér finnst svona markaðir svo skemmtilegir, það er svo mikið líf og fjör í kringum þá. 

  Innihaldið í ísskápnum er eitthvað fátæklegt eftir helgina, enda var plássið nýtt undir bjór, maður verður að forgangsraða þegar maður er bara með sýnishorn af ísskáp. En ég ætla að elda pasta með baunum (green beans) í kvöld þar sem ég á mest lítið annað og vona að það verði í lagi. Ég læt vita hvernig það fer, svo á ég líka eftir að blogga um kjúklingabaunarétt sem ég henti saman í seinustu viku.