Rss Feed
 1. Sætukartöflusúpa

  Thursday, February 9, 2012

  Ég elska góðar og þykkar grænmetissúpur, sérstaklega á köldum kvöldum eins og þeim sem hafa verið hérna í Manchester undanfarið. Það er svo auðvelt að elda súpu, og hagkvæmt líka. Ég eldaði sætukartöflusúpu um daginn, frysti afganginn og hitaði hann upp í kvöld þegar ég kom heim, þreytt, köld og blaut úr vetrarrigningunni.

  Þessa uppskrift fékk ég hjá hollenskri vinkonu minni fyrir nokkrum árum síðan. Í henni er:
  1 sæt kartafla, í stærra lagi
  1 kúrbítur
  1 laukur
  1 hvítlauksrif
  1 tsk-1msk karrý, fer eftir styrk og smekk
  1 líter grænmetis- eða kjúklingasoð
  rjómaskvetta

  Það þarf að saxa laukinn og hvítlaukinn og einnig flysja og bita niður kartöfluna og kúrbítinn. Laukur og hvítlaukur steiktir í nógu stórum potti í smá olíu, bæta svo kartöflu og kúrbít við og steikja í nokkrar mínútur. Bæta við soðinu, og ef það er notaður kraftkubbur og vatn, þá myndi ég mæla með því að setja ekki allt vatnið strax, það fer svolítið eftir hversu stórt grænmetið er hvort það sé þörf á því öllu. Þetta mallar svo þar til grænmetið er orðið mjúkt og þá þarf að þeyta súpuna með töfrasprota eða í blandara. Karrýinu er svo bætt út í, síðast rjómanum og súpan hituð aftur að suðu. Svo er bara að smakka þetta ögn til.
  Ég var með grillaða samloku með skinku og osti með súpunni í kvöld, en við erum ekki með samlokugrill hérna úti. Ég gat bara ekki hugsað mér að fá örbylgjuhitaða samloku, svo ég smurði smá smjöri utan á sneiðarnar, setti ost og skinku inn í og lét á heita pönnu. Ég setti pott ofan á samlokuna til að ýta á hana, hafði séð það gert i einhverjum þætti, og snéri svo samlokunni við þegar botninn var orðinn gullinn. Hún heppnaðist mjög vel og gott að vita að maður getur fengið sér grillaða samloku þótt maður sé ekki með Daisy grillið með sér. Ég hrærði svo saman ögn af majonesi og ensku sinnepi og dýfði samlokunni i, enska sinnepið sem ég á er svo svakalega sterkt að það er varla hægt að borða það nema þynna það út með einhverju.

 2. 3 comments:

  1. Mmmmm hljómar vel. Mér finnast heimagerðasúpur svo góðar, en nenni svo sjaldan að gera þær samt. Þessa dagana eru bæði mánudagar og miðvikudagar svona brauð og súpa/skyr, prófa þessa í næstu viku.

  2. Ragnhildur said...

   Mér finnst þær einmitt svo geðveikt auðveldar,maður nokkurnveginn hendir öllu í pott, sýður í um það bil einn sjónvarpsþátt eða svo og blitsar. Þú gætir gert súpur í risapotti og fryst í einingum til að hita upp. Næst ætla ég að gera butternutsquash-gulróta-engifer súpu. Nom nom nom.

  3. Hildur R. said...

   æ þú ert svo dugleg!

  Post a Comment