Rss Feed
  1. Bananasmákökur

    Tuesday, February 14, 2012

     Ég bakaði smákökur í gær til að eiga í sólarkaffi, það skiptir ekki öllu að ég hafi bara maulað þær með instant kaffi á skrifstofunni við tölvuna. Ég þori ekki alveg að fullyrða um að vorið sé komið hér í Manchester, þótt Valentínusardagurinn sé kominn (og næstum farinn) en það var allavega nógu hlýtt til að borða hádegismatinn á bekk úti, ég var að kafna á heimleiðinni í lopapeysu undir jakkanum og hitastigið á að vera um 10°C á daginn í vikunni.

     Ég bakaði hafra-banana-súkkulaðismákökur, uppskrift sem ég hef gert áður og finnst góð. Uppskriftina fékk ég á Skinnytaste, ég hef prófað einhverjar 2-3 uppskriftir á þessari síðu og fílað þær allar. Þær eru í hollari kantinum án þess að það sé búið að skipta út öllu fyrir rándýr heilsubúðarhráefni. Mér finnst líka svo fínt að það er búið að reikna út kaloríur og punkta og allt það á síðunni, og maður fær skammtastærð. Hvort maður hlýði því er svo annað mál. Ég þurfti aðeins að breyta uppskriftinni, ég átti ekki púðursykur, átti ekki alveg nógu mikið af höfrum og mig langaði að hafa súkkulaði en ekki hnetur og svo framvegis, svo hér er uppskriftin eins og hún endaði hjá mér:

    1 bolli hveiti
    1 tsk lyftiduft
    1/2 tsk matarsódi
    1/2 tsk salt
    1/2 tsk kanill
    2 msk smjör, við stofuhita
    3/4 bolli sykur
    1 egg
    1/4 bolli stappaður banani
    1/2 tsk vanilla
    1 1/2 bolli hafrar
    1/2 bolli suðusúkkulaðidropar

    Ég setti hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kanil saman í skál og þeytti í blandaranum mínum sykur og smjör, og bætti svo við eggi og vanillu. Ég blandaði svo blautu blöndunni út í þurrefnin og  hrærði loks hafrana og súkkulaðið út í. Ég setti frekar kúfaðar teskeiðar af deigi á tvær bökunarplötur og fékk 31 stykki úr uppskriftinni. Þetta var bakað á 175°C hita við blástur í um 11 mínútur. Ofninn hérna úti er ekkert sérlega góður, því þótt ég væri með blásturinn á voru sumar kökurnar orðnar alveg gullnar á meðan aðrar voru varla búnar að taka lit. Mér finnst þær sem eru mest bakaðar bestar, en sumir fíla kannski betur þær sem eru mýkri.

    Við vorum svo alveg brjálæðislega grand á því í kvöldmatnum og elduðum plokkfisk! Mikið var það gott, þótt að því miður sé ekki til rúgbrauð hérna (og lífrænt ræktað sólkjarnabrauð er ekki alveg það sama) en það slapp fyrir horn. Ég var líka ótrúlega flippuð og bresk á því og setti Worchestershire sósu í plokkfiskinn og það var bara fínt. Ég held það gefi alveg smá svona extra úmpfh, og svo auðvitað pipar. Pipar pipar pipar.








  2. 0 comments:

    Post a Comment