Rss Feed
 1. Fljótlegur kvöldmatur

  Friday, March 2, 2012

  Hummus er alveg eitt það besta sem ég veit um. Hann er hollur og bragðgóður og svo er bæði ódýrt og létt að búa hann til. Ég hef oft hent kjúklingabaunum í matvinnsluvél eða blandara og sett út í hitt og þetta til að prófa bragðefni.
  Í venjulegum hummus er sett tahini eða sesamsmjör, en ég nota það ekki í neitt annað þannig að ég hef ekki tímt og nennt að kaupa það, fyrir einhverja 1 teskeið í hummus. Ég hef vanalega bara sleppt því og punktur. En ég var farin að spá hvort það væri hægt að nota hnetusmjör þegar ég rakst á uppskrift í Nigella Kitchen að hnetusmjörshummus og ég hef notað það í staðinn fyrir tahini undanfarið. Hnetusmjörshummus er pínu öðruvísi á bragðið en venjulegur hummus en samt mjög góður. Ég nota minna hnetusmjör en Nigella, enda er hennar uppskrift meira hugsuð á borð með snakki og bjór eða einhverju svoleiðis, en ég nota hummusinn sem kvöldmat og nesti.
  Þessi uppskrift er mjög fljótleg, ef einhver boðar sig óvænt í mat, þá er nokkurnveginn hægt að  "elda" þetta á 10 mínútum.

  Hnetusmjörshummus fyrir 2-3
  1 dós kjúklingabaunir, hella vökvanum af og skola í köldu vatni
  2-3 msk ólífuolía
  1-2 msk hnetusmjör (byrja á einni og smakka til)
  1-2 msk sítrónusafi
  1 tsk maldon salt
  1 tsk mulið cummin (ekki kúmen)
  2-3 msk grísk jógúrt (eða sýrður rjómi eða ab mjólk eða hrein jógúrt)
  smá pipar ef vill
  Það má setja hálft hvítlauksrif en mér finnst það óþarfi.
  Henda öllu í matvinnsluvél eða blandara og hræra saman, það er allt í lagi þótt sumar kjúklingabaunirnar séu hálfsaxaðar, það kemur skemmtileg áferð ef hummusinn er grófur. Svo er bara að smakka hann til og bæta við jógúrt og olíu ef hann er of þykkur. Á Íslandi myndi ég kaupa létt-sósu með graslauk og bera fram með ásamt salati, papriku, gúrku og pítubrauði eða tortillapönnsum. Oft hita ég hummusinn á pönnu áður en ég set hann í brauðið, það kemur mjög vel út, svona þegar mann vantar að fá heitan kvöldmat. Hann þarf bara augnablik á pönnu til að hitna í gegn og það þarf að passa sig að hræra í honum svo hann brenni ekki í botninn. En ég myndi ekki gera það ef ég væri að undirbúa nesti.

  Ég gerði einu sinni líka svakalega góðan hummus með limesafa og limeberki rifnum út í, hann varð svo frískur og bragðgóður, en fólk verður auðvitað að fíla lime fyrir það. Sá hummus hentaði ekki sem máltíð, en passaði rosalega vel með tortillaflögum. Þetta minnti mig á uppáhalds Doritosið mitt sem er ekki lengur til, LimeDoritos.
 2. 0 comments:

  Post a Comment