Rss Feed
 1. kósýkjúklingur

  Saturday, March 3, 2012

  Ég ákvað að nefna þennan rétt kósýkjúkling því mér datt ekkert betra orð í hug yfir eitthvað sem væri eins og comfort food. Þessi kjúklingur er fullkominn þegar mann langar í djúsí og djúpsteiktan óhollustukjúkling, en vill ekki alveg detta í sukkið. Þetta er ekta helgarmatur, og mjög auðveldur í framkvæmd. Ég eldaði hann á föstudaginn og við vorum svo gráðug í matinn að við borðuðum hann áður en ég mundi eftir að taka mynd.  Ég var með 5-6 kjúklingalundir fyrir okkur tvö og gerði hálfa uppskrift af mylsnunni en ég set hér uppskriftina heila, sem passar þá fyrir fjóra.

  Kjúklingur
  900 gr kjúklingalundir, eða bringur skornar langsum
  1/3 bolli hveiti
  1/3 bolli brauðraspur
  1/3 bolli mulið kornflex
  2 eggjahvítur, léttþeyttar
  1-2 tsk salt (má vera hvítlaukssalt eða eitthvað svoleiðis ef til)
  1 tsk sítrónupipar

  Ég ristaði brauðenda og reif niður í blandaranum mínum til að búa til brauðrasp en það er auðvitað hægt að kaupa tilbúinn rasp, ef þið notið tilbúinn athugið þá hvort það sé salt í honum og minnkið þá saltmagnið.
  Hveitið er sett á einn disk, eggjahvítan á annan, eða í skál og brauðraspinum, kornflexinu, saltinu og piparnum blandað saman á þriðja disknum.
  Kjúklingum er þá velt upp úr hveiti, þá eggjahvítu og loks kornflexblöndunni. Raðað á bökunarplötu eða í form, leyft að standa í 15 mínútur og svo bakað í heitum ofni í ca 15 mínútur eða þar til gegnsteikt. Ég setti smá olíu á botninn á mótið en það þarf ekkert endilega, sérstaklega ekki ef maður notar bökunarpappír undir.

  Meðlætið var svo kartöflumús og kúrbítur, bitaður niður og steiktur upp úr smjöri á pönnu með smá hvítlauk. Annars væri þessi kjúklingur líka mjög góður með frönskum, maís og hrásalati. 2. 2 comments:

  1. Una said...

   Ok, ég ÆTLA að prófa þennan rétt. :)

  2. Ragnhildur said...

   maður gæti örugglega líka notað salt & pipar kartöfluflögur á kjúklinginn, en þá er maður aftur kominn í óhollari kantinn.

  Post a Comment