Rss Feed
  1. Full helgi matar

    Tuesday, November 13, 2012

    Ég er enn að jafna mig á öllum frábæra matnum sem ég borðaði um helgina. Ég fór á þrjá veitingastaði og í tvær veislur og það er því ekki skrýtið! En helgin var æðisleg í alla staði enda var var ég í góðum félagsskap. Þessi ofur-matarhelgi byrjaði eiginlega á fimmtudaginn með matarboðinu. Á föstudaginn fór ég svo á Bergsson Mathús í hádegismat, fékk dásemdar Thai súpu og súrdeigsbrauð að sjálfsögðu. Ég mæli svo sannarlega með Bergsson, maturinn þar er svo hollur og góður.
    Um kvöldið fór ég svo með vinnunni á Austur-Indía fjelagið og pöntuðum við öll Hátíð Ljóssins matseðilinn. Maturinn var himneskur, fimm réttir sem voru hver öðrum betri, og lambið með myntusósunni. Namm. Ekki skemmdi rauðvínið fyrir matnum heldur.
    Á laugardaginn var svo mjög fjörugt og skemmtilegt tvöfalt barnaafmæli í hádeginu með yndislegum veitingum, súpu, brauði, kökum og öllu tilheyrandi og matarboð um kvöldið með geðveikt góðri vetrarsúpu og alls kyns meðlæti.
    Sunnudagsmorguninn hófst svo á brunch á Nítjándu! Ég var ekkert að grínast, þessi helgi var löðrandi í mat. Enda lá ég afvelta í sófanum restina af sunnudeginum á meltunni og þegar það var kominn tími á kvöldmat... þá var ekki séns að slaka eitthvað á í kröfunum, brauð með bökuðum baunum og osti! ha ha.

    En þessi helgi varð líka til þess að ég náði ekkert að elda eða baka sjálf. En ég hlýt nú að bæta úr því innan bráðar. Ég ætla líka að fara og kaupa mér myndavél enda löngu kominn tími til, það er svo ótrúlega leiðinlegt að setja inn ljótar myndir á matarblogg.
    Þar til næst,
    R

  2. 0 comments:

    Post a Comment