Rss Feed
  1. Kjúklingabaunir í hádegismat

    Thursday, November 29, 2012

    Kjúklingabaunasalat
    Það getur verið afskaplega þreytandi að finna hádegismat á hverjum degi í vinnunni. Það þarf helst að vera eitthvað hollt, saðsamt, ódýrt og fljótlegt. Ég er líka mjög gjörn á að festast í því sama dag eftir dag, brauð og meira brauð.
    Ég er mjög hrifin af kjúklingabaunum og fór að spá hvort það væri ekki hægt að gera einhvern góðan hádegismat úr þeim, annan en hummus borðaðan með brauði.
    Eftir smá grams á internetinu og í skápum og skúffum endaði ég á þessu salati sem ég var mjög ánægð með. Kjúklingabaunirnar ristaði ég á pönnu með kryddi og það var alveg ótrúlegt hvað þær urðu góðar. Ég borðaði alveg aðeins of margar beint af pönnunni, en ein dós ætti að duga í tvö salöt, ef helmingurinn fer ekki beint upp í munn.

    Kjúklingabaunasalat
    1 dós kjúklingabaunir
    ólívuolía
    salt og pipar
    malað cummin
    paprikuduft
    chilliduft eða cayenne pipar ef vill
    Ég hitaði olíu á pönnu og skellti baununum út í. Svo kryddaði ég baunirnar og smakkaði til, þar til þær voru orðnar mjög heitar og komið gott kryddbragð af þeim. Ég kældi þær svo niður til að kálið myndi ekki visna undan þeim.

    Salatið var einfalt, kál, paprika, gúrka, þurrkuð trönuber og fræblanda og svo kjúklingabaunirnar út á. Ég bætti svo fetaosti við í vinnunni og notaði ögn af fetaolíunni sem dressingu.

    Mjög einfalt og fljótlegt að gera, afskaplega handhægt fyrir nesti og hitinn af kryddinu gerir salatið svolítið vetrarlegt.

    Þar til næst,
    Ragnhildur

  2. 0 comments:

    Post a Comment