Rss Feed
 1. Vetur konungur og myrkrið er allsráðandi

  Thursday, November 15, 2012

  Chicken soup for the body and soul
  Stundum koma svona dagar eða vikur þar sem orkan hjá mér er gjörsamlega í núlli og þá hrúgast verkefnin auðvitað inn á sama tíma. Ég er búin að vera á þönum alla vikuna og hef ekki náð að elda neitt af viti, en samt langað svo mikið í heitan og góðan mat sem yljar kropp og sál og ekki síst vegna vetrarveðursins úti. Ég varð því brálæðislega æst af gleði á leiðinni heim í dag þegar ég mundi að ég átti einn skammt af kjúklingasúpu í frysti frá því um daginn.
  Ég eldaði hana í hádegismat á laugardegi fyrir nokkrum vikum þegar litli frændi minn var í heimsókn og veðrið var einmitt að gera okkur lífið leitt. Þá tók ég til í ísskápnum og setti slatta af þessu og dass af hinu en hún kom ljómandi vel út. Ég man í grófum dráttum hvaða hráefni ég notaði en svona súpur eru svo æðislegar því þær koma alltaf vel út. Þá bar ég hana fram með sýrðum rjóma, osti og nachos en í kvöld grillaði ég hálfa samloku með osti fyrir mig, en með osti, salsa og skinku fyrir betri helminginn. Svo átti ég rosalega gott jalapeno sour cream nachos sem ég keypti í Nóatúni, sem ég get mælt með, hvort sem er með súpu eða eintómt.

  nomnomnom
  Kjúklingasúpa í grófum dráttum
  olía
  1 laukur
  1 hvítlauksrif
  1 rautt chilli ef vill
  1 paprika
  3-4 gulrætur
  2 dósir tómatar (má nota passata eða tómatsafa með)
  væn skvetta chilli tómatsósa
  1-2 dósir vatn, eða eftir smekk
  1-2 teningar kjúklingakraftur
  salt og pipar
  cayenne pipar ef vill
  1 dós nýrnabaunir
  eldaður kjúklingur, ca 2 bringur eða 1/2 kjúklingur

  Skerið grænmetið í litla bita og steikið í olíu á miðlungshita í stórum potti í góða stund. Bætið tómötunum, tómatsósu, vatni og krafti út í og látið malla í að lágmarki 30 mínútur, en helst í að minnsta kosti 60 mínútur, eða þar til grænmetið er alveg eldað í gegn. Magnið af vökvanum fer svolítið eftir því hvað þið viljið sjálf hafa súpuna þykka og mikla. Þið getið byrjað á einni dós af tómötum og bætt hinni við seinna ef ykkur finnst þurfa. Takið af hitanum og maukið með töfrasprota eða blandara ef vill. Setjið aftur á hita, kryddið með salti og pipar. Skerið kjúklinginn niður og bætið út í ásamt nýrnabaununum og hitið í gegn.
  Svo mæli ég með því að frysta afganginn í litlum boxum fyrir langa daga eins og í dag. Það getur alveg bjargað manni.

  Það eina við að vera lítið heimili með stóran súpupott er að mann langar kannski ekki í sömu súpuna fjórum sinnum í matinn, þótt ég eigi reyndar yfirleitt auðvelt með það. En ég var að spá hvort maður gæti ekki komið á fót einhvers konar súpu-skiptimarkaði í fjölskyldu- og vinahópnum? Eldað stóran skammt af súpu og sett í lítersbox og skipt á súpum við aðra! Þá ætti maður kjötsúpu, mexíkóska súpu, þykka grænmetissúpu, thaílenska súpu og gulrótarsúpu eða eitthvað álíka til í frystinum. Kannski er ég bara þreytt, en mér finnst þetta bráðskemmtileg hugmynd. Got soup?

  Þar til næst,
  Ragnhildur

 2. 0 comments:

  Post a Comment