Rss Feed
  1. Heitt heitt heitt súkkulaði

    Sunday, November 25, 2012

    Nú er akkúrat sá tími árs þar sem heitt súkkulaði er alveg nauðsynlegt til að kæta mann og hlýja. Það er svo dásamlegt að kúra sig niður í sófann að kvöldi til í kósýfötum með bolla af heitu súkkulaði og spjalla eða horfa á sjónvarpið og sömuleiðis að dreypa á heitu súkkulaði með ristabrauðinu á sunnudagsmorgni og lesa blöðin. Það er svosem alveg nóg að kaupa gott instant kakó og blanda í heitt vatn, ég keypti t.d. Galaxy kakómix í Iceland um daginn sem er mjög gott. En það jafnast auðvitað ekkert á við alvöru heitt súkkulaði, með góðu súkkulaði bræddu út í mjólk. 
    Ég er mjög hrifin af því að nota bragðbætt súkkulaði til að gera súkkulaðið svolítið svona extra jömmí. Ég geri gjarnan súkkulaði úr dökku piparmyntusúkkulaði eða dökku appelsínusúkkulaði. Stundum blanda ég saman bragðbættu súkkulaði við hreint suðusúkkulaði, það fer svolítið eftir hvort mig langi í mikið bragð eða bara smá vott. Svo má auðvitað nota smá kanil eða chilli fyrir súkkulaði með extra kicki, eða dropa af koníaki fyrir fullorðinskakó. Namm. Það samt kannski á síður við á morgnana.
    Svo hef ég fryst afgangs þeyttan rjóma í klakaformum og silíkonmótum. Þá á maður tilbúinn rjóma til að skella út í einn-tvo bolla af súkkulaði án fyrirvara. Alveg dásamlega handhægt, og svo skemmir heldur ekki fyrir að hafa fljótandi hjörtu í bollanum. 

    Þar til næst,
    Ragnhildur




  2. 0 comments:

    Post a Comment