Rss Feed
  1. kósý kvöld með stæl

    Monday, December 3, 2012

     Við fengum óvænt gefins hreindýrasteik á föstudaginn og ákváðum að gera okkur glaðan dag á laugardagskvöld með steik og fíneríi. Það veitti ekki af því við erum bæði búin að vera á fullu í alls kyns verkefnum og vinnu og höfum undanfarið lifað á tilbúnum eða súper fljótlegum og einhæfum mat. Við reyndum þó að gera máltíðina frekar einfalda (lesist, sem minnst uppvask) en þetta endaði samt í mjög góðri og sparilegri máltíð. Ég vildi að við værum miklu duglegri að taka okkur til og hafa fínt fyrir okkur tvö, það er svo skemmtilegt.

    Steikin var frosin á föstudag og ég lét hana standa í skál í ísskáp yfir nótt og lét hana svo standa á borðinu í góðan tíma á laugardaginn með smá ólívuolíu, salti og pipar. Svo tók ég saman alls kyns grænmeti; kartöflur, sæta kartöflu, rófu, gulrætur og grasker (butternut squash) sem ég skar niður í teninga og setti í fat með smá vatni, olíu, salti, pipar og þurrkuðu timjani og inn í 200°C heitan ofn.

    Næst hitaði ég smjör á pönnu og steikti kjötið á báðum hliðum til að loka því og fá fallegan steikingarlit á það, setti það svo í ofnskúffu og inn í ofninn. Ég lét kjötið vera í 25 mínútur, þetta voru 700-800 grömm, og svo hvíldi ég það á borði í 10 mínútur áður en ég skar það. Grænmetið var áfram inni þar til það var búið með um 50-60 mínútur. Þegar kjötið var komið úr ofninum gerði ég sósuna.

    Ég tók sömu pönnu og ég steikti kjötið í, hellti smjör/vökvanum af steikinni ofan í hana og bætti við 2 dl vatni og hrærði svo venjulega pakkapiparsósu út í. Ég sauð hana samkvæmt fyrirmælum á pakkningu og bætti svo 1/2 dl af rjóma út í.

    Þetta var allt og sumt. Svo lögðum við á borð og kveiktum á kertum og nutum matarins. Það eina sem ég hefði viljað bæta var að mig vantaði eitthvað grænt á diskinn. Það hefði getað verið soðið brokkolí eða ferskt salat eða eitthvað svoleiðis, en að öðru leyti heppnaðist máltíðin mjög vel.

    Þar til næst,
    Ragnhildur

  2. 2 comments:

    1. Una said...

      vá en fínt og rómantískt :)

    2. Hlínster said...

      Mmmm hljómar vel! Ekki oft sem maður fær hreindýr!

    Post a Comment