Ég ligg upp í sófa með fartölvuna í fanginu, gjörsamlega uppgefin eftir að hafa eldað og
vaskað upp fyrir þriggja rétta, sex manna matarboð í kvöld. En það var vel þess virði fyrir ljúfa kvöldstund og góðan mat. Ég keypti hrefnuhakk í Iceland í einhverju gríni í haust og henti í frystinn en vissi ekkert hvað ég ætti að elda úr því. En ég ákvað loks að prófa það í rétt og gera ítalskar kjötbollur. En þar sem ég var í þessari tilraunastarfsemi þorði ég ekki annað en að hafa forrétt líka, svona svo að ef bollurnar væru lýsislegnar og óætar, að fólk hefði eitthvað ofan í sig.
Forrétturinn var salat með ofnbökuðum rauðrófum, geitaosti og pekanhnetum, ég fann uppskrift sem ég hafði til hliðsjónar á Skinnytaste, sem er ein af mínum uppáhalds matarbloggum. Salatið heppnaðist svo vel, ég hefði getað borðað mér til óbóta af því.
Hrefnuhakkbollurnar voru svo í aðalrétt, ásamt tagliatelle og einfaldri tómata-sósu, smá útúrsnúningur frá kjötbollum frá Nönnu, og í eftirrétt var ostakaka sem ég átti í frysti frá því ég var að baka fyrir Gestgjafann seinast, Twix og m&m ostakaka og ég sá einmitt í Hagkaup áðan að blaðið er komið í verslanir. Þetta hljómar kannski krakkalega, en ég er mjög ánægð með hvernig ostakakan kom út og auðvitað má sleppa m&minu og þá er hún meira elegant. Ég set kannski uppskriftina af henni inn seinna, en hún er í Kökublaði Gestgjafans fyrir þá sem vilja kíkja.
Salat með rauðrófum, geitaosti og pekan
1/2 rauðrófa
Gott blandað salat, helst íslenskt, eitt búnt/poki/kassi
75 g pekan hnetur
100 g geitaostur
2 msk ólívuolía
2 msk balsam edik
1 msk hunang
auka olía, salt og pipar
Hitið ofn í 200°C. Takið hálfa rauðrófu, afhýðið hana og skerið í teninga. Setjið rauðrófuna í eldfast mót, dreypið olíu yfir og saltið og piprið. Bakið í ofni í 50-60 mínútur. Kælið í um hálftíma. Ristið hneturnar á pönnu. Setjið olíu, balsam og hunang í litla krukku og hristið saman, hellið yfir salatblöðin og veltið vel saman með höndunum í skál. Skiptið salatinu á diska eða setjið á fallegt fat. Dreifið rauðrófunum yfir ásamt pekanhnetunum og klípið geitaostinn í litla bita yfir. Saltið ögn og piprið.
Ítölsk hrefna
(er hvalur ekki daglegt brauð á Ítalíu?)
1/2 laukur
1 hvítlauksrif
2-3 ristaðar brauðsneiðar
1 egg
salt
pipar
börkur af 1/2-1 sítrónu
2-3 msk rautt pestó
600 g hrefnuhakk
Skellið lauk, hvítlauk og brauði í matvinnsluvél og saxið. Bætið eggi, salti, pipar, sítrónuberki og pestó út í og blandið vel saman. Hrærið út í hrefnuhakkið í skál og blandið vel saman. Gerið kjötbollur úr deiginu, það er fínt að nota mæli-matskeið til að fá þær jafnar og passlega stórar. Setjið í eldfast mót og bakið í 18-20 mínútur. Gerið sósuna á meðan.
Sósa
1 krukka tómat Passata
1 tsk ítölsk kryddblanda
1 tsk óreganó
2 msk rautt pestó
salt og pipar
Setjið öll hráefnin í stóra pönnu og hitið rólega á lágum hita. Smakkið til. Bætið kjötbollunum svo út í sósuna og berið þannig fram.
Berið fram með 350 g af tagliatelle sem er soðið skv. leiðbeiningum á pakka.
Bon Appetit.