Rss Feed
  1. Allt sem er grænt grænt

    Wednesday, March 14, 2012

    Það er komið alvöru vor í Manchester og páskaliljurnar komnar upp um allan bæ. Ég er því minna í skapi fyrir súpur og kássur og meira í skapi fyrir salöt og þess háttar. Ég fann að lokum fljótlegan og þægilegan hollan kvöldverð til að gera eftir vinnu í gær á Skinnytaste, salat með kjúklingabaunum.
    Ég fylgdi uppskriftinni nánast alveg, mældi hráefnin kannski ekki nákvæmlega og notaði spínat í stað ruccola. Salatið var mjög gott á bragðið og alveg rosalega einfalt og fljótgert. Þetta var samt alveg rosalega léttur kvöldverður og ég myndi næst annaðhvort gera salatið í nesti eða hádegismat, eða bera það fram með einhverju fleiru í kvöldmat. Ég held einnig að það væri enn betra með ruccola eins og í uppskriftinni, ég þurfti bara að kaupa spínat því ég ákvað loksins að prófa líka að búa til grænt skrímsli í morgunmat.
    Mér finnst einhvernveginn grænir hristingar vera í umræðunni út um allt á matarbloggum og á fésinu svo ég gat ekki annað en prófað. 
    Græna skrímslið kom bara ljómandi vel út, þótt ég sé nú kannski ekki tilbúin að drekka svona á hverjum morgni. En það er ótrúlega fyndið hvernig hann bragðast bara eins og banani og hnetusmjör, ekkert spínatbragð. Svo er líka svo skemmtilegt að borða skrímsli í morgunmat og ég trúi því vel að þetta sé góð leið til að koma spínati ofan í litla krakka, ég kunni allavega að meta skemmtanagildið í grænum morgunmat.

    Í mitt skrímsli fór:
    1 lítill frosinn banani
    væn lúka af spínati
    1/2 bolli low fat vanillu jógúrt
    ca 3/4 bolli léttmjólk
    1 kúfuð teskeið hnetusmjör
    Henti þessu öllu í KitchenAid blandarann og þeytti vel, ég vildi sjá til þess að það væru engin hálfsöxuð spínatblöð fljótandi í drykknum. Ég gerði einn fyrir mig og einn hnetusmjörslausan fyrir Sibbmund og við skemmtum okkur stórvel yfir morgunmatnum. Ég vildi bara óska að ég hefði skyr til að setja í svona skrímsli, svo sé ég líka fyrir mér að skeið af Nutella eða einhverju svipuðu væri sjúklega góð í skrímslið líka, en ég er ekki viss um að það sé jafn hollt.







  2. 1 comments:

    1. flippari! Þetta lúkkar samt mjög mjög tasty lookin og fresh!

    Post a Comment