Rss Feed
 1. Möndlumjólk og krukkuhafragrautur

  Thursday, February 21, 2013

  Ég gerði nýjan skammt af möndlumjólk í gær. Ég var komin með smá nóg af kókosmjólk, í öllu. Möndlumjólkin sem ég gerði í gær var síðan sú allra besta sem ég hef gert. Ég notaði fleiri döðlur og hreina vanillu (ekki dropa) sem ég var að splæsa í handa sjálfri mér.
  Það er mjög létt að gera möndlumjólk. Maður leggur desilíter eða bolla af möndlum í vatn í 12-24 tíma (ég læt desilíter duga, mjólkin klárast ekki það hratt hjá mér). Svo er vatninu hellt af möndlunum og þær maukaðar í blandara ásamt 3-4 desilítrum (eða bollum) af vatni og 3-5 döðlum sem hafa legið í bleyti í 20 mínútur. Svo bragðbætti ég hana með hnífsoddi af vanillu og agnarögn af salti. Ég hellti maukinu í gegn um sigti og síðan aftur í gegnum (hreinan og ónotaðan) nælonsokk. Þá mjólkar maður vökvann í gegn, mjög skemmtilegt verk.  Svo fór hún í glerflösku og inn í ísskáp.

  En ég held áfram að prófa bannflokkana eftir Whole30 og í gær/dag var glúteinlaust kornmeti prufa. Ég notaði því möndlumjólkina og bjó mér til krukkuhafra eins og ég borðaði svo mikið af í haust. Ég var búin að sakna þess að fá mér krukku með hafragumsi í morgunmat svo ég var mjög glöð í morgun. Í stað AB mjólkur og mjólkur notaði ég möndlumjólkina og setti hafra, chia fræ, banana og frosin hindber út í. Allt hrist saman í krukku og geymt í ísskáp yfir nótt.
  Glúteinlausa kornmetisprufan fór reyndar í smá rugl hjá mér því mér bauðst óvænt að fara á sushinámskeið í gær. Ég greip að sjálfsögðu tækifærið og það var mjög skemmtilegt, en þá borðaði ég sushi með hrísgrjónum og soyasósu sem tilheyra sitt hvorum bannflokknum. En svona er þetta bara, og ég reyni svo að halda áfram næstu daga á hreinu og beinu brautinni. 2. 0 comments:

  Post a Comment