Ég var að klára að sjóða kjötsúpu, það er nú ekki erfitt að Paleo-væða kjötsúpu. Sleppa hvítu kartöflunum og sleppa krafti og grjónum. Ég gerði stútfullan 5 lítra pott af kjötsúpu og hún er troðin af grænmeti. Mjög fín.
1-1.2 kíló súpukjöt
2 lítrar vatn
1 msk salt
1 rófa
4 gulrætur
1/2 sæt kartafla
1/3 grasker (butternut squash)
1/2-1 hvítkálshaus
1-2 msk súpukrydd
1-2 lárviðarlauf ef vill
salt og pipar eftir smekk
Setjið vatn í pott og komið suðu upp. Þerrið kjötið og snyrtið til og bætið því út í vatnið ásamt salti. Látið sjóða í um 40 mínútur og fleytið ofan af vatninu ef þarf. Skerið grænmetið niður í sneiðar eða bita eftir smekk. Eftir 40 mínútur má taka kjötið upp úr og skera niður í þægilega munnbita og fjarlægja bein og fitu ef vill, og setja kjötið svo aftur út í. Bæta svo súpujurtum og öllu grænmetinu fyrir utan hvítkálið út í pottinn. Það þarf að sjóða í um 15-20 mínútur. Setjið hvítkálið út í 5-10 mínútum síðar. Smakkið súpuna svo til með salti og pipar.
Súpan er auðvitað ekki nákvæmlega eins og kjötsúpa, því það er svo rótgróið í bragðlaukunum að hafa kartöflur með en engu að síður kemst hún mjög nálægt "the real thing". Það eina sem mér finnst slæmt er að geta ekki klárað máltíðina með því að teyga ískalt mjólkurglas eins og venjulega eftir kjötsúpu.
0 comments:
Post a Comment