Rss Feed
 1. Paleo fajitas

  Sunday, January 20, 2013

  Ég bjó til eins konar fajitas í kvöldmatinn, án þess að nota tortillur. Mér datt í hug að prófa nota kál til að vefja í. Ég átti reyndar bara lambhagasalat og það er ansi þunnt og viðkvæmt en þetta kom samt alveg fínt út, en væri líklega betra með einhverju sterkara káli. Hinsvegar var ég svo upptekin af þessu brasi mínu að ég steingleymdi að taka myndir! En hér kemur uppskriftin allavega:

  "Fajitas" fyrir tvo
  1 pakki kjúklingalæri, úrbeinuð og skinnlaus
  1 msk kókosolía
  1 hvítlauksrif
  1/2 rautt chili
  lítill engiferbúti
  salt og pipar
  paprikuduft
  cummin
  kóríander (kryddið)
  óreganó
  1/2-1 paprika, eftir stærð
  nokkrir sveppir
  stilkar af fersku kóríander

  Ég hitaði olíuna á pönnu og skar kjúklinginn niður í bita og steikti. Reif hvítlaukinn og engiferið niður og saxaði hálft chili og bætti út í kjötið. Kryddaði svo með paprikudufti, cummin, kóríander, ögn af óreganó og salti og pipar. Þegar kjúklingurinn var orðinn steiktur skar ég paprikuna í lengjur og sveppina í sneiðar og bætti út á pönnuna og steikti smá með kjötinu ásamt stilkum af kóríander sem urðu afgangs frá guacamoleinu.

  Guacamole
  1 þroskað avókadó
  1/4 rautt chilli
  1/2 lime
  ferskt kóríander
  salt og pipar
  Kirsuberjatómatar

  Ég stappaði avókadóið niður, saxaði chilli og kóríander og bætti út í og kreisti safann úr hálfu lime yfir og saltaði og pipraði. Ég skar nokkra kirsuberjatómata út í en bar restina af þeim fram með matnum.

  Svo tók ég lambhagasalatblöð og skellti  guacamole á þau, kjötinu og paprikublöndunni og sneiðum af tómat, vafði saman og borðaði.

  Ég var að hugsa um að búa til ferskt salsa líka með, en nennti því svo ekki. Það væri samt ábyggilega mjög gott með.


 2. 0 comments:

  Post a Comment