Rss Feed
  1. bíddu hvaða ár er?

    Wednesday, January 16, 2013

    Obbosí hvað það er langt síðan ég bloggaði. Jólin komin og farin og nýárið ekkert svo nýtt lengur. Mér til afsökunar var ég að byrja í nýrri vinnu og að útbúa heimagerðar jólagjafir... svo er ég bara búin að vera södd eftir gamlárs og er rétt núna að koma mér í gírinn, haha.
    Ég strengdi engin áramótaheit þannig, en ég held það gerist hjá flestum að þegar nýtt ár gengur í garð að maður fer að spá í hvað er hægt að gera til að bæta sig í lífinu. Það er tvennt hjá mér. Mig langar að vera duglegri að hitta vini mína, stinga upp á kaffihúsahittingi eða bjóða fólki til mín að tilefnislausu og algjörlega casual. Ég dett svo oft í að það verði að hóa saman "öllum hópnum" eða gera eitthvað sérstakt og hafa extra fínt og huggó en það er ekki aðalmálið. Hitt atriðið mitt kemur svo þessu bloggi meira við og það er að vera heilsusamlegri. ííík. En eitt skref í einu og ég ákvað eftir ekki svo mikla umhugsun og smá skyndiákvörðun að taka Whole30 áskorunina í Paleo mataræðinu. Ég hef aðeins lesið mér til um þetta og veit svosem ekki hvort þetta sé best í heimi eða ekki en það kemur í ljós. Og það er frekar ólíklegt að grænmeti, ávextir, kjöt og fiskur drepi mig á 30 dögum.
    En ég er á öðrum degi áskoruninnar, fyrsti dagurinn gekk vel. Eina vandamálið mitt  var að drekka kaffið mitt svart. Dagurinn í dag var aðeins erfiðari, og ég er enn frekar óörugg með hvað má og má ekki. Ég bjó mér til hristing í morgunmat úr spínati, epli, banana, sellerí, engifer, lime, möndlum og smá vatni. Ég er ekki með það alveg á hreinu hvort það sé í lagi að búa til hristing eða ekki en ég hafði eiginlega ekki val um neitt annað í morgun. Nema hvað helvítið blandaðist ekki nógu vel og ég var á hraðferð að venju og endaði á að pína ofan í mig kekkjóttan hristing og kúgast í bílnum. En niður fór hann samt og bragðið var ekki slæmt, bara áferðin.

    En kvöldmaturinn í kvöld heppnaðist mjög vel fannst mér og ég ákvað því að henda þeirri uppskrift hingað inn, ég veit ekki hvort það sé einhver hér sem vill nýta sér Paleo vænar uppskriftir en þá get ég allavega haft þetta fyrir mig :)



    Hakk og hvítlauksblómkálsmús

    Hakk og grænmeti
    olía
    1 laukur saxaður
    1 hvítlauksrif rifið
    2 gulrætur saxaðar
    2 sellerístilkar rifnir
    1 paprika söxuð
    5 sveppir saxaðir
    1 pakki hakk (var með blöndu af nauta og svína)
    1-2 msk tómatpúrra
    tómatar í dós
    salt og pipar
    basilíka þurrkuð
    óreganó þurrkað
    ítölsk kryddblanda
    chilipiparflögur
    balsamedik skvetta

    ég setti smá olíu í pönnu og steikti grænmetið, steikti svo hakkið og blandaði þessu saman. Hrærði tómatpúrru og tómata í dós út í og kryddaði svo hakkið, ég mældi það ekkert heldur kryddaði bara svolítið vel, enda er enginn kjötkraftur í réttinum. Svo setti ég lokið á pönnuna og lét þetta malla á meðan ég gerði blómkálið klárt.

    Hvítlauksblómkálsmús
    1 blómkálshaus, skorinn í bita
    1 msk olía
    1-2 hvítlauksrif, rifin
    1 tsk rósmarín
    salt og pipar

    Ég sauð blómkálið í vatni í potti, en þeir sem geta gufusoðið eiga að sjálfsögðu að gera það. Þegar blómkálið var soðið skellti ég því í sigti og setti olíuskvettu í pottinn og hvítlaukinn, rósmarínið, saltið og piparinn út í. Þegar hvítlaukurinn var búinn að malla smá í olíunni slökkti ég undir pottinum og setti blómkálið út í pottinnn og stappaði með kartöflustöppu. Þegar ég var búin að því tók ég töfrasprota og maukaði blómkálið betur.

    Úr þessu varð alveg fínasta máltíð, það er svolítið mikið hvítlauksbragð af blómkálinu, ég notaði tvö rif en það var samt svo gott. Það er kannski nóg að nota eitt.

  2. 0 comments:

    Post a Comment