Rss Feed
 1. míníeggjakökur

  Sunday, January 20, 2013

  Ég er komin á sjötta dag í Whole30 og mér gengur bara ótrúlega vel finnst mér. Ég hef ekkert svindlað og ég er að spá hvort það henti mér hreinlega betur að vera með eitthvað svona strangt prógramm þar sem ég bara má ekki fá svo mikið sem einn bita af pítsu í stað þess að reyna að fá mér bara eina sneið...
  Það eina sem mér finnst svolítið vefjast fyrir mér er morgunmaturinn, ég hef ekki lyst á afgang af kvöldmat á morgnanna og ég vakna ekki nógu snemma til að brasa egg og beikon eða eitthvað. En ég hef gert nokkra græna sjeika og þeir eru allir að koma til hjá mér. En ég gerði líka þessar mini eggjakökur í vikunni og þær komu rosa vel út. Ég sá þessa uppskrift hér, og notaði hana sem viðmið. Ég átti hamborgarhryggssneiðar frá Kjarnafæði (enginn sykur í þeim) og notaði í botninn og hliðarnar. Ég smakkaði þessar fyrst heitar og þær voru allt í lagi þannig, en svo fannst mér þær mun betri kaldar, ég borðaði tvær í morgunmat í bílnum ásamt nokkrum kirsuberjatómötum.

  Mini eggjakökur 6 stk
  6 sneiðar hamborgarhryggsálegg
  2 msk olía
  1/4 laukur
  100 g sveppir
  2 bitar frosið spínat (ca 130 gr), afþýtt og kreist
  4 egg
  2 tsk kókosmjólk/möndlumjólk
  1 tsk kókos-/möndluhveiti*
  6-12 kirsuberjatómatar (ég notaði 6 en fannst það svo of lítið, mæli með að auka magnið í 9-12)
  salt og pipar
  *ég var nýbúin að gera möndlumjólk og setti tæpa teskeið af hratinu út í eggjahræruna en það má held ég alveg sleppa því. Ég ætlaði að nýta hratið í eitthvað, en restin af því endaði í ruslinu.

  Hita ofn í 190°C. Ég gleymdi að sjálfsögðu að smyrja muffinformið en það má gjarnan nota helminginn af olíunni til þess. Svo skar ég hamborgarhrygginn niður þannig að einn hluti fór í botninn á muffinformi og tveir hlutar meðfram hliðunum. Það skiptir engu hvort þetta verði eitthvað súper fínt. Svo fór matskeið af olíu á pönnu og laukurinn og sveppirnir steiktir og svo kældir aðeins. Eggin hrærð saman ásamt kókosmjólk, salti og pipar og möndluhrati. Grænmetinu svo hrært út í og eggjahrærunni hellt út í muffinmótin með kjötinu. Kirsuberjatómatar helmingaðir eða fjórðungaðir og settir ofan á. Bakað í ofni í 25-30 mínútur eða þar til tilbúið.
  Næst ætla ég að prófa að minnka spínatmagnið og bæta við rifnum gulrótum og papriku og jafnvel krydda með timíani eða óreganó.

 2. 0 comments:

  Post a Comment