Rss Feed
  1. Kjúklingasúpa

    Monday, January 21, 2013

    Ég ákvað að malla kjúklingasúpu í kvöldmatinn, bæði
    til þess að nýta kjúklingasoð sem ég bjó til um helgina og líka til að elda nógu stóra máltíð til að geta notað afgang í nesti í hádegismat. Ég eldaði heilan kjúkling á laugardag og ákvað að prófa að útbúa soð. Beinin fóru í pott ásamt öllu skinninu og því sem var afgangs, fyrir utan kjötið, ásamt vatni, lárviðarlaufi, gulrót, sellerístöngli, 1/2 lauk, piparkornum og ögn af salti. Þetta sauð ég niður í einhverja 3-4 klukkutíma, síaði og setti í ísskáp. Ég hef aldrei áður gert soð og veit ekki hvort þetta sé besta leiðin til þess en það allavega varð soð úr þessu. En auðvitað má fólk nota kraft og vatn, mjög einfalt mál. Svo notaði ég þessa uppskrift sem viðmið að súpunni, en fór aðeins útfyrir rammann.

    Kjúklingasúpa 
    2 msk kókosolía
    1 laukur saxaður
    2 hvítlauksrif rifin
    stór engiferbútur rifinn
    1 rautt chilli saxað
    4 gulrætur, rifnar
    2 græn epli, rifin (næst ætla ég bara að nota eitt epli)
    stór matskeið karrí
    heimalagað kjúklingasoð, eða 1-2 teningar +vatn
    2 dósir hakkaðir tómatar
    2 dósir kókosmjólk
    1-2 dósir vatn
    1200 g kjúklingalundir eða bringur
    salt og pipar
    ferskur kóríander
    Svo smakkaði ég súpuna til með þessum kryddum: karrí, tandoori, cummin, cayenne pipar, paprika, chili powder. Mér finnst betra að hafa smá svona kick í vetrarsúpum.

    Steikti lauk, hvítlauk, engifer og chili úr olíu í 5 lítra potti. Bætti svo gulrótum og eplum út í ásamt karrý. Smellti svo soðinu út í ásamt tómötunum og sauð saman á meðan ég skar kjúklinginn í bita, í um 15 mínútur. Bætti 2 dósum af kókosmjólk út í og skolaði innan úr þeim með heitu vatni og bætti út í. Náði upp suðu og bragðbætti súpuna með kryddunum sem eru talin upp hér að ofan, dash af hverju, henti svo kjúklingnum út í og lét hann eldast og malla í súpunni þar til ég gat ekki beðið lengur afþví ég var orðin svo svöng.
    Jós í skálar og klippti ferskt kóríander yfir.




  2. 0 comments:

    Post a Comment