Rss Feed
  1. Paleo-hráfæðis hummus

    Tuesday, February 5, 2013

    Ég fæ alltaf fréttabréf frá Sollu á Gló í tölvupósti. Í þessari viku sendi hún uppskrift að hráfæðis "hummus" þar sem kúrbítur og kasjúhnetur koma í stað kjúklingabauna. Ég ákvað að henda í einn skammt til að prófa, en ég hafði svosem ekki miklar vonir um bragðið enda finnst mér alvöru kjúklingabaunahummus innilega virkilega sjúklega gott. En haltu á ketti hvað þessi uppskrift kom skemmtilega á óvart!! Ég held það væri auðveldlega hægt að plata fólk með þessari dýfu. Áferðin og bragðið eru alveg spot on. Ég fór aðeins of frjálslega með sítrónusafann og ætla að passa mig aðeins á honum næst, bæði bragðsins vegna og þykktarinnar en ég get svo sannarlega mælt með þessar dýfu með skornu grænmeti í millimál og snarl.

    Núna ætla ég að elda smá butternutsquash súpu til að taka með mér í matarboð á morgun. Ég veit það hljómar pínu klikk, en það verður saltkjöt og baunir í matinn í afmælinu hans pabba á morgun og mér datt í hug að elda appelsínugula súpu til að borða ásamt smá saltkjöti, þá er ég næstum eins og hinir. Ég skipti bara út rjómanum í uppskriftinni fyrir kókosmjólk og vona að hún verði ágæt.

    Í kvöld gerði ég mjög léttan "einnar pönnu" kvöldverð. Ég keypti svínakjöt í búðinni, því miður voru svínakótilettur ekki til svo ég keypti snitzel, en ég mæli með svínakótilettum. Kryddaði með salti og pipar og smurði smá Dijon sinnepi yfir líka sem ég hræði með ögn af olíu og þurrkuðu timjani. Steikti svo báðu megin á pönnu í hreinsuðu smjöri. Þegar ég var búin að snúa kjötinu og steikja það ögn bætti ég 5 niðursneiddum sveppum á pönnuna og setti lok yfir. Þetta mallaði í smá stund þannig að það myndaðist soð á pönnunni með sveppunum. Borðaði þetta svo með salati. Fínasti kvöldverður sem tók um 10 mínútur að elda.

  2. 0 comments:

    Post a Comment