Súkkulaðiís með döðlum í stað sykurs |
Í dag er mjólkurvörudagur og samkvæmt prógramminu á ég að borða jógúrt, ost og ís í eftirrétt. Það finnst mér nú alls ekki slæmt!! Ég fékk mér því gríska jógúrt með jarðarberjum og bananabitum í morgunmat, í kvöld verður kjúklingur með spínati og mozzarella og heimatilbúinn ís í eftirrétt.
Ég er svo ánægð með að hafa tekið allan sykur út úr mataræðinu mínu svo ég var í smá klípu með ísinn. Mig langaði ekki að kaupa búðarís stútfullan af sykri og vildi heldur ekki nota gervisykur þannig að ég lagði höfuðið í bleyti og viti menn, ég fékk hugmynd. Mér datt í hug að nota döðlumauk í stað sykurs og las mér aðeins til á netinu og það er víst fullt af fólki í heiminum sem gerir þetta. Auðvitað er sykur í döðlum, en hann er þó allavega enn í sínu náttúrulega formi, ekki unninn og samanpressaður. Svo keypti ég dökkt lífrænt ræktað 70% súkkulaði til að bragðbæta ísinn og notaði bara 50 grömm í skammtinn.
Við verðum fjögur sem borðum saman í kvöld þannig að það er ekki hætta á að ég borði allan ísinn ein heldur. En hér kemur uppskriftin, ísinn er í frysti núna svo ég get ekki sagt til um lokaútkomu en bragðið af honum ófrystum var allavega mjög gott og ég hlakka mikið til að smakka hann í kvöld:
egg og döðlumauk |
3 eggjarauður
65 g döðlumauk*
1 tsk vanilludropar
u.þ.b. 50gr 70% súkkulaði (ég notaði 4 lengjur af G&B súkkulaði)
250 ml rjómi
Þeyttu eggjarauðurnar með döðlumauki og vanillu (ég notaði töfrasprotann, til að döðlumaukið myndi örugglega tætast í algjörar öreindir því ég nennti ekki að sigta döðlutætlur úr). Bræddu helminginn af súkkulaðinu og hrærðu út í eggjablönduna. Þeyttu rjómann í annarri skál og hrærðu eggjablönduna varlega út í. Saxaðu hinn helminginn af súkkulaðinu smátt og hrærðu út í ísblönduna. Helltu í box og frystu.
*Döðlumauk
60 gr döðlur
1/4 b sjóðandi vatn
Saxaðu möndlurnar niður í bita eða sneiðar og leggðu í skál eða krukku. Helltu sjóðandi vatni yfir og láttu döðlurnar mýkjast í því í 20-30 mínútur. Maukaðu með töfrasprota.
0 comments:
Post a Comment