Rss Feed
  1. Allt sem er grænt grænt

    Wednesday, March 14, 2012

    Það er komið alvöru vor í Manchester og páskaliljurnar komnar upp um allan bæ. Ég er því minna í skapi fyrir súpur og kássur og meira í skapi fyrir salöt og þess háttar. Ég fann að lokum fljótlegan og þægilegan hollan kvöldverð til að gera eftir vinnu í gær á Skinnytaste, salat með kjúklingabaunum.
    Ég fylgdi uppskriftinni nánast alveg, mældi hráefnin kannski ekki nákvæmlega og notaði spínat í stað ruccola. Salatið var mjög gott á bragðið og alveg rosalega einfalt og fljótgert. Þetta var samt alveg rosalega léttur kvöldverður og ég myndi næst annaðhvort gera salatið í nesti eða hádegismat, eða bera það fram með einhverju fleiru í kvöldmat. Ég held einnig að það væri enn betra með ruccola eins og í uppskriftinni, ég þurfti bara að kaupa spínat því ég ákvað loksins að prófa líka að búa til grænt skrímsli í morgunmat.
    Mér finnst einhvernveginn grænir hristingar vera í umræðunni út um allt á matarbloggum og á fésinu svo ég gat ekki annað en prófað. 
    Græna skrímslið kom bara ljómandi vel út, þótt ég sé nú kannski ekki tilbúin að drekka svona á hverjum morgni. En það er ótrúlega fyndið hvernig hann bragðast bara eins og banani og hnetusmjör, ekkert spínatbragð. Svo er líka svo skemmtilegt að borða skrímsli í morgunmat og ég trúi því vel að þetta sé góð leið til að koma spínati ofan í litla krakka, ég kunni allavega að meta skemmtanagildið í grænum morgunmat.

    Í mitt skrímsli fór:
    1 lítill frosinn banani
    væn lúka af spínati
    1/2 bolli low fat vanillu jógúrt
    ca 3/4 bolli léttmjólk
    1 kúfuð teskeið hnetusmjör
    Henti þessu öllu í KitchenAid blandarann og þeytti vel, ég vildi sjá til þess að það væru engin hálfsöxuð spínatblöð fljótandi í drykknum. Ég gerði einn fyrir mig og einn hnetusmjörslausan fyrir Sibbmund og við skemmtum okkur stórvel yfir morgunmatnum. Ég vildi bara óska að ég hefði skyr til að setja í svona skrímsli, svo sé ég líka fyrir mér að skeið af Nutella eða einhverju svipuðu væri sjúklega góð í skrímslið líka, en ég er ekki viss um að það sé jafn hollt.







  2. Sól Sól skín á mig

    Tuesday, March 13, 2012

    Mér finnst svolítið fyndið hvernig lystin hjá mér breytist eftir veðri. Ég sat á bekk úti á torgi í hádeginu og sleikti sólina (þótt hitinn hafi bara verið 10 gráður) og er núna að reyna að fá hugmyndir að kvöldmat.
    Ég sé í hyllingum létt salöt og frískandi, litríkan mat fullan af grænmeti og ávöxtum. En mér er samt ekki búið að detta í hug eitthvað ákveðið eitt sem mér lýst vel á í kvöldmatinn. Því þótt í augnablikinu gæti ég dundað mér við að elda lengi verð ég í vinnunni til 5 og þarf þá að fara í búðina með fartölvuna á bakinu og versla í matinn og koma mér heim með strætó eða gangandi. Á þeim tíma er ég yfirleitt orðin þreytt, svöng og úrill svo það yrði helst að vera matur sem er fljótlegt að laga. Svo þarf maturinn einnig helst að vera úr frekar ódýru hráefni. Úff þetta er erfitt. Einhverjar uppástungur að ódýrum, hollum og fljótlegum kvöldmat? Er ég nokkuð að biðja um of mikið? Ég enda kannski bara á að kaupa hummus og gulrótastangir...


  3. Ó Jósep Jósep

    Saturday, March 10, 2012

    Mikið endalaust gerir breska Joseph Joseph kompaníið skemmtilegar eldhúsvörur. Ég var að sjá nýja matreiðslubókastandinn þeirra og hann er hreint út sagt brill. Hann leggst saman og lítur út eins og bók þegar hann er ekki í notkun, svo það er hægt að geyma hann upp í bókahillu! Hann er líka hannaður með venjulegar bækur sem og spjaldtölvur í huga. Ég fíla þennan græna lit reyndar ekki svo vel, myndi allavega kjósa þennan hvíta framyfir græna standinn, en ef það væri til bleikur eða gulur eða eitthvað svoleiðis...

    En ég var semsagt að splæsa í smá nýtt eldhúsdót, eina bleika Joseph Joseph sleikju, sem ég er búin að mæna á á amazon í tvö ár ábyggilega og svo í litla ískúluskeið, sem er í góðri stærð fyrir smákökur, kjötbollur og þess háttar. Með öðrum orðum, góð fyrir allt annað en ískúlur.

    Ég varð því að baka eitthvað, bara til að athuga hvort nýju græjurnar virkuðu ekki almennilega og henti í súkkulaðibitasmákökuuppskrift (gott orð í hangman!) úr Nigella Kitchen. Ég gerði hálfa uppskrift en kökurnar urðu eitthvað pínulítið skrýtnar hjá mér, gæti verið afþví að í venjulegri uppskrift er eitt egg og ein rauða og ég setti eitt egg í hálft deig, en þessi póstur er hvort sem er bara um græjurnar, ekki kökurnar.

    Joseph Joseph sleikjan er rosalega góð, svona við fyrstu kynni allavega. Þessar sleikjur eru til í þrem stærðum og litum og mín er minnsta týpan, og já ég valdi stærðina út frá litnum og skammast mín ekkert fyrir það. Það besta við sleikjuna er samt er hvað hún er tæknileg, það er járn inni í skaftinu til að þyngja það og svo er svona lítill fótur þannig að maður getur lagt hana niður án þess að sleikjuhausinn klínist í borðið. Ótrúlega sniðugt!

    Litla skeiðin virkaði líka mjög vel, hún er 39mm og kökurnar komu í passlegri smákökustærð fyrir minn smekk. Ég fékk 21 köku úr hálfri uppskrift en skv. Nigellu eiga að koma 14 kökur úr heilli uppskrift! Sigurgeir kom í eldhúsið til að prófa græjurnar líka og fannst þær virka mjög vel, svo vel að ég varð nánast að slást til að fá kúluskeiðina aftur í hendurnar.

    sko, ekkert subb á borðinu

    skrýtnu smákökurnar

  4. sunnudagsmaturinn

    Sunday, March 4, 2012

    Það versta við átak í matarblogginu er hvað maður verður að elda og borða mikið! Þetta er dörtý djobb en einhver verður að sjá um það.
    Ég ætlaði að hafa kjúklingasalat í kvöldmatinn og borða voða léttan og góðan kvöldverð en ég gleymdi að kaupa kál í búðinni, eitt leiddi af öðru og maturinn breyttist úr léttu salati í tveggja rétta sunnudagskvöldverð. Úbbs. 

    Kjúklingamarineringin kemur frá Barefoot Contessa via Guðrúnu systur. Í upprunalegu uppskriftinni eru þetta kjúklingalundir grillaðar á spjóti og bornar fram með satay sósu sem er algjörlega til að deyja fyrir, en marineringin er líka svo einföld og góð að ég geri hana reglulega, hvort sem er fyrir grillaðan kjúkling, bakaðan eða steiktan. Ég hef líka marinerað bringur og grillað og tekið með í útilegu, þá er nóg að henda þeim á grillið til að hita þær. Sjúklega góður og fljótlegur útilegumatur.

    Kjúklingur í sítrónulegi
    3/4 bolli ferskur sítrónusafi, ca 2 sítrónur
    3/4 bolli ólífuolía
    2 tsk salt
    1 tsk pipar
    1 msk ferskt timian eða 1 tsk þurrkað
    900 gr kjúklingabringur eða lundir

    Mér finnst best að henda þessu öllu saman í poka og láta marinerast en auðvitað má líka nota skál. Í grunnuppskriftinni er sagt að marinera kjötið í ísskáp í sex tíma en mér finnst alveg nóg að hafa það í tvo klukkutíma, jafnvel bara einn ef maður hefur ekki meiri tíma en hafa kjötið þá uppi á borði. En það fer líka eftir því hvort maður vilji virkilega sítrónuleginn kjúkling eða bara sítrónubragð. Í kvöld steikti ég bringurnar á pönnu, en ef þær eru mjög stórar og þykkar þá er betra að setja þær í ofninn, eða þá allavega skera þær niður áður en þær fara á pönnu. Best er auðvitað að grilla þennan kjúkling en ég bý á 7. hæð í blokk án svala og án grills og eftir því sem ég best veit er líka snjór á Íslandinu og ekkert veður til að grilla. 
    Við vorum sem áður bara tvö í mat svo ég gerði hálfa marineringu og var með tvær bringur. Ég sé eftir því núna, ég hefði átt að marinera fjórar bringur og eiga afgang fyrir nesti. 

    Svo skar ég væna sæta kartöflu í 8 bita og sauð í potti. Afhýddi svo og stappaði niður með smá mjólk, smjörklípu, salti og pipar. Svo var salatið bara paprika, gúrka og fetaostur með smá olíu og balsam. Alveg hreint hin fínasta sunnudagsmáltíð. En ég var komin í ham svo það varð að vera eftirréttur líka.

    Pönnukökur með banana og súkkulaði
    Ég held það sé nú algjör óþarfi að setja pönnuköku uppskrift á netið, það eiga allir uppskrift frá mömmu sinni eða frá botninum á pönnunum sem eru seldar heima. Ég gerði bara hálfa uppskrift af deigi og steikti pönnsur. Ég er soddan hippi að ég á ekki einu sinni pönnukökupönnu, nota bara einhverja þunnbotna, ójafna, hræðilega pönnu sem fylgdi með íbúðinni en pönnsurnar verða fínar samt sem áður. 
    Svo tók ég hálfa plötu af suðusúkkulaði og bræddi í smá rjómaskvettu og smurði á pönnsuna og setti bananasneiðar inn í. Toppurinn hefði svo verið ef ég hefði átt nægan rjóma til að þeyta líka en svo var ekki raunin. Þetta var samt alveg sjúklega gott og Sibbmundur varð þvílíkt glaður og hissa, en þetta er eitt það besta sem hann veit. Núna eru fjórar pönnsur eftir sem mig grunar að verði horfnar í fyrramálið.

    Svo verð ég að fara að fjárfesta í myndavél, ég tek allar matarmyndirnar á iphone-inn minn, sem er ekki næstum því nýjasta týpan, og þess vegna eru þær allar svona ómerkilegar. 

    Happy cooking! X



  5. kósýkjúklingur

    Saturday, March 3, 2012

    Ég ákvað að nefna þennan rétt kósýkjúkling því mér datt ekkert betra orð í hug yfir eitthvað sem væri eins og comfort food. Þessi kjúklingur er fullkominn þegar mann langar í djúsí og djúpsteiktan óhollustukjúkling, en vill ekki alveg detta í sukkið. Þetta er ekta helgarmatur, og mjög auðveldur í framkvæmd. Ég eldaði hann á föstudaginn og við vorum svo gráðug í matinn að við borðuðum hann áður en ég mundi eftir að taka mynd.  Ég var með 5-6 kjúklingalundir fyrir okkur tvö og gerði hálfa uppskrift af mylsnunni en ég set hér uppskriftina heila, sem passar þá fyrir fjóra.

    Kjúklingur
    900 gr kjúklingalundir, eða bringur skornar langsum
    1/3 bolli hveiti
    1/3 bolli brauðraspur
    1/3 bolli mulið kornflex
    2 eggjahvítur, léttþeyttar
    1-2 tsk salt (má vera hvítlaukssalt eða eitthvað svoleiðis ef til)
    1 tsk sítrónupipar

    Ég ristaði brauðenda og reif niður í blandaranum mínum til að búa til brauðrasp en það er auðvitað hægt að kaupa tilbúinn rasp, ef þið notið tilbúinn athugið þá hvort það sé salt í honum og minnkið þá saltmagnið.
    Hveitið er sett á einn disk, eggjahvítan á annan, eða í skál og brauðraspinum, kornflexinu, saltinu og piparnum blandað saman á þriðja disknum.
    Kjúklingum er þá velt upp úr hveiti, þá eggjahvítu og loks kornflexblöndunni. Raðað á bökunarplötu eða í form, leyft að standa í 15 mínútur og svo bakað í heitum ofni í ca 15 mínútur eða þar til gegnsteikt. Ég setti smá olíu á botninn á mótið en það þarf ekkert endilega, sérstaklega ekki ef maður notar bökunarpappír undir.

    Meðlætið var svo kartöflumús og kúrbítur, bitaður niður og steiktur upp úr smjöri á pönnu með smá hvítlauk. Annars væri þessi kjúklingur líka mjög góður með frönskum, maís og hrásalati.



  6. Banananananamúffur

    Friday, March 2, 2012

    Ég fékk minimúffuform í konudagsgjöf. Ég neyddist (eða þannig) þessvegna til að baka múffur og þá kom auðvitað ekkert annað til greina en bananamúffur. Ég skil það svo innilega ekki afhverju bananamúffur eru ekki oftar til sölu á kaffihúsum og í bakaríum því þær eru svo góðar. En kannski er skemmtilegra að baka múffur heima sem eru ekki til á hverju götuhorni.

    Eftir að hafa bakað þessar múffur komst ég að því að mínímúffur eru stórhættulegar. Helmingurinn af þeim hvarf á augabragði. Þær voru æði, en ég fann það strax daginn eftir að þær voru ekki lengur ferskar, þær eru svo nettar að þær eru greinilega fljótar að þorna. Mínímúffur eru því eitthvað sem maður á að baka og neyta samdægurs, en kannski ekki einsamall. Reyndar gæti það líka haft áhrif að ég var ekki með þær í pappírformum, þau hjálpa örugglega líka við að halda þeim ferskum. Ég gerði hálfa venjulega múffuuppskrift og hún passaði í eitt 24 stykkja mínímúffin form. Þessi uppskrift er frá Nigellu og inniheldur banana og súkkulaði, en ég á líka eigin múffuuppskrift með banönum og höfrum en ég átti ekki hráefnin í hana.


    Míní-bananamúffur 24 stk
    1-1 1/2 gamall banani, stappaður
    1 egg
    1/2 dl olía
    50 gr sykur
    125 gr hveiti
    1/2 tsk lyftiduft
    1/4 tsk matarsódi
    50 gr súkkulaði
    Þeyta egg og sykur saman og bæta olíunni út í og síðan banananum. Hræra því svo út í hráefnin og blanda súkkulaðinu út í. Setja í formin og baka í 10-12 mínútur við 200°C. Svo er absólútlí nauðsynlegt að passa sig á að reka hendina ekki upp í ofninn þegar maður setur formið inn í ofninn. Formið mitt er mjúkt og úr silíkoni þannig að næst mun ég passa mig á að setja formið á grind og setja grindina svo í ofninn. Þrem dögum eftir baksturinn og ég er enn með brunaför á hendinni.

  7. Hummus er alveg eitt það besta sem ég veit um. Hann er hollur og bragðgóður og svo er bæði ódýrt og létt að búa hann til. Ég hef oft hent kjúklingabaunum í matvinnsluvél eða blandara og sett út í hitt og þetta til að prófa bragðefni.
    Í venjulegum hummus er sett tahini eða sesamsmjör, en ég nota það ekki í neitt annað þannig að ég hef ekki tímt og nennt að kaupa það, fyrir einhverja 1 teskeið í hummus. Ég hef vanalega bara sleppt því og punktur. En ég var farin að spá hvort það væri hægt að nota hnetusmjör þegar ég rakst á uppskrift í Nigella Kitchen að hnetusmjörshummus og ég hef notað það í staðinn fyrir tahini undanfarið. Hnetusmjörshummus er pínu öðruvísi á bragðið en venjulegur hummus en samt mjög góður. Ég nota minna hnetusmjör en Nigella, enda er hennar uppskrift meira hugsuð á borð með snakki og bjór eða einhverju svoleiðis, en ég nota hummusinn sem kvöldmat og nesti.
    Þessi uppskrift er mjög fljótleg, ef einhver boðar sig óvænt í mat, þá er nokkurnveginn hægt að  "elda" þetta á 10 mínútum.

    Hnetusmjörshummus fyrir 2-3
    1 dós kjúklingabaunir, hella vökvanum af og skola í köldu vatni
    2-3 msk ólífuolía
    1-2 msk hnetusmjör (byrja á einni og smakka til)
    1-2 msk sítrónusafi
    1 tsk maldon salt
    1 tsk mulið cummin (ekki kúmen)
    2-3 msk grísk jógúrt (eða sýrður rjómi eða ab mjólk eða hrein jógúrt)
    smá pipar ef vill
    Það má setja hálft hvítlauksrif en mér finnst það óþarfi.
    Henda öllu í matvinnsluvél eða blandara og hræra saman, það er allt í lagi þótt sumar kjúklingabaunirnar séu hálfsaxaðar, það kemur skemmtileg áferð ef hummusinn er grófur. Svo er bara að smakka hann til og bæta við jógúrt og olíu ef hann er of þykkur. Á Íslandi myndi ég kaupa létt-sósu með graslauk og bera fram með ásamt salati, papriku, gúrku og pítubrauði eða tortillapönnsum. Oft hita ég hummusinn á pönnu áður en ég set hann í brauðið, það kemur mjög vel út, svona þegar mann vantar að fá heitan kvöldmat. Hann þarf bara augnablik á pönnu til að hitna í gegn og það þarf að passa sig að hræra í honum svo hann brenni ekki í botninn. En ég myndi ekki gera það ef ég væri að undirbúa nesti.

    Ég gerði einu sinni líka svakalega góðan hummus með limesafa og limeberki rifnum út í, hann varð svo frískur og bragðgóður, en fólk verður auðvitað að fíla lime fyrir það. Sá hummus hentaði ekki sem máltíð, en passaði rosalega vel með tortillaflögum. Þetta minnti mig á uppáhalds Doritosið mitt sem er ekki lengur til, LimeDoritos.