Rss Feed
  1. Konukaffi og með því

    Sunday, February 24, 2013

    Ég fékk alveg extra langan konudag, nánast alveg konuhelgi því Sibbmundur bauð mér út að borða og í keilu á laugardagskvöld. Svo, þar sem ömmur okkar beggja voru í bænum buðum við þeim í kaffi á konudaginn ásamt mömmum okkar og endaði þetta í hinu ánægjulegasta konukaffi.

    Á mánudag verð ég svo með vinkonuhitting og ég vildi því samnýta baksturinn sem best án þess að þurfa að bera fram hálfétnar kökur. Ég bakaði því hindberja mínímúffur og svo paleo-væna súkkulaðikökubita.
    Ásamt því var ég með smásmákökur sem ég bakaði í gamni mínu úr möndluhrati og hrærði hitt og þetta saman við (möndluhveiti, banana, döðlur...). Þær voru ekkert svo sérstakar á bragðið, bara ágætar, þannig að ég smurði dökku súkkulaði yfir, og tataaah þær urðu mjög fínar! Ótrúlegt hvað smá súkkulaði getur bjargað öllu í heiminum. Svo var ég með kex og ost, te og kaffi.
    Baksturinn var mjög auðveldur en mér tókst nú samt að klúðra smá, því ég gleymdi eins og einu eggi... en það kom held ég ekki að sök. Súkkulaðikökubitarnir eru uppskrift úr Gestgjafanum og inniheldur döðlur, epla- og bananamauk, kaffi, kakó, egg, kókoshveiti, kókosolíu, matarsóda og salt. Ég skar þær niður í litla bita og skreytti með grófum kókos.

    Mínímúffurnar voru svo með hvítu súkkulaði og hindberjum, ásamt hvítum sykri, hveiti, smjöri, mjólk og umþaðbil öllu sem Paleo bannar. Ég fann þessa uppskrift einu sinni, ég breyti henni bara í mínímúffur og set eitt ber ofan í hvert form. Það sem mér finnast mínímúffur mikil dásemd. Mér finnst þetta alveg fullkomin stærð, venjulegar múffur eru oft svo brjálaðar að  fólk leifir meirihlutanum og það fer illa í mitt matarhjarta. Míní er málið. Svo eru bara um 60 kaloríur í hverri mínímúffu og það er nú ekki svo slæmt.

    Hindberjamínímúffur
    100 gr smjör-brætt
    300 gr hveiti
    100 gr sykur
    2 tsk lyftiduft
    2 egg
    2 dl mjólk
    u.þ.b. 48 hindber, frosin
    100 gr hvítt súkkulaði

    Hveiti, sykur og lyftiduft hrært saman í skál. Egg og mjólk hrærð saman í annarri skál og smjöri bætt út í. Eggjablöndunni hrært út í þurrefnin. Hvíta súkkulaðið saxað og hrært saman við. 48 pappírsform sett í mínímuffinmót, deigi skammtað þar á milli og einu frosnu hindberi stungið ofan í hvert form. Bakað við 200°C í 10-15 mínútur eða þar til toppurinn verður gylltur.

  2. 0 comments:

    Post a Comment