Rss Feed
  1. Kjúklingabaunir í hádegismat

    Thursday, November 29, 2012

    Kjúklingabaunasalat
    Það getur verið afskaplega þreytandi að finna hádegismat á hverjum degi í vinnunni. Það þarf helst að vera eitthvað hollt, saðsamt, ódýrt og fljótlegt. Ég er líka mjög gjörn á að festast í því sama dag eftir dag, brauð og meira brauð.
    Ég er mjög hrifin af kjúklingabaunum og fór að spá hvort það væri ekki hægt að gera einhvern góðan hádegismat úr þeim, annan en hummus borðaðan með brauði.
    Eftir smá grams á internetinu og í skápum og skúffum endaði ég á þessu salati sem ég var mjög ánægð með. Kjúklingabaunirnar ristaði ég á pönnu með kryddi og það var alveg ótrúlegt hvað þær urðu góðar. Ég borðaði alveg aðeins of margar beint af pönnunni, en ein dós ætti að duga í tvö salöt, ef helmingurinn fer ekki beint upp í munn.

    Kjúklingabaunasalat
    1 dós kjúklingabaunir
    ólívuolía
    salt og pipar
    malað cummin
    paprikuduft
    chilliduft eða cayenne pipar ef vill
    Ég hitaði olíu á pönnu og skellti baununum út í. Svo kryddaði ég baunirnar og smakkaði til, þar til þær voru orðnar mjög heitar og komið gott kryddbragð af þeim. Ég kældi þær svo niður til að kálið myndi ekki visna undan þeim.

    Salatið var einfalt, kál, paprika, gúrka, þurrkuð trönuber og fræblanda og svo kjúklingabaunirnar út á. Ég bætti svo fetaosti við í vinnunni og notaði ögn af fetaolíunni sem dressingu.

    Mjög einfalt og fljótlegt að gera, afskaplega handhægt fyrir nesti og hitinn af kryddinu gerir salatið svolítið vetrarlegt.

    Þar til næst,
    Ragnhildur

  2. Heitt heitt heitt súkkulaði

    Sunday, November 25, 2012

    Nú er akkúrat sá tími árs þar sem heitt súkkulaði er alveg nauðsynlegt til að kæta mann og hlýja. Það er svo dásamlegt að kúra sig niður í sófann að kvöldi til í kósýfötum með bolla af heitu súkkulaði og spjalla eða horfa á sjónvarpið og sömuleiðis að dreypa á heitu súkkulaði með ristabrauðinu á sunnudagsmorgni og lesa blöðin. Það er svosem alveg nóg að kaupa gott instant kakó og blanda í heitt vatn, ég keypti t.d. Galaxy kakómix í Iceland um daginn sem er mjög gott. En það jafnast auðvitað ekkert á við alvöru heitt súkkulaði, með góðu súkkulaði bræddu út í mjólk. 
    Ég er mjög hrifin af því að nota bragðbætt súkkulaði til að gera súkkulaðið svolítið svona extra jömmí. Ég geri gjarnan súkkulaði úr dökku piparmyntusúkkulaði eða dökku appelsínusúkkulaði. Stundum blanda ég saman bragðbættu súkkulaði við hreint suðusúkkulaði, það fer svolítið eftir hvort mig langi í mikið bragð eða bara smá vott. Svo má auðvitað nota smá kanil eða chilli fyrir súkkulaði með extra kicki, eða dropa af koníaki fyrir fullorðinskakó. Namm. Það samt kannski á síður við á morgnana.
    Svo hef ég fryst afgangs þeyttan rjóma í klakaformum og silíkonmótum. Þá á maður tilbúinn rjóma til að skella út í einn-tvo bolla af súkkulaði án fyrirvara. Alveg dásamlega handhægt, og svo skemmir heldur ekki fyrir að hafa fljótandi hjörtu í bollanum. 

    Þar til næst,
    Ragnhildur




  3. Ó-ráð

    Wednesday, November 21, 2012

    Hér er eitt gott ráð handa ykkur lesendur kærir. Ekki raspa niður súkkulaði í smáar flögur við hliðina á tölvunni eða öðrum verðmætum eins og ég gerði í kvöld. Um leið og ég lyfti brettinu upp af borðinu fauk súkkulaðið af brettinu og yfir tölvuna, sem var í gangi og orðin vel heit! Sem betur fer urðu engar stórskemmdir, h og v takkarnir hættu að virka í smá stund en til allrar lukku hefur súkkulaðið undir þeim bara bráðnað ofan í tölvuna núna.

    Alltaf lærir maður eitthvað nýtt,
    R

  4. Súkkulaðiást

    Tuesday, November 20, 2012

    Getur einhver giskað hvaða vöru ég nota í næsta Gestgjafaverkefni? Ég var að fá sendinguna til að nota í kynninguna á föstudaginn, takið eftir að það er strax búið að opna einn pakkann hihi....

    Ég var að fá nýju myndavélina mína í hendurnar, ég þarf að kynna mér stillingarnar á henni og læra að taka almennilegar matarmyndir og þá vonandi verður bloggið mitt ofurfagurt og myndskreytt!

    Ég geri allavega myndaprufur þegar ég fer að vinna með G&B súkkulaðið.

    Súkkulaðikveðja úr eldhúsinu
    R

  5. Bergsson og Borgarleikhúsið

    Saturday, November 17, 2012

    Ég átti svo yndislegt föstudagskvöld í gær með Unu systur og Ástríði vinkonu hennar. Við áttum miða á Gullregn í Borgarleikhúsinu en náðum okkur fyrst í mat á Bergsson Mathúsi og borðuðum heima. Við fengum okkur spínatlasanja staðarins og það var himeskt, það var svo gott. Bergsson er að verða einn af mínum allra uppáhaldsstöðum til að borða, maturinn er svo góður og hollur. Súrdeigsbrauðið þeirra líka, það er algjörlega to die for. Að sjálfsögðu hugsaði ég ekki út í að taka mynd af matnum fyrr en ég var búin með hann og búin að sleikja diskinn, svona nánast.

    Eftir matinn drifum við okkur svo í leikhúsið á Gullregn. Þessi sýning er svo frábær, ég mæli hiklaust með henni. Þetta verk er svona, samfélagsádeila í nútímanum og kemst alveg óþægilega nærri sannleikanum, en samt getur maður ekki annað en hlegið, nákvæmlega af sömu ástæðu. Halldóra Geirharðs leikkona leikur svo brálæðislega fyndinn karakter, ég hélt á stundum að ég myndi hreinlega pissa á mig úr hlátri. Svo er öll umgjörðin líka alveg upp á tíu. Leikmyndin er frábær, alveg niður í minnstu smáatriði og skiptingarnar á milli atriða er mjög flottar, en óvenjulegar fyrir leikhúsið.

    Þannig að ef ykkur langar í góða kvöldstund þá mæli ég með mat frá Bergsson og Gullregnssýningunni.

    Þangað til næst,
    R

  6. Vetur konungur og myrkrið er allsráðandi

    Thursday, November 15, 2012

    Chicken soup for the body and soul
    Stundum koma svona dagar eða vikur þar sem orkan hjá mér er gjörsamlega í núlli og þá hrúgast verkefnin auðvitað inn á sama tíma. Ég er búin að vera á þönum alla vikuna og hef ekki náð að elda neitt af viti, en samt langað svo mikið í heitan og góðan mat sem yljar kropp og sál og ekki síst vegna vetrarveðursins úti. Ég varð því brálæðislega æst af gleði á leiðinni heim í dag þegar ég mundi að ég átti einn skammt af kjúklingasúpu í frysti frá því um daginn.
    Ég eldaði hana í hádegismat á laugardegi fyrir nokkrum vikum þegar litli frændi minn var í heimsókn og veðrið var einmitt að gera okkur lífið leitt. Þá tók ég til í ísskápnum og setti slatta af þessu og dass af hinu en hún kom ljómandi vel út. Ég man í grófum dráttum hvaða hráefni ég notaði en svona súpur eru svo æðislegar því þær koma alltaf vel út. Þá bar ég hana fram með sýrðum rjóma, osti og nachos en í kvöld grillaði ég hálfa samloku með osti fyrir mig, en með osti, salsa og skinku fyrir betri helminginn. Svo átti ég rosalega gott jalapeno sour cream nachos sem ég keypti í Nóatúni, sem ég get mælt með, hvort sem er með súpu eða eintómt.

    nomnomnom
    Kjúklingasúpa í grófum dráttum
    olía
    1 laukur
    1 hvítlauksrif
    1 rautt chilli ef vill
    1 paprika
    3-4 gulrætur
    2 dósir tómatar (má nota passata eða tómatsafa með)
    væn skvetta chilli tómatsósa
    1-2 dósir vatn, eða eftir smekk
    1-2 teningar kjúklingakraftur
    salt og pipar
    cayenne pipar ef vill
    1 dós nýrnabaunir
    eldaður kjúklingur, ca 2 bringur eða 1/2 kjúklingur

    Skerið grænmetið í litla bita og steikið í olíu á miðlungshita í stórum potti í góða stund. Bætið tómötunum, tómatsósu, vatni og krafti út í og látið malla í að lágmarki 30 mínútur, en helst í að minnsta kosti 60 mínútur, eða þar til grænmetið er alveg eldað í gegn. Magnið af vökvanum fer svolítið eftir því hvað þið viljið sjálf hafa súpuna þykka og mikla. Þið getið byrjað á einni dós af tómötum og bætt hinni við seinna ef ykkur finnst þurfa. Takið af hitanum og maukið með töfrasprota eða blandara ef vill. Setjið aftur á hita, kryddið með salti og pipar. Skerið kjúklinginn niður og bætið út í ásamt nýrnabaununum og hitið í gegn.
    Svo mæli ég með því að frysta afganginn í litlum boxum fyrir langa daga eins og í dag. Það getur alveg bjargað manni.

    Það eina við að vera lítið heimili með stóran súpupott er að mann langar kannski ekki í sömu súpuna fjórum sinnum í matinn, þótt ég eigi reyndar yfirleitt auðvelt með það. En ég var að spá hvort maður gæti ekki komið á fót einhvers konar súpu-skiptimarkaði í fjölskyldu- og vinahópnum? Eldað stóran skammt af súpu og sett í lítersbox og skipt á súpum við aðra! Þá ætti maður kjötsúpu, mexíkóska súpu, þykka grænmetissúpu, thaílenska súpu og gulrótarsúpu eða eitthvað álíka til í frystinum. Kannski er ég bara þreytt, en mér finnst þetta bráðskemmtileg hugmynd. Got soup?

    Þar til næst,
    Ragnhildur

  7. Full helgi matar

    Tuesday, November 13, 2012

    Ég er enn að jafna mig á öllum frábæra matnum sem ég borðaði um helgina. Ég fór á þrjá veitingastaði og í tvær veislur og það er því ekki skrýtið! En helgin var æðisleg í alla staði enda var var ég í góðum félagsskap. Þessi ofur-matarhelgi byrjaði eiginlega á fimmtudaginn með matarboðinu. Á föstudaginn fór ég svo á Bergsson Mathús í hádegismat, fékk dásemdar Thai súpu og súrdeigsbrauð að sjálfsögðu. Ég mæli svo sannarlega með Bergsson, maturinn þar er svo hollur og góður.
    Um kvöldið fór ég svo með vinnunni á Austur-Indía fjelagið og pöntuðum við öll Hátíð Ljóssins matseðilinn. Maturinn var himneskur, fimm réttir sem voru hver öðrum betri, og lambið með myntusósunni. Namm. Ekki skemmdi rauðvínið fyrir matnum heldur.
    Á laugardaginn var svo mjög fjörugt og skemmtilegt tvöfalt barnaafmæli í hádeginu með yndislegum veitingum, súpu, brauði, kökum og öllu tilheyrandi og matarboð um kvöldið með geðveikt góðri vetrarsúpu og alls kyns meðlæti.
    Sunnudagsmorguninn hófst svo á brunch á Nítjándu! Ég var ekkert að grínast, þessi helgi var löðrandi í mat. Enda lá ég afvelta í sófanum restina af sunnudeginum á meltunni og þegar það var kominn tími á kvöldmat... þá var ekki séns að slaka eitthvað á í kröfunum, brauð með bökuðum baunum og osti! ha ha.

    En þessi helgi varð líka til þess að ég náði ekkert að elda eða baka sjálf. En ég hlýt nú að bæta úr því innan bráðar. Ég ætla líka að fara og kaupa mér myndavél enda löngu kominn tími til, það er svo ótrúlega leiðinlegt að setja inn ljótar myndir á matarblogg.
    Þar til næst,
    R

  8. Ítölsk hrefna og dásamlegt salat

    Thursday, November 8, 2012

    Ég ligg upp í sófa með fartölvuna í fanginu, gjörsamlega uppgefin eftir að hafa eldað og vaskað upp fyrir þriggja rétta, sex manna matarboð í kvöld. En það var vel þess virði fyrir ljúfa kvöldstund og góðan mat. Ég keypti hrefnuhakk í Iceland í einhverju gríni í haust og henti í frystinn en vissi ekkert hvað ég ætti að elda úr því. En ég ákvað loks að prófa það í rétt og gera ítalskar kjötbollur. En þar sem ég var í þessari tilraunastarfsemi þorði ég ekki annað en að hafa forrétt líka, svona svo að ef bollurnar væru lýsislegnar og óætar, að fólk hefði eitthvað ofan í sig.
    Forrétturinn var salat með ofnbökuðum rauðrófum, geitaosti og pekanhnetum, ég fann uppskrift sem ég hafði til hliðsjónar á Skinnytaste, sem er ein af mínum uppáhalds matarbloggum. Salatið heppnaðist svo vel, ég hefði getað borðað mér til óbóta af því.
    Hrefnuhakkbollurnar voru svo í aðalrétt, ásamt tagliatelle og einfaldri tómata-sósu, smá útúrsnúningur frá kjötbollum frá Nönnu, og í eftirrétt var ostakaka sem ég átti í frysti frá því ég var að baka fyrir Gestgjafann seinast, Twix og m&m ostakaka og ég sá einmitt í Hagkaup áðan að blaðið er komið í verslanir. Þetta hljómar kannski krakkalega, en ég er mjög ánægð með hvernig ostakakan kom út og auðvitað má sleppa m&minu og þá er hún meira elegant. Ég set kannski uppskriftina af henni inn seinna, en hún er í Kökublaði Gestgjafans fyrir þá sem vilja kíkja. 

    Salat með rauðrófum, geitaosti og pekan
    1/2 rauðrófa
    Gott blandað salat, helst íslenskt, eitt búnt/poki/kassi
    75 g pekan hnetur
    100 g geitaostur
    2 msk ólívuolía
    2 msk balsam edik
    1 msk hunang
    auka olía, salt og pipar

    Hitið ofn í 200°C. Takið hálfa rauðrófu, afhýðið hana og skerið í teninga. Setjið rauðrófuna í eldfast mót, dreypið olíu yfir og saltið og piprið. Bakið í ofni í 50-60 mínútur. Kælið í um hálftíma. Ristið hneturnar á pönnu. Setjið olíu, balsam og hunang í litla krukku og hristið saman, hellið yfir salatblöðin og veltið vel saman með höndunum í skál. Skiptið salatinu á diska eða setjið á fallegt fat. Dreifið rauðrófunum yfir ásamt pekanhnetunum og klípið geitaostinn í litla bita yfir. Saltið ögn og piprið. 

    Ítölsk hrefna
    (er hvalur ekki daglegt brauð á Ítalíu?)
    1/2 laukur
    1 hvítlauksrif
    2-3 ristaðar brauðsneiðar
    1 egg
    salt
    pipar
    börkur af 1/2-1 sítrónu
    2-3 msk rautt pestó
    600 g hrefnuhakk

    Skellið lauk, hvítlauk og brauði í matvinnsluvél og saxið. Bætið eggi, salti, pipar, sítrónuberki og pestó út í og blandið vel saman. Hrærið út í hrefnuhakkið í skál og blandið vel saman. Gerið kjötbollur úr deiginu, það er fínt að nota mæli-matskeið til að fá þær jafnar og passlega stórar. Setjið í eldfast mót og bakið í 18-20 mínútur. Gerið sósuna á meðan. 

    Sósa
    1 krukka tómat Passata
    1 tsk ítölsk kryddblanda
    1 tsk óreganó
    2 msk rautt pestó
    salt og pipar
    Setjið öll hráefnin í stóra pönnu og hitið rólega á lágum hita. Smakkið til. Bætið kjötbollunum svo út í sósuna og berið þannig fram. 

    Berið fram með 350 g af tagliatelle sem er soðið skv. leiðbeiningum á pakka. 

    Bon Appetit. 


  9. Morgunverður fyrir B-manneskjuna

    Sunday, November 4, 2012

    Ég tilheyri hinum alræmda hópi B-manneskja. Ég fer seint á fætur, þýt um íbúðina í leit að því sem ég þarf að taka með mér og hleyp út 10 mínútum of seint og alltaf án þess að fá mér morgunverð. Svo var það í haust að ég rakst á uppskrift að hafragraut sem er búinn til kvöldið áður og bíður tilbúinn í ísskápnum um morguninn. Síðan þá hefur þetta verið morgunmaturinn okkar beggja á heimilinu. Þessi hafragrautur er súper-einfaldur og fljótlegur, það þarf ekki að elda neitt og hann er svo bragðgóður að það er hálfótrúlegt að öll hráefnin séu svona holl fyrir mann.

    Einn af fyrstu grautunum sem ég gerði, með AB mjólk, höfrum, chia, banönum og jarðarberjum

    Næturhafrar:
    1/4 bolli grófir hafrar (30 grömm)
    1 tsk Chia fræ
    1/4 bolli létt AB mjólk
    1/4 bolli léttmjólk
    1/4 bolli bananar, skornir í bita
    u.þ.b. 7 frosin hindber
    vanilla og/eða kanill
    hunang ef vill

    Hráefnin fara öll í krukku, loki smellt á og allt hrist vel saman (ég set vanillu í minn skammt og Sigurgeir fær hunang og kanil). Skellið svo krukkunni inn í ísskáp yfir nótt. Takið hana út um morguninn aðeins áður en það á að borða grautinn, til að ná mesta kulinu af. Ég tek minn alltaf með mér og borða í vinnunni. Mér finnst líka bráðfyndið að labba um með hafragraut í veskinu.
    Mér finnst svo krúttulegt að setja grautinn í glerkrukku, en auðvitað dugar hvaða ílát sem er, svo lengi sem það er lok á því. Samanhristur grauturinn er svo sem ekki mikið fyrir augað, en bragðgóður er hann!

    Ég hef prófað að hafa bara AB mjólk og bara venjulega mjólk, en mér finnst grauturinn verða mátulega þykkur þegar ég blanda saman til helminga. Svo er líka mjög gott að hafa fersk jarðarber í stað hindberja.  Ég hef líka prófað frosin bláber og brómber, en er hrifnari af rauðu berjunum.