Rss Feed
  1. Konukaffi og með því

    Sunday, February 24, 2013

    Ég fékk alveg extra langan konudag, nánast alveg konuhelgi því Sibbmundur bauð mér út að borða og í keilu á laugardagskvöld. Svo, þar sem ömmur okkar beggja voru í bænum buðum við þeim í kaffi á konudaginn ásamt mömmum okkar og endaði þetta í hinu ánægjulegasta konukaffi.

    Á mánudag verð ég svo með vinkonuhitting og ég vildi því samnýta baksturinn sem best án þess að þurfa að bera fram hálfétnar kökur. Ég bakaði því hindberja mínímúffur og svo paleo-væna súkkulaðikökubita.
    Ásamt því var ég með smásmákökur sem ég bakaði í gamni mínu úr möndluhrati og hrærði hitt og þetta saman við (möndluhveiti, banana, döðlur...). Þær voru ekkert svo sérstakar á bragðið, bara ágætar, þannig að ég smurði dökku súkkulaði yfir, og tataaah þær urðu mjög fínar! Ótrúlegt hvað smá súkkulaði getur bjargað öllu í heiminum. Svo var ég með kex og ost, te og kaffi.
    Baksturinn var mjög auðveldur en mér tókst nú samt að klúðra smá, því ég gleymdi eins og einu eggi... en það kom held ég ekki að sök. Súkkulaðikökubitarnir eru uppskrift úr Gestgjafanum og inniheldur döðlur, epla- og bananamauk, kaffi, kakó, egg, kókoshveiti, kókosolíu, matarsóda og salt. Ég skar þær niður í litla bita og skreytti með grófum kókos.

    Mínímúffurnar voru svo með hvítu súkkulaði og hindberjum, ásamt hvítum sykri, hveiti, smjöri, mjólk og umþaðbil öllu sem Paleo bannar. Ég fann þessa uppskrift einu sinni, ég breyti henni bara í mínímúffur og set eitt ber ofan í hvert form. Það sem mér finnast mínímúffur mikil dásemd. Mér finnst þetta alveg fullkomin stærð, venjulegar múffur eru oft svo brjálaðar að  fólk leifir meirihlutanum og það fer illa í mitt matarhjarta. Míní er málið. Svo eru bara um 60 kaloríur í hverri mínímúffu og það er nú ekki svo slæmt.

    Hindberjamínímúffur
    100 gr smjör-brætt
    300 gr hveiti
    100 gr sykur
    2 tsk lyftiduft
    2 egg
    2 dl mjólk
    u.þ.b. 48 hindber, frosin
    100 gr hvítt súkkulaði

    Hveiti, sykur og lyftiduft hrært saman í skál. Egg og mjólk hrærð saman í annarri skál og smjöri bætt út í. Eggjablöndunni hrært út í þurrefnin. Hvíta súkkulaðið saxað og hrært saman við. 48 pappírsform sett í mínímuffinmót, deigi skammtað þar á milli og einu frosnu hindberi stungið ofan í hvert form. Bakað við 200°C í 10-15 mínútur eða þar til toppurinn verður gylltur.

  2. Möndlumjólk og krukkuhafragrautur

    Thursday, February 21, 2013

    Ég gerði nýjan skammt af möndlumjólk í gær. Ég var komin með smá nóg af kókosmjólk, í öllu. Möndlumjólkin sem ég gerði í gær var síðan sú allra besta sem ég hef gert. Ég notaði fleiri döðlur og hreina vanillu (ekki dropa) sem ég var að splæsa í handa sjálfri mér.
    Það er mjög létt að gera möndlumjólk. Maður leggur desilíter eða bolla af möndlum í vatn í 12-24 tíma (ég læt desilíter duga, mjólkin klárast ekki það hratt hjá mér). Svo er vatninu hellt af möndlunum og þær maukaðar í blandara ásamt 3-4 desilítrum (eða bollum) af vatni og 3-5 döðlum sem hafa legið í bleyti í 20 mínútur. Svo bragðbætti ég hana með hnífsoddi af vanillu og agnarögn af salti. Ég hellti maukinu í gegn um sigti og síðan aftur í gegnum (hreinan og ónotaðan) nælonsokk. Þá mjólkar maður vökvann í gegn, mjög skemmtilegt verk.  Svo fór hún í glerflösku og inn í ísskáp.

    En ég held áfram að prófa bannflokkana eftir Whole30 og í gær/dag var glúteinlaust kornmeti prufa. Ég notaði því möndlumjólkina og bjó mér til krukkuhafra eins og ég borðaði svo mikið af í haust. Ég var búin að sakna þess að fá mér krukku með hafragumsi í morgunmat svo ég var mjög glöð í morgun. Í stað AB mjólkur og mjólkur notaði ég möndlumjólkina og setti hafra, chia fræ, banana og frosin hindber út í. Allt hrist saman í krukku og geymt í ísskáp yfir nótt.
    Glúteinlausa kornmetisprufan fór reyndar í smá rugl hjá mér því mér bauðst óvænt að fara á sushinámskeið í gær. Ég greip að sjálfsögðu tækifærið og það var mjög skemmtilegt, en þá borðaði ég sushi með hrísgrjónum og soyasósu sem tilheyra sitt hvorum bannflokknum. En svona er þetta bara, og ég reyni svo að halda áfram næstu daga á hreinu og beinu brautinni.



  3. Mínímalískar pönnukökur

    Sunday, February 17, 2013

    Haltu á ketti hvað ísinn í gær var góður!!! Svona svo ég hrósi sjálfri mér svolítið mikið, vóts hvað mér fannst hann sjúklega góður. Hluti af því er ábyggilega sú staðreynd að ég var ekki búin að borða ís eða súkkulaði í rúman mánuð... en ég sleikti skálina nánast mér fannst hann svo góður. Una systir sagði að hún hefði viljað meiri sykur/döðlur í hann en við erum ekki með sömu sykurpallettuna og fólk getur auðvitað still sykurmagnið eftir behag. Mér fannst hann alveg akkúrat passlega sætur án þess að vera of, og dökkt súkkulaðibragðið naut sín. Næst prófa ég að gera hann úr kókosmjólk til að gera hann paleovænni.

    Ég bjó til sunnudagsmorgunverð í morgun, einfaldar bananapönnsur með jarðarberjum og smá grískri jógúrt (þessi mjólkurdagur minn teygðist aðeins yfir í mjólkurhelgi, en bara fram að hádegi). Ég hafði heyrt af þessum "tveggja hráefna" pönnsum áður en hafði nákvæmlega enga trú á því að þær væru bragðgóðar. En ég hef gert þær tvisvar sinnum núna og þær koma ótrúlega vel út Alls ekki yfirþyrmandi eggjabragð eða áferð.

    Bananapönnsur
    Grunnurinn í þessum pönnsum er 1 þroskaður banani og tvö egg. Það þarf ekkert annað! Ég stappaði banana og skellti í könnu með tveimur eggjum og þeytti saman með töfrasprota. Svo bræddi ég rúma teskeið af kókosolíu á pönnukökupönnu og hellti út í ásamt kanilklípu og saltkorni. Ég steikti svo litlar lummur á tæpum miðlungshita úr deiginu og borðaði með niðurskornum ferskum jarðarberjum ásamt grískri jógúrt með döðlumauksskvettu í. Ég borðaði ekki allar pönnsurnar ein, en alveg vel rúman meirihluta. Ótrúlega góður sunnudagsmorgunmatur og skemmtilega hollur!


  4. Döðlu- og súkkulaði ís

    Saturday, February 16, 2013

    Súkkulaðiís með döðlum í stað sykurs
    Nú er ég búin með Whole30 prógrammið. Það gekk mjög vel, ég svindlaði ekkert og borðaði kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, hnetur og fræ í 30 daga. Ég missti 4.5 kíló og sef betur, vakna auðveldar og finn ekki fyrir brjáluðum sykur-craving-köstum. Ásamt þessu hef ég verið að lesa bóka sem fylgir prógramminu, It starts with food og samkvæmt henni á ég að bæta inn bannflokkunum í mataræðið, einum í einu til að sjá hvort líkaminn bregðist illa við þeim. Ég stefni samt á að fylgja Paleo mataræðinu áfram, en það er fínt að vita hvort eitthvað fer verr í mig en annað.
    Í dag er mjólkurvörudagur og samkvæmt prógramminu á ég að borða jógúrt, ost og ís í eftirrétt. Það finnst mér nú alls ekki slæmt!! Ég fékk mér því gríska jógúrt með jarðarberjum og bananabitum í morgunmat, í kvöld verður kjúklingur með spínati og mozzarella og heimatilbúinn ís í eftirrétt.
    Ég er svo ánægð með að hafa tekið allan sykur út úr mataræðinu mínu svo ég var í smá klípu með ísinn. Mig langaði ekki að kaupa búðarís stútfullan af sykri og vildi heldur ekki nota gervisykur þannig að ég lagði höfuðið í bleyti og viti menn, ég fékk hugmynd. Mér datt í hug að nota döðlumauk í stað sykurs og las mér aðeins til á netinu og það er víst fullt af fólki í heiminum sem gerir þetta. Auðvitað er sykur í döðlum, en hann er þó allavega enn í sínu náttúrulega formi, ekki unninn og samanpressaður. Svo keypti ég dökkt lífrænt ræktað 70% súkkulaði til að bragðbæta ísinn og notaði bara 50 grömm í skammtinn.
    Við verðum fjögur sem borðum saman í kvöld þannig að það er ekki hætta á að ég borði allan ísinn ein heldur. En hér kemur uppskriftin, ísinn er í frysti núna svo ég get ekki sagt til um lokaútkomu en bragðið af honum ófrystum var allavega mjög gott og ég hlakka mikið til að smakka hann í kvöld:

    egg og döðlumauk
    Döðlu- og súkkulaðiís
    3 eggjarauður
    65 g döðlumauk*
    1 tsk vanilludropar
    u.þ.b. 50gr 70% súkkulaði (ég notaði 4 lengjur af G&B súkkulaði)
    250 ml rjómi

    Þeyttu eggjarauðurnar með döðlumauki og vanillu (ég notaði töfrasprotann, til að döðlumaukið myndi örugglega tætast í algjörar öreindir því ég nennti ekki að sigta döðlutætlur úr). Bræddu helminginn af súkkulaðinu og hrærðu út í eggjablönduna. Þeyttu rjómann í annarri skál og hrærðu eggjablönduna varlega út í. Saxaðu hinn helminginn af súkkulaðinu smátt og hrærðu út í ísblönduna. Helltu í box og frystu.



    *Döðlumauk
    60 gr döðlur
    1/4 b sjóðandi vatn
    Saxaðu möndlurnar niður í bita eða sneiðar og leggðu í skál eða krukku. Helltu sjóðandi vatni yfir og láttu döðlurnar mýkjast í því í 20-30 mínútur. Maukaðu með töfrasprota.

    Ef þessi ís heppnast jafn vel og ég held hann muni gera, þá mun ég jafnvel prófa seinna að gera hann alveg Paleo og nota dós af kókosmjólk í stað rjómans. Það var eitthvað eftir af döðlumaukinu, ég þarf að finna eitthvað gáfulegt til að nota það, en í versta falli er teskeið af því örugglega góð með grískri jógúrt.

  5. Afmælisbaka

    Sunday, February 10, 2013

     Ég bjó til eggjaböku fyrir barnaafmæli hjá systur minni í dag. Hún heppnaðist mjög vel og hvarf fljótt á veisluborðinu. Ég var búin að skoða einhverjar uppskriftir sem viðmið og henti svo saman í þessa. Mjög góð og hentug í boð. Hún er Paleo, en auðvitað virkar svona baka fyrir alla.

    Eggjabaka
    200 gr beikonkurl
    1/2 laukur
    2 hvítlauksrif
    1/2 pakki sveppir
    120 gr frosið spínat
    8 egg
    1/4 bolli kókosmjólk
    1 tsk óreganó
    1 tsk timjan
    1 tsk vínsteinslyftiduft
    salt og pipar
    12 kirsuberjatómatar

    Hita ofn í 200°C. Ég steikti beikon á pönnu og setti svo til hliðar. Skar lauk, sveppi og hvítlauk niður og steikti í beikonfitunni og setti svo með beikoninu til hliðar og kældi. Afþýddi spínatið og kreisti vökvann úr. Skar það niður.  Hrærði eggin, kókosmjólkina og kryddið saman. Smurði eldfast mót með olíu og dreifði beikonblöndunni í botninn. Svo dreifði ég spínatinu yfir og hellti svo eggjablöndunni yfir. Ég skar tómatana í helminga og raðaði ofan á og bakaði svo bökuna í ofni í um 30-35 mínútur.







  6. mjólk í kaffið ó já

    Saturday, February 9, 2013

    Bara svo það sé á hreinu, þá eru þetta loftbólur, ekki kekkir :)
    Ég datt niður á uppskrift á netinu að "kaffirjóma" án mjólkur í kaffið, Paleostyle. Ég er búin að drekka kaffi með kókosmjólk út í hingað til og það er bara ekki alveg nógu gott. Það kemur svo mikið yfirþyrmandi kókosbragð og stundum bætist jafnvel eitthvað rammt bragð við. En þessi uppskrift gerir léttan og froðukenndan kaffirjóma með kókoskeim, en ekki of miklum. Ég hermdi alveg eftir og útkoman var svona líka ljómandi. Ég hlakka til að mæta í vinnuna á mánudaginn og geta drekkt mér í kaffi!

    Kaffirjómi
    1 dós kókosmjólk
    1 egg
    2 msk kókosolía
    nokkrir dropar vanilla

    Öllu skellt í blandara og þeytt vel saman. Nokkrar teskeiðar í rjúkandi kaffibolla og restin í box eða krukku og inn í ísskáp. Svo má örugglega nota þetta líka eins og skeið af þeyttum rjóma ofan á ávexti. 



  7. Fimmtudagsfiskur

    Thursday, February 7, 2013

    Ég fattaði allt í einu að það eru alveg vikur síðan ég borðaði seinast fisk! Ekki gott hjá manneskju sem er að vanda sig við að borða hollan og fjölbreyttan mat. Í matinn var ég með mjög fljótlegan og góðan fisk sem tók enga stund að elda og enga stund að borða.

    Pestó þorskur með grænmeti
    Þorskur fyrir 2-3
    Paleo pesto sjá hér
    2-3 tómatar
    olía/smjör
    1 hvítlauksrif
    1/2 paprika
    1/3 kúrbítur
    sveppir

    Hita ofn á 200°C. Ég setti þorskinn í eldfast mót, saltaði og pipraði og smurði svo vel af heimalöguðu pestói yfir. Skar tómata í sneiðar og raðaði yfir. Setti í ofn í 15-20 mínútur. Svo skar ég grænmetið niður og steikti á pönnu í smá smjöri og hvítlauk. Með þessu bar ég fram einfalt salat með káli, papriku, gúrku, jarðarberjum og olíu og balsam. Ég var líka með niðursneitt grænmeti ásamt hummus sem snarl. Einfalt og gott, máltíð á innan við hálftíma.

  8. Paleo-hráfæðis hummus

    Tuesday, February 5, 2013

    Ég fæ alltaf fréttabréf frá Sollu á Gló í tölvupósti. Í þessari viku sendi hún uppskrift að hráfæðis "hummus" þar sem kúrbítur og kasjúhnetur koma í stað kjúklingabauna. Ég ákvað að henda í einn skammt til að prófa, en ég hafði svosem ekki miklar vonir um bragðið enda finnst mér alvöru kjúklingabaunahummus innilega virkilega sjúklega gott. En haltu á ketti hvað þessi uppskrift kom skemmtilega á óvart!! Ég held það væri auðveldlega hægt að plata fólk með þessari dýfu. Áferðin og bragðið eru alveg spot on. Ég fór aðeins of frjálslega með sítrónusafann og ætla að passa mig aðeins á honum næst, bæði bragðsins vegna og þykktarinnar en ég get svo sannarlega mælt með þessar dýfu með skornu grænmeti í millimál og snarl.

    Núna ætla ég að elda smá butternutsquash súpu til að taka með mér í matarboð á morgun. Ég veit það hljómar pínu klikk, en það verður saltkjöt og baunir í matinn í afmælinu hans pabba á morgun og mér datt í hug að elda appelsínugula súpu til að borða ásamt smá saltkjöti, þá er ég næstum eins og hinir. Ég skipti bara út rjómanum í uppskriftinni fyrir kókosmjólk og vona að hún verði ágæt.

    Í kvöld gerði ég mjög léttan "einnar pönnu" kvöldverð. Ég keypti svínakjöt í búðinni, því miður voru svínakótilettur ekki til svo ég keypti snitzel, en ég mæli með svínakótilettum. Kryddaði með salti og pipar og smurði smá Dijon sinnepi yfir líka sem ég hræði með ögn af olíu og þurrkuðu timjani. Steikti svo báðu megin á pönnu í hreinsuðu smjöri. Þegar ég var búin að snúa kjötinu og steikja það ögn bætti ég 5 niðursneiddum sveppum á pönnuna og setti lok yfir. Þetta mallaði í smá stund þannig að það myndaðist soð á pönnunni með sveppunum. Borðaði þetta svo með salati. Fínasti kvöldverður sem tók um 10 mínútur að elda.

  9. paleo pestó og fleira

    Sunday, February 3, 2013

    Ég nýtti sunnudaginn aðeins í undirbúning fyrir matseld vikunnar. Ísskápurinn var orðinn tómlegur svo ég skellti mér í Iceland og verslaði inn grænmeti, ávexti, fræ, kókosmjöl og kjöt. Svo bjó ég til paleo-vænt pestó sem ég ætla að nota á fisk í vikunni, "hreinsað" smjör samkvæmt paleo staðli (og notaði þessa lýsingu sem stuðning) og nýjan skammt af kókossmjöri (sjá hér). Ég er alveg sjúk í kókossmjör, fæ mér teskeið af því með döðlu á kvöldin þegar mig vantar eitthvað sætt.

    Paleo pestó
    1 pakki basil
    væn lúka klettakál
    2-3 msk furuhnetur
    salt og pipar
    ólífuolía
    ögn sítrónusafi
    Ég skellti öllu í blandara og maukaði vel saman, smakkaði til með salti, pipar og sítrónusafa. Heimagert pestó ætti að duga í svona viku í ísskápnum og svo má líka frysta það í klakaboxi.

    Samkvæmt internetinu á að vera fínt að nota kókossmjör í stað smjörs, til að bragðbæta kaffi, sjeika og fleira. Ég hinsvegar stelst bara í það til að fullnægja nammiþörfinni.

    Hreinsaða smjörið er svo notað eins og smjör, til að steikja og út í sætukartöflumús og þess háttar. Mér finnst það muna mjög miklu að geta notað smjör, kókosolía og ólífuolía eru bara ekki það sama.



  10. Ég gerði Paleo útgáfu af kvöldverði sem við borðum mjög reglulega. Kjúklingabringur, kartöflumús og sveppasósa. Það er í miklu uppáhaldi hjá okkur báðum og algjör kósý-comfort matur.  Ég þurfti bara aðeins að útfæra matinn til að gera hann paleovænan og heppnaðist hann mjög vel. Ég er farin að elda meira af heilum kjúkling, það er einfalt og þá verður kjöt afgangs fyrir salat daginn eftir og ég get notað beinin í kjúklingasoð. 

    Kjúklingurinn
    1 heill kjúklingur
    1/2 sítróna
    3-4 hvítlauksrif
    rósmarín
    salt og pipar
    Setti kjúkling í eldfast mót, marði hvítlaukinn og stakk honum inn í holið ásamt sítrónunni í bitum. Kryddaði kjúklinginn með salti, pipar og rósmarín. Skellti honum í 220°C heitan ofn og eldaði í klukkutíma.

    Kartöflumús
    1 nett sæt kartafla
    1/3 butternut grasker
    salt og pipar
    smjör/kókosolía eða önnur olía
    Afhýddi og bitaði niður sætu kartöfluna og graskerið. Sauð í potti með vatni þar til grænmetið var orðið mjúkt. Hellti vatninu af, stappaði í mús og kryddaði með salti og pipar. Setti smá kókosolíu út í líka, en fannst bragðið af henni ögn yfirþyrmandi.

    Sveppasósa
    kókosolía/smjör eða önnur olía
    1/2 pakki sveppir
    1/4 laukur
    1/4 paprika
    1 lítil dós kókosmjólk
    Bræddi kókosolíu á pönnu og mýkti laukinn í henni. Sneiddi niður sveppi og bætti út í ásamt smá niðursaxaðri papriku. Lét grænmetið malla á pönnunni í smá stund og hellti svo kókosmjólkinni yfir og lét þetta sjóða niður í dágóða stund. Kryddaði með smá salti og pipar.
    Ég bar matinn svo fram með soðnu brokkolíi.