Rss Feed
  1. Humarpasta

    Monday, December 10, 2012

    Helgin kom og fór á ótrúlegum hraða að vanda. Það var víst annar í aðventu í gær og jólaundirbúningurinn smá mjakast hjá mér. Ég er samt alltaf miklu duglegri að hugsa um hvað það væri skemmtilegt að framkvæma hitt og þetta í aðventunni en að bretta upp ermar og axjúallí gera hlutina. Það eru þó allavega komnar seríur í alla glugga og ég bakaði eina sort í gær, auk þess sem ég eyddi mestum hluta laugardags í Smáralind. Keypti reyndar bara pakka handa sjálfri mér, en það er þá allavega frá!
    En ég er barasta frekar ánægð með hvað ég gerði margt í eldhúsinu um helgina, ég bjó til ljúffengt humarpasta á laugardagskvöld, æðislegar bananavöfflur í árbít á sunnudag og bakaði smákökur a la mamma. Svo gerði ég nokkrar prufur að jólapakkadótaríi sem ég get ekki sagt frá strax. Hæ fjölskylda!

    Mér fannst svo ofboðslega kósý hjá okkur Sibbmündi á deitkvöldinu í seinustu viku þegar við borðuðum hreindýr að ég ákvað að hafa aftur svona kósý laugardag. Við eigum alls kyns góðgæti í frysti, humar og nautasteik og fleira, sem við erum ekki nógu dugleg að elda úr, ég er alltaf að bíða eftir einhverju spes tækifæri. En það er argasti kjánaskapur, auðvitað á maður bara að halda upp á hversdaginn líka, carpe diem og allt það. Ég skoðaði einhverjar uppskriftir á netinu að humarpasta, en þar var laukur, sellerí og fleira grænmeti sem mér finnst alls ekki passa með humri, svo ég ákvað bara að láta tilfinninguna ráða hendi. Útkoman var rosalega gott, rich humarpasta með hvítlauks-rjómasósu. Namm. Þetta er það sem ég gerði:

    Humarpasta fyrir tvo
    9 vænir humarhalar (magn eftir stærð og matarlyst)
    2-3 hvítlauksrif
    smjör
    sítrónusafi
    sítrónubörkur
    steinselja
    hvítvín
    rjómi (ég notaði venjulegan, en myndi mæla með matreiðslurjóma)
    salt og pipar
    140 g Tagliatelle pasta
    Ég sauð pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Humarinn var í skelinni svo ég skelfletti og hreinsaði hann. Svo setti ég smjör á pönnu ásamt rifnum hvítlauk og þegar það var orðið heitt skellti ég humrinum út í og bætti svo safa úr hálfri sítrónu út í. Þegar humarinn var rétt svo eldaður í gegn tók ég hann upp úr og lagði til hliðar og hellti u.þ.b. 1/2-1 dl af hvítvíni út í og lét vínið aðeins sjóða úr, ásamt rifnum berki af eins og fjórðungi af sítrónu. Svo bætti ég rjómaskvettu út í og hitaði vel. Ég saxaði steinselju og bætti út í sósuna og tók smá af pastavatninu og bætti saman út, svo sósan myndi loða vel við pastað. Svo fór pastað sjálft og humarinn ofan í og ég hrærði þetta vel saman.

    Ég bar þetta fram með steinbökuðu baguette brauði sem ég fann í Bónus, og það var mjög gott. Ég ætlaði að láta sósuna vera nægilega mikla til að geta dýft brauðinu ofan í, en hún var það þykk að það gekk eiginlega ekki upp. Ég setti því ögn af smjöri og sítrónusafa í pott með hvítlauksrifi og bræddi saman til að geta dýft brauðinu í. Himneskt. Eina krítíkin sem ég hef á réttinn eins og ég gerði hann var að ég var aðeins of rausnarleg á rjómaskvettuna, næst myndi ég passa betur upp á skvettumagnið (nýtt orð) og helst nota matreiðslurjóma. En mikið var þetta gott. Í eftirrétt/kvöldsnarl voru svo jólamandarínur, enda hefur maður enga lyst á einhverju öðru gúmmelaði á eftir þessu.

    Ég held ég láti svo sunnudagsbaksturinn í annað blogg. 

    Þangað til næst,
    Ragnhildur




  2. kósý kvöld með stæl

    Monday, December 3, 2012

     Við fengum óvænt gefins hreindýrasteik á föstudaginn og ákváðum að gera okkur glaðan dag á laugardagskvöld með steik og fíneríi. Það veitti ekki af því við erum bæði búin að vera á fullu í alls kyns verkefnum og vinnu og höfum undanfarið lifað á tilbúnum eða súper fljótlegum og einhæfum mat. Við reyndum þó að gera máltíðina frekar einfalda (lesist, sem minnst uppvask) en þetta endaði samt í mjög góðri og sparilegri máltíð. Ég vildi að við værum miklu duglegri að taka okkur til og hafa fínt fyrir okkur tvö, það er svo skemmtilegt.

    Steikin var frosin á föstudag og ég lét hana standa í skál í ísskáp yfir nótt og lét hana svo standa á borðinu í góðan tíma á laugardaginn með smá ólívuolíu, salti og pipar. Svo tók ég saman alls kyns grænmeti; kartöflur, sæta kartöflu, rófu, gulrætur og grasker (butternut squash) sem ég skar niður í teninga og setti í fat með smá vatni, olíu, salti, pipar og þurrkuðu timjani og inn í 200°C heitan ofn.

    Næst hitaði ég smjör á pönnu og steikti kjötið á báðum hliðum til að loka því og fá fallegan steikingarlit á það, setti það svo í ofnskúffu og inn í ofninn. Ég lét kjötið vera í 25 mínútur, þetta voru 700-800 grömm, og svo hvíldi ég það á borði í 10 mínútur áður en ég skar það. Grænmetið var áfram inni þar til það var búið með um 50-60 mínútur. Þegar kjötið var komið úr ofninum gerði ég sósuna.

    Ég tók sömu pönnu og ég steikti kjötið í, hellti smjör/vökvanum af steikinni ofan í hana og bætti við 2 dl vatni og hrærði svo venjulega pakkapiparsósu út í. Ég sauð hana samkvæmt fyrirmælum á pakkningu og bætti svo 1/2 dl af rjóma út í.

    Þetta var allt og sumt. Svo lögðum við á borð og kveiktum á kertum og nutum matarins. Það eina sem ég hefði viljað bæta var að mig vantaði eitthvað grænt á diskinn. Það hefði getað verið soðið brokkolí eða ferskt salat eða eitthvað svoleiðis, en að öðru leyti heppnaðist máltíðin mjög vel.

    Þar til næst,
    Ragnhildur