Rss Feed
  1. Lambaskankar að hausti

    Thursday, October 16, 2014

    Það er nú meira hvað mér gengur hægt að blogga. Ég tek oft myndir af því sem ég er að bauka í eldhúsinu en svo verður mér ekkert úr því að koma því á netið. Þetta verður þá jafnvel bara haust-innleggið mitt á blogginu en það verður að hafa það, nógu bragðgóður var maturinn í það minnsta fyrir ársfjórðungsinnlegg.

    Lambaskankar eru í miklu uppáhaldi hjá mér, eldaðir þannig að kjötið fellur af beinunum, í djúsí sósu og með kartöflumús. Þessi uppskrift er samblanda af uppskrift sem ég fann á netinu, uppskrift frá mömmu og því sem var til í ísskápnum.

    Þetta er alveg frábær eldamennska því öllu er fleygt á pönnu, eða því sem næst, og látið malla, því lengur því betra. Vetrarfríið í skólanum hefst á morgun og því var þessi máltíð upphafið að langri helgi hjá okkur. Við ætlum ekki að fara neitt, en það er líka kósý að gera sér glaðan dag heima.

    Mér finnst svo fínt að eiga litlar vínflöskur í eldhúsinu til að nota í matreiðslu, við drekkum svo lítið að lítil flaska dugar í uppskriftir og svo hálft glas sem er yfirleitt meira en nóg fyrir okkur. Verandi með barn á brjósti þá er maður ekki beint að skvetta mikið í sig, en akkúrat núna er litli kútur sofnaður svo mamman fær að sötra rauðvínið sem er í glasinu á myndinni, tveimur klukkutímum eftir máltíðina.

    Ég eldaði bara tvo skanka, svo uppskriftin er samkvæmt því, en það er auðvitað tilvalið að gera 4-6 skanka fyrir stærri heimili eða fá fólk í mat. Þessi sósa ætti alveg auðveldlega að duga fyrir 3 skanka, en ég myndi tvöfalda hana fyrir 4-6 skanka. Sigurgeir torgaði heilum skanka en við Hugi deildum einum og eigum samt afgang í hádegismat á morgun. Ég skar kjötið innan út skankanum okkar fyrir hann, 9 mánaða guttar fá ekki mikið að smakka rauðvíns-tómatasósu. Hugi var líka mjög ánægður með matinn, hann borðaði allt sitt kjöt sem var sett út í gulróta-eplamauk og át svo vænan bita til viðbótar okkur til samlætis.

    Rauðvínssósaðir skankar með mús 
    fyrir 2-3

    2 lambaskankar
    ólívuolía
    1/2 laukur
    1 gulrót
    1 hvítlauksgeiri
    rósmarín
    1-2 tsk hveiti
    1/2 lítil rauðvínsflaska, kannski rúmlega, um 1 dl
    1 dós tómatar saxaðir
    1 dós vatn
    4 vænir sveppir
    1/2 paprika
    salt og pipar
    1/2 kubbur kjötkraftur ef vill
    tómatsósa

    Ég hitaði olíu í djúpu pönnunni minni og steikti skankana á hliðunum og botninum og saxaði á meðan lauk, hvítlauk og gulrót Tók þá upp úr, setti grænmetið á pönnuna og steikti. sáldraði hveiti yfir ásamt rósmarín og hellti svo rauðvíninu yfir og lét það sjóða. Bætti svo tómötum og vatni, kjötinu aftur út í, setti lokið á og lét krauma alveg vel og lengi, líklega í alveg 90 mínútur. Þá skar ég sveppina og paprikuna niður, bætti því út í og lét krauma án loks í 30 mínútur og kveikti undir kartöflum. Svo smakkaði ég sósuna til og bætti við meira rósmaríni, salti, pipar, tómatsósu og kjötkrafti.
    Útbjó kartöflumús með kartöflum, rjóma, mjólk, smjöri og salti og bar fram í stórum djúpum skálum.
    Þetta var virkilega góð máltíð, sem verður alveg ábyggilega elduð ansi oft á komandi haust- og vetrarkvöldum.











  2. 0 comments:

    Post a Comment