Rss Feed
  1. sunnudagsmaturinn

    Sunday, March 4, 2012

    Það versta við átak í matarblogginu er hvað maður verður að elda og borða mikið! Þetta er dörtý djobb en einhver verður að sjá um það.
    Ég ætlaði að hafa kjúklingasalat í kvöldmatinn og borða voða léttan og góðan kvöldverð en ég gleymdi að kaupa kál í búðinni, eitt leiddi af öðru og maturinn breyttist úr léttu salati í tveggja rétta sunnudagskvöldverð. Úbbs. 

    Kjúklingamarineringin kemur frá Barefoot Contessa via Guðrúnu systur. Í upprunalegu uppskriftinni eru þetta kjúklingalundir grillaðar á spjóti og bornar fram með satay sósu sem er algjörlega til að deyja fyrir, en marineringin er líka svo einföld og góð að ég geri hana reglulega, hvort sem er fyrir grillaðan kjúkling, bakaðan eða steiktan. Ég hef líka marinerað bringur og grillað og tekið með í útilegu, þá er nóg að henda þeim á grillið til að hita þær. Sjúklega góður og fljótlegur útilegumatur.

    Kjúklingur í sítrónulegi
    3/4 bolli ferskur sítrónusafi, ca 2 sítrónur
    3/4 bolli ólífuolía
    2 tsk salt
    1 tsk pipar
    1 msk ferskt timian eða 1 tsk þurrkað
    900 gr kjúklingabringur eða lundir

    Mér finnst best að henda þessu öllu saman í poka og láta marinerast en auðvitað má líka nota skál. Í grunnuppskriftinni er sagt að marinera kjötið í ísskáp í sex tíma en mér finnst alveg nóg að hafa það í tvo klukkutíma, jafnvel bara einn ef maður hefur ekki meiri tíma en hafa kjötið þá uppi á borði. En það fer líka eftir því hvort maður vilji virkilega sítrónuleginn kjúkling eða bara sítrónubragð. Í kvöld steikti ég bringurnar á pönnu, en ef þær eru mjög stórar og þykkar þá er betra að setja þær í ofninn, eða þá allavega skera þær niður áður en þær fara á pönnu. Best er auðvitað að grilla þennan kjúkling en ég bý á 7. hæð í blokk án svala og án grills og eftir því sem ég best veit er líka snjór á Íslandinu og ekkert veður til að grilla. 
    Við vorum sem áður bara tvö í mat svo ég gerði hálfa marineringu og var með tvær bringur. Ég sé eftir því núna, ég hefði átt að marinera fjórar bringur og eiga afgang fyrir nesti. 

    Svo skar ég væna sæta kartöflu í 8 bita og sauð í potti. Afhýddi svo og stappaði niður með smá mjólk, smjörklípu, salti og pipar. Svo var salatið bara paprika, gúrka og fetaostur með smá olíu og balsam. Alveg hreint hin fínasta sunnudagsmáltíð. En ég var komin í ham svo það varð að vera eftirréttur líka.

    Pönnukökur með banana og súkkulaði
    Ég held það sé nú algjör óþarfi að setja pönnuköku uppskrift á netið, það eiga allir uppskrift frá mömmu sinni eða frá botninum á pönnunum sem eru seldar heima. Ég gerði bara hálfa uppskrift af deigi og steikti pönnsur. Ég er soddan hippi að ég á ekki einu sinni pönnukökupönnu, nota bara einhverja þunnbotna, ójafna, hræðilega pönnu sem fylgdi með íbúðinni en pönnsurnar verða fínar samt sem áður. 
    Svo tók ég hálfa plötu af suðusúkkulaði og bræddi í smá rjómaskvettu og smurði á pönnsuna og setti bananasneiðar inn í. Toppurinn hefði svo verið ef ég hefði átt nægan rjóma til að þeyta líka en svo var ekki raunin. Þetta var samt alveg sjúklega gott og Sibbmundur varð þvílíkt glaður og hissa, en þetta er eitt það besta sem hann veit. Núna eru fjórar pönnsur eftir sem mig grunar að verði horfnar í fyrramálið.

    Svo verð ég að fara að fjárfesta í myndavél, ég tek allar matarmyndirnar á iphone-inn minn, sem er ekki næstum því nýjasta týpan, og þess vegna eru þær allar svona ómerkilegar. 

    Happy cooking! X



  2. 6 comments:

    1. Una said...

      Góð hugmynd af eftirrétti! Hey, ég fíla nýja útlitið á síðunni! Love U

    2. Hlínster said...

      Gihihiiirnilegt! Prófa þessa kjúlladressingu í kvöld. Aldrei hef ég pælt í pönnsum sem eftirrétt en þetta er auðvitað snilld.

    3. Mmmm, já ég hef lengt óvart í því að bera á borð eldsúran kjúkling eftir að maríneringin hafði fengið að virka heila nótt í ísskáp. Var alveg góður en maður á ekki að þurfa að fjárfesta í augnhrukkukremi eftir máltíð.

    4. Ragnhildur said...

      hahaha Guðrún! Hann er mjög góður súr og þá sérstaklega með Satay sósunni, en þá er það líka ekki heil máltíð, heldur bara lítill kjúklingabiti með öðru.

    5. murta said...

      Þessa dressingu ætla ég að prófa, glæsilegt.

      PS. varð ægilega glöð þegar ég sá að þú ert í Manchester :)

      Svava Rán

    6. Ragnhildur said...

      Hæ "nágranni", takk fyrir að lesa bloggið mitt :) ég les þitt reglulega og eggjabakan þín er orðin að föstum lið í mínu eldhúsi.

    Post a Comment